31.03.1978
Sameinað þing: 60. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2998 í B-deild Alþingistíðinda. (2209)

147. mál, orkusparnaður

Tómas Árnason:

Herra forseti. Það er nú svo, að ég var búinn að gera grein fyrir afstöðu minni til þeirrar þáltill. sem hér er til umr. En inn í þessar umr. hafa fléttast ýmis önnur málefni, þó skyld, þannig að ég vonast til að hæstv. forseti leyfi stuttar aths. af minni hálfu. Ég skal stytta mál mitt að því leyti sem ekki kemur beint við þeirri tillögu, sem hér er til umr.

Ég vil fyrst víkja örfáum orðum að mismuninum á raforkuverðinu og taka undir það sem hér hefur komið fram. Það er í raun og veru engin nýjung af hálfu okkar framsóknarmanna, að við erum fylgjandi jöfnu raforkuverði um allt land. Það er yfirlýst stefna Framsfl., þó að mér detti ekki í hug að það sé hægt að koma þeirri stefnu á í einni svipan. Það er annað mál. En það er sú langtímastefna sem Framsfl. hefur lýst yfir um árabil að hann sé fylgjandi.

Ég held að það sé erfitt að koma þessu við nema annaðhvort á þann hátt að beita verðjöfnun á raforku, eins og hefur komið fram hjá ýmsum öðrum þm., eða skattlagningu sem verði síðan notuð til þess að jafna verðið. Hins vegar held ég að sú stefna sé miklu líklegri til árangurs að breyta um skipulag þessara mála. Í staðinn fyrir að það eru mörg fyrirtæki sem standa að því að byggja orkuver víðs vegar um landið, þá sé það fyrst og fremst eitt fyrirtæki sem standi að því að byggja og reka orkuverin. Það gefur auga leið, að það fyrirtæki, Landsvirkjun, sem hefur það verkefni að byggja orkuver og þjóna þéttbýlissvæðunum hér á Suðvesturlandi, býr að sjálfsögðu við svo margfalt betri rekstrarskilyrði en önnur fyrirtæki, að það hlýtur að verða auðvelt að selja raforku til notenda á miklu lægra verði en nokkur tök eru á frá tiltölulega litlum fyrirtækjum sem eiga að þjóna stórum landssvæðum. Þess vegna held ég að það sé raunhæfasta leiðin í þessum efnum að stuðla að því að gera Landsvirkjunina að landsvirkjun sem byggi orkuverin, selji orkuna í heildsölu, leggi línurnar hringinn í kringum landið og síðan geti menn eftir atvikum í landshlutunum stofnað fyrirtæki sem kaupa orkuna í heildsölu og dreifa henni til notenda.

Ég get vel sagt frá því, að ég var ekkert kátur yfir því sem lýst var yfir hér í gær um að hækka raforkuverðið, þegar af þeirri ástæðu að ég er þm. fyrir Austurland, sem er, eins og kunnugt er, þjónað af Rafmagnsveitum ríkisins. Hins vegar er alveg ljóst, að það verður auðvitað að leysa þann fjárhagsvanda sem þar er um að tefla, til þess að þetta fyrirtæki geti haldið áfram þeirri þjónustu sem því tilheyrir. En mér skilst að sú stefna, sem kemur fram í þessari verðlagningu, sé þannig, að t. d. á Austurlandi eigi menn að búa við sama upphitunarverð, þeir sem hita hús sín með raforku og olíu. Mér skilst að þannig hafi stefnan verið mörkuð. Og ég vonast til þess, að sá skilningur minn sé réttur, að þá sé tekið tillit til olíustyrksins. Þetta hef ég ekki haft aðstöðu til að kanna, en vona að svo sé.

Það kom fram hjá hv. þm. Vestf., að olíustyrkurinn væri notaður minna til þess að jafna á milli heldur en gert var áður. Ég vil geta þess í því sambandi, að það fé, sem kemur inn vegna álagningar eins söluskattsstigs í því skyni að jafna hitunarkostnað, hefur verið notað aðallega í tvennum tilgangi: annars vegar til þess að jafna hitunarkostnaðinn beint og hins vegar til þess að flýta lagningu hitaveitna í þeim tilgangi að sem flestir fái sem fyrst hitaveitur, þess vegna fækki þeim sem þurfa að hita híbýli sín upp annaðhvort með rafmagni eða olíu og þess vegna verði styrkurinn hærri í hlut hvers og eins fyrr en ella. Um þetta má auðvitað deila. Ég get t. d. sagt frá því, að ég var fylgjandi því sjónarmiði að jafna styrknum. Aðrir höfðu önnur sjónarmið og þau eiga rétt á sér. Það er auðvitað mikið hagsmunamál að flýta lagningu hitaveitna svo sem unnt er til að komast hjá því að nota alla þá olíu til upphitunar eða rafmagns sem nauðsyn ber nú til.

Ég verð að segja það, að ég hef orðið fyrir dálitlum vonbrigðum með þá staðreynd, að upphitun með raforku virðist vera miklu dýrari en menn töldu um sinn, sérstaklega þegar um er að ræða beina raforkuupphitun. Ég held að leiðin til hagsbóta í þessu efni sé fólgin í því að koma upp fjarvarmaveitum sem nota bæði rafmagn og olíu og þá sérstaklega svartolíu til þess að hita upp heil bæjarhverfi eða jafnvel heil kauptún eða kaupstaði, það sé sú stefna sem beri að marka þar sem menn sjái ekki horfur á að möguleikar verði á að hagnýta heitt vatn til upphitunar.

En ég vil gjarnan láta koma fram það sjónarmið, að ég er frekar fylgjandi því að leggja á verðjöfnunargjald til þess að leysa vandamál Rafmagnsveitna ríkisins nú heldur en að hækka taxtana eins og gert hefur verið.

Varðandi það að afla tekna úr ríkissjóði í þessu skyni, þá þýðir það auðvitað að menn verða að vera viðbúnir því að afla tekna. Og ég skil t. d. hv. 2. þm. Austurl. þannig, að hann sé reiðubúinn til að afla tekna í ríkissjóð til að leysa svona vandamál. Ég skil hann þannig, og það er vissulega leið sem kemur til álita.

Ég vil endurtaka það sem ég sagði áður, að ég álít að það sé mjög brýnt að auka á samstöðu þings og þjóðar um þessi málefni. Hér er um að ræða hagnýtingu á e. t. v. annarri þýðingarmestu auðlind þjóðarinnar. Annars vegar er landhelgin og fiskstofnarnir og hins vegar er orkan sem er í landinu, og er ákaflega þýðingarmikið að efla samstöðu í þessum málum og marka langtímastefnu sem á og þarf að tryggja í senn ódýra orku og með jafnvirði hvar sem er á landinu. Ég held að ef ekki er hægt að koma við nokkurn veginn svipuðu raforkuverði um allt land, þá hljóti það að hafa þau áhrif, þegar tímar líða, að það hvetji til fólksflutninga. Menn vilja ekki búa á landssvæðum þar sem er miklu dýrara að hita upp hús sin, vegna þess að þetta er býsna stór þáttur í framfærslukostnaði fólks hér á Íslandi. Það þarf að marka skynsamlega stefnu í þessum efnum. Ég geri mér fyllilega ljóst og er sammála því sem kom fram hjá hv. 2. þm. Austurl., að þetta tekur sinn tíma, þetta verður ekki gert í einni svipan. En þeim mun þýðingarmeira er að marka skynsamlega stefnu í þessum efnum og sem fyrst. Og ég vil ítreka það, að ég álít lauglíklegustu stefnuna vera þá að stofna eitt stórt fyrirtæki sem framleiði raforku til allra landsmanna.