31.03.1978
Sameinað þing: 60. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2992 í B-deild Alþingistíðinda. (2207)

147. mál, orkusparnaður

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Ég get tekið undir það með öðrum þeim, sem hér hafa talað um þessa till., að mæla með henni. Ég tel að hún sé um mál, sem rétt er að veita meiri athygli en gert hefur verið. Við Íslendingar notum býsna mikla orku. Við þurfum á því að halda, okkar þjóðarbúskapur er þannig gerður. Innfluttir orkugjafar kosta okkur mikinn erlendan gjaldeyri á hverju ári, og inniendir orkugjafar kosta vissulega mikið líka. Það er því ekki alveg þýðingarlaust, hvernig farið er með orkuna. Ég held að við gætum sparað allmikið, ef hafinn væri verulegur áróður í þeim efnum og leiðbeiningar. Þá væri það hægt, og það er sem sagt góðra gjalda vert. En hins vegar er nú ekki hlaupið að því á öllum sviðum.

Ég ætla nú ekki, þó ég taki á þennan hátt undir þessa till., að hefja hér miklar almennar umr. um orkumálin eða það, hvernig við förum með okkar orku, en hlýt þó að minna aðeins á það, að það verður ekki um þessi mál þannig talað að ekki sé vakin athygli á því, hvað við látum mikið af orku frá okkur, Íslendingar, fyrir lítið verð, á sama tíma sem við verðum aftur að leggja okkur til orku fyrir mikið verð eftir öðrum leiðum. Það er auðvitað ómögulegt annað en að hafa þetta einnig í huga, að við nýtum þá vel okkur til handa og skynsamlega þá orku sem við eigum yfir að ráða.

En það voru alveg sérstaklega nokkur ummæli sem komu fram hjá hv. 6. þm. Norðurl. e., Inga Tryggvasyni, sem gerðu það að verkum að ég kvaddi mér hljóðs. Hann minntist á það sanngirnismál, að unnið yrði að því að tryggja landsmönnum öllum orku á sem sambærilegustu verði eða helst jöfnu verði. Ég vil taka undir þetta sjónarmið. En þó að æðioft sé um þetta talað og yfirlýsingar um þetta gefnar, þá miðar lítið í þessa átt, og það er óhjákvæmilegt að minna menn á þá staðreynd.

Það er ekki lengra síðan en í gærdag, að ég gaf hér upplýsingar, sem ég hygg að mörgum hér í Alþ. hafi þótt býsna athyglisverðar, um mismun á raforkuverði frá ríkisfyrirtækinu Rafmagnsveitum ríkisins og hins vegar frá Rafmagnsveitu Reykjavíkur sem tekin var til viðmiðunar. Ég gat þess í mínu máli, að ég hefði fengið þessar upplýsingar frá fjármálalegum rekstrarstjóra Rafmagnsveitna ríkisins einmitt þá um morguninn. Upplýsingar hans voru þær, að svonefndur heimilistaxti, sem allir þekkja í sambandi við rafmagn, var nú hvorki meira né minna en 86% hærri hjá Rafmagnsveitum ríkisins heldur en hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Stærri iðnfyrirtæki, eins og frystihús og verksmiðjur og mörg önnur iðnfyrirtæki, verða að greiða taxta sem er 86% hærri en hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur og fjöldamörgum öðrum rafveitum. Húsahitunartaxtinn hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur var 84% hærri og svonefndur ljósataxti var yfir 100% hærri. Það vakti líka athygli mína, að á þann hátt sem ég sagði frá þessu hér á þingi og kom síðan með ákveðna fyrirspurn til hæstv. forsrh. um það, hvort ríkisstj. sæi ekki ástæðu til þess eða hugsaði sér ekki að gera einhverjar ráðstafanir til þess að jafna þennan herfilega mismun sem þarna væri orðinn, þá þótti fréttamönnum, þeim sem hér hlusta á, m. a. frá ríkisfréttamiðlum, ekki fréttnæmt að segja frá því, hver væri verðmunurinn á rafmagni frá Rafmagnsveitum ríkisins og t. d. Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Íslenska Ríkisútvarpið, sem sagði frá þessum umr., steinþagði um þessar nýju upplýsingar, sem voru gefnar, eins og þetta væri engin frétt. Hins vegar þótti fréttnæmt að segja mönnum frá því, að ríkisstj. hefði ákveðið að hækka einn af þessum töxtum um 25%, húsahitunartaxtann. Það fengu menn að vita, að hann hefði verið hækkaður um 25%, en það mátti ekki segja frá því, að verðið, áður en þessi hækkun kom til, hefði þegar verið 84% hærri hjá þeim, sem skipta við Rafmagnsveitur ríkisins. Frá því var ekki skýrt. Nú á þessi taxti, húsahitunartaxtinn, að verða 130% hærri. Það verður gaman að sjá, hvort fréttamenn hér frá Ríkisútvarpinu sjá ástæðu til að segja frá því, að svona sé komið, eða hvort þeir heyra þetta ekki eða sjá ekki eða þetta er ekki fréttnæmt.

Það er nefnilega svo, að það hefur ekki þótt ýkja fréttnæmt eða það virðist ekki komast mjög langt áfram, þó að mismunurinn sé svona hroðalegur eins og þessi dæmi eru um. Og því miður hefur einnig farið svo hér á hv. Alþ., að þó að einstakir stjórnmálaflokkar og margir þm. hafi haft orð um þetta misrétti æ ofan í æ, þá gerist ekkert annað en það, að það dregur í sundur, misréttið eykst. Ég vil t. d. minna á það, að legið hefur fyrir þessu þingi og lá fyrir síðasta þingi líka till. frá okkur Alþb: mönnum um að afnema söluskattinn af rafmagni. Sú till. hefur auðvitað lengst komist í n., og svo er það búið. Síðan er auðvitað talað um það við ýmis tækifæri, að þetta séu herfileg rangindi, að vera að leggja þennan söluskatt á og láta þá aðila í landinu borga enn þá meiri skatt til ríkisins sem verða að borga hærra rafmagn. Vissulega er þarna um óréttlæti að ræða. En það verður hver og einn að spyrja sig um það, hvernig stendur á þessu. Þetta er ekki eitt af því sem kemur bara einhvers staðar af himnum ofan, þetta er ákveðið af mönnum.

Þegar sú ákvörðun var gerð hér á Alþ. fyrir nokkrum árum að ákveða sama verð á olíu og bensíni um allt land gekk það ekki hljóðalaust hér á Alþ. Ég vil aðeins minna á það: það gekk ekki hljóðalaust. Lög, sem þá voru sett um þetta, þýddu auðvitað að grunnverð á olíum hækkaði hér á Reykjavíkursvæðinu, eins og innflutningsskipulagið var þá. Það hækkaði á sama tíma sem verðið lækkaði auðvitað annars staðar á landinu við þetta jöfnunarfyrirkomulag. Hér urðu hörkuumræður um þetta mál dag eftir dag og viku eftir viku í þinginu, og það varð að takast samkomulag á milli manna úr öllum flokkum til að knýja málið í gegn. Ég er á þeirri skoðun, að það sama verði að gerast nú, að það sé engin leið að koma á jöfnuði í þessum efnum, — eflaust tekur það okkur nokkuð langan tíma að koma hér á fullum jöfnuði, — en það er engin leið að koma á jöfnuði nema einstakir þm., sem hafa komið auga á þetta misrétti, sameinist, hvernig svo sem þeir hafa skipað sér í flokka, og knýi þessa breytingu fram.

Það óréttlæti var verið að tilkynna um í gær af hæstv. ríkisstj., að hún ákveður að hækka húsahitunartaxta hjá nokkrum hluta landsmanna, þá sem voru þegar fyrir 84% hærri en víðast annars staðar á landinu, að gleðja þá, sem þannig stóð á fyrir, með því að hækka þennan taxta enn um 25% og gera hann þar með 130% hærri en hliðstæðir húsahitunartaxtar eru annars staðar. Auðvitað hefðu menn ekki átt að taka þessu þegjandi, og enn þá siður þegar það fylgdi að ríkisstj. ætlaði að setja sérstaka n. til að rannsaka alla taxta hjá Rafmagnsveitum ríkisins með tilliti til fjárhagserfiðleika stofnunarinnar og auðvitað þá með það í huga að hækka þá líka.

Í þeim umr., sem hér fóru fram í gær, lagði ég á það áherslu, að ég teldi að það yrði a. m. k. að draga úr þeim mikla mismun sem þarna væri kominn upp, það yrði að vera fyrsta skrefið, En það er auðvitað alveg rétt, að það geta verið einhverjar deilur um það, hvernig eigi að koma slíkri breytingu á. Ég er á þeirri skoðun, að það sé ekki rétta leiðin, eins og sakir standa, að hækka verðjöfnunargjaldið sem í gildi er og er þegar orðið 13% og sýndi sig að vera nægilegt miðað við þá taxta sem þá voru í gildi, bæði á árinu 1975 og 1976, en var það ekki á árinu 1977. Ég mundi þó hiklaust frekar samþ. að hækka verðjöfnunargjaldið frá því sem það er núna, ef ekki tekst samkomulag um annað til þess að ná fram þessum jöfnuði. En ég álit að það séu til aðrar leiðir til að ná þessu marki um jöfnun sem séu miklu réttlátari og eðlilegri.

Það fer auðvitað ekkert á milli mála, að það er rétt, sem kom fram í umr. í gær hjá hæstv. iðnrh., að Rafmagnsveitur ríkisins eru ekkert venjulegt rekstrarfyrirtæki sem er rekið algjörlega út frá peningalegu sjónarmiði viðskiptaaðilanna sjálfra. Þetta er þjónustufyrirtæki sem ríkið á, og það hefur verið látið taka á sig ýmis útgjöld sem vitanlega flokkast undir allt annað en venjulegan rekstur sem á að borga sig. Því er vitanlega ekki sanngjarnt á neinn hátt að þeir, sem eftir sitja sem viðskiptamenn

Rafmagnsveitna ríkisins, eigi að standa undir öllum þeim kostnaði sem þegar er búið að setja á þessa stofnun, og enn ósanngjarnara væri það í sjálfu sér eftir að t. d. búið er að skipta Orkubúi Vestfjarða út úr með þeim hætti sem það var gert. Ég deili ekki um það á neinn hátt, en þar var vitanlega um það að ræða að skilja eftir allverulegan hluta af hinum mikla stofnkostnaði Rafmagnsveitna ríkisins og létta þeim stofnkostnaði af Orkubúi Vestfjarða. En er þá nokkur sanngirni í því, að þá sé sagt við hina, sem áfram skipta við Rafmagnsveitur ríkisins: Nú takið þið þennan hluta af hinum mikla stofnkostnaði og standið undir honum líka með ykkar raforkukaupum? — Auðvitað leiðir svona stefna aðeins til þess, að þeir, sem enn þá skipta við Rafmagnsveitur ríkisins, brjótast út úr, þeir neita að skipta við þetta fyrirtæki ef á að mismuna mönnum á þann hátt sem gert hefur verið.

Það er auðvitað enginn vafi á því, að það var sanngjarnt og eðlilegt að ráðast í viðgerðirnar á strengnum til Vestmannaeyja og þær umbætur sem þar voru gerðar. En það var eðlilegt að það hefði verið gert ekki aðeins á kostnað Rafmagnsveitna ríkisins og þeirra, sem skipta við þá stofnun, heldur á kostnað þjóðarheildarinnar. Hví skyldu þá Landsvirkjunarmenn ekki eiga alveg eins að standa undir því, eins og út af fyrir sig fólk á Vestfjörðum og á Austfjörðum og Norðurlandi sem skiptir við Rafmagnsveitur ríkisins? Og þannig er auðvitað hægt að telja mörg fleiri dæmi, að það er ekki hægt, eins og hæstv. iðnrh. sagði, að líta á Rafmagnsveitur ríkisins þannig, að þær séu reknar eingöngu sem rekstrarfyrirtæki þar sem viðskiptaaðilar verði að standa undir öllum útgjöldum stofnunarinnar.

Ég vildi aðeins koma þessu að gefnu tilefni inn í þessar umr. Um leið og ég tek undir þá stefnu sem kemur fram í till., og ég tel að sú stefna sé réttmæt, þá vil ég segja það, að það er líka rétt þegar rætt er um þann hluta þessa máls að reyna að tryggja öllum landsmönnum nægilega orku og við sanngjörnu verði og við sem jöfnustu verði til alls fólks í landinu, þá verða menn að veita því athygli, hvernig þessi mál yfirleitt standa. Þó að komi fram fréttir sem segja frá þessu misrétti, þá þykir það yfirleitt ekki fréttnæmt og ekki sagt frá því. Fréttamiðlar liggja á því, neita að segja frá því. Það er furðulegt. Auðvitað er hins vegar sagt frá því, hverju forsrh. hafi svarað spurningu sem ekki var greint frá. Það er mál út af fyrir sig. En þetta er ekkert nýtt í frásögn um þessi mál. Ég vek athygli á því, að það ber mjög á þessu, að það þyki ekki stórfrétt að segja frá þessum herfilega mismun. Ég vek einnig athygli á því, að hv. þm., sem hafa komið auga á þetta misrétti og vilja leiðrétta það, það stendur á þeim að taka á málinu frekar en aðeins að orða það endrum og sinnum.

Þetta misrétti er orðið svo mikið, að það verður ekki þolað lengur, og allra síst að menn þoli að láta rétta sér slíkt ofan á misréttið, að þá skuli ríkisstj. taka ákvörðun um að auka misréttið frá því sem áður var. Slíkt er auðvitað hneyksli. Það er ekki í miklu samræmi við það sem hér var gert á sínum tíma, eins og ég minntist á, þegar ákveðið var jöfnunarverð á bensíni og olíu. Þeir, sem vilja halda sér að einhverju leyti við þá stefnu, ættu að þora að taka á því máli að vinna að því að jafna þennan aðstöðumun fólksins í landinu í sambandi við raforkuverð. Og ég endurtek það, að þó að ég telji aðrar leiðir vera miklu réttlátari og eðlilegri til að leysa fjárhagsvanda Rafmagnsveitna ríkisins en að hækka hið svonefnda verðjöfnunargjald, þá mundi ég þó standa með slíku frekar en að þola það misrétti áfram sem þarna er. Það verður þó frekar að taka þann kostinn sem er nr. 2, ef ekki getur fengist samkomulag um að gera það sem ég tel nr. 1 og er réttlátara, en það er auðvitað að ríkið sem heild verður að taka á sig hluta af byrðinni af þeim stofnskuldum sem Rafmagnsveitur ríkisins eru komnar i. Ekkert annað en að ríkisheildin öll standi undir þeim kostnaði, engin önnur leið er eðlileg eins og komið er.