31.03.1978
Sameinað þing: 60. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3000 í B-deild Alþingistíðinda. (2210)

147. mál, orkusparnaður

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Um þessa till. til þál. um orkusparnað, sem aðrar till. sem hafa verið ræddar um orkumál hér á Alþ. í vetur, hafa orðið miklar umr. og er ekki að undra.

Það er fróðlegt að heyra það hjá talsmönnum Framsfl. nú, að þeir lýsa sama áhuga og kemur fram í till. þeirra á þskj. 30 og var rætt hér í haust um betra og hagkvæmara fyrirkomulag í orkumálum. Ég vil gjarnan forvitnast um hvað þessari till. liður í n. Við töluðum með þessari till. og lýstum stuðningi við hana. Ég talaði þá fyrir hönd Alþfl. einn hér, og það var einnig talað fyrir hönd Alþb. Við lýstum allir áköfum og eindregnum stuðningi við till., og að verulegu leyti var tekið undir till. af hv. 3. þm. Vestf., þó að hann gerði eðlilega ýmsar aths. við hana. En ég fullyrði að ég muni það rétt, að hann lýsti skoðun sinni eða samstöðu um sumt í þessari till., sem eðlilegt var. En hvað dvelur þá ályktun um málið og atkvgr. á Alþ.? Það er engin afsökun, að hér sé alltaf verið að athuga málin og það sé n. að athuga málin. Við viljum fá það í ljós nú innan skamms, hve mikill meiri hluti er fyrir stefnumörkun í þessum málum og að hætta að jagast um þetta svona ár eftir ár, því það er búið að taka allt of langan tíma að marka hér ákveðna stefnu.

Þessi till. er einn þáttur í því að fá fram eðlilegan orkusparnað, og það er það sem nauðsynlegt er að fá. Maður getur ekki tekið það alvarlega þegar menn tala um að þeir séu með verðjöfnunarstefnunni og ákafir talsmenn hennar, þegar þeir láta viðgangast að umbjóðendur þeirra í ráðherrastól, vil ég segja, samþ. allt annað, gjörbreytta og öfuga stefnu. Ég marka ekki slíkar yfirlýsingar. Ég vil fá að reyna á það núna alveg á næstunni, hver afstaða manna er þegar allir þm. Framsfl. fyrir utan ráðh. standa að þessari till. á þskj. 30. Ég óskaði eftir þessu strax í októberlok eða nóvemberbyrjun, þegar till. var til umr. í haust, og vil fá þessa till. úr n., þetta er það mikið stórmál.

Till., sem hér er til umr., er um orkusparnað fyrst og fremst, og ég hef saknað þess, þó að það hafi komið fram í grg. og nokkuð í framsögu, að einn stór þáttur í orkusparnaði er skipulag á innkaupum og dreifingu á aðkeyptri orku erlendis frá. Það er olían og allt sem henni fylgir. Hvað skyldum við geta fengið olíudropann á miklu hagkvæmara verði ef hér væri eitt sterkt félag sem væri rekið á vegum ríkisins? Ríkið sér nú um öll kaupin. Ríkið ábyrgist allt. Það var fjöldi manns núna að semja um fyrstu viðskiptin við Portúgal, heil sendinefnd, jafnvel á annan tug manna. Hví þennan stóra hóp? Hví ekki tveir eða þrír valinkunnir menn? Varð ríkið að ábyrgjast allt og standa í öllu fyrir hópinn? Þetta kostar eitthvað, og einhver borgar flutninginn fram og aftur og þrefalda dreifikerfið og allt sem því fylgir.

Það má spara víða. Þessi till. gengur út á það. Að vísu er lögð áhersla á þrjú meginatriði, en þetta er eitt af þeim stóru málum. Það má spara mjög víða, svo sem að hafa flutningakerfi hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu með hagkvæmara móti. Það kostar mikið t. d. fyrir alþm. að koma hér daglega einn í bifreið til funda eða geta farið hringferð í almenningsvögnum, sem gengju hér hratt á milli. Þetta kostar allt eitthvað. Það kostar að vera .,flott“. En við höfum ekki efni á því fremur en margar aðrar þjóðir að eyða orku að gamni okkar, eins og útlitið er í þeim málum, bæði hér í nágrannalöndum og um allan heim. Þess vegna er efni þessarar till. tímabært. Menn hafa lýst ánægju sinni yfir að fá tækifæri til að ræða þessi mál og fjalla um þessi mál hér á hv. Alþ., en menn verða að gera eitthvað.

Það er vitnað í till. framsóknarmanna hér í miðstjórnarfund þeirra vorið 1976. Nú er nýafstaðinn fundur hjá þeim og raunverulega hefur ekkert skeð nema jafnvel í öfuga átt, sbr. dæmi sem skeði hjá hæstv. ríkisstj. nú fyrir örstuttu um þveröfuga verðstefnu. Það þarf eitthvað meira en ályktanir og umr. Það verður að fylgja því einhver athöfn sem er jákvæð og í rétta átt.

Við getum fagnað einum áfanga í dag hér á Alþ. og sent í huganum kveðju norður til Akureyringa, sem eru formlega að taka hitaveitu sína í notkun í dag. Það er ánægjulegt að það var hægt að ná stórum og merkum áfanga með fjárhagslegri fyrirgreiðslu til þessa stóra héraðs. Þetta er víða að gerast. Þar er orkusparnaður í verki og innlend orka í stað erlendrar orku.

Svo vildi til að rétt áður en ég kom inn í þingsalina greiddi ég orkureikning minn fyrir s. l. 101 dag, og ég má til að segja frá því, hvernig hann skiptist, til að sýna fram á að það er allmikið skattgjald lagt á beina orkusölu. Orkusalan sjálf var í 101 dag á mínu heimili 24 728 kr., verðjöfnunargjald 3 215 kr., söluskattur 4 946 kr., eða samtals 8 161 kr. á móti heinum orkukaupum á 24 728 kr., rétt um þriðjung. Vitanlega tekur þéttbýlið þarna á sig mikið gjald og þessi stofnun, hitaveita Reykjavíkur eða Rafmagnsveita Reykjavíkur, býr á gömlum og góðum grunni. Hún verðleggur þarna jöfnunargjald sem rennur til ríkissjóðs og fer í réttmæta — ég segi það þó ég sé hér í þéttbýlinu — réttmæta dreifingu og aðstoð úti um allt landið. Þetta er sú stefna sem mikill meiri hl. alþm. talar fyrir að þeir séu fylgjandi. En það vantar að fá atkvgr. um það svo menn hafi tækifæri til að sanna það, og ég óska eftir því sem allra fyrst. Þá kemur í ljós hverjir vilja standa við orð sín og tillöguflutning. Seinasta verðbreyting eykur sem sé á mismuninn, gengur alveg í þveröfuga átt við það sem mikill meiri hl. hv. alþm. hefur lýst yfir í orði og verki með tillöguflutningi.

Það hefur einnig vakið athygli mína, að á sínum tíma við samþykkt á lögum um Hitaveitu Suðurnesja kom ég inn grein þar sem heimilað var að feila niður aðflutningsgjöld á öllum stofnkostnaði. Þetta hefur ekki verið framkvæmt í raun, og hitaveiturnar úti um landið eru að berjast við það nú að fá þessum tollum frestað og sérstök lán á þetta. Þegar um önnur orkuver er að ræða, þá þykir þetta sjálfsagt mál. Hví að vera að hafa þetta svona? Hví að vera að innheimta háa tolla af stofnkostnaði af þessum orkugjafa? Ég tel þetta fjarstæðu og ekki sæmandi, jafnvel þó að ríkissjóður sé í peningaþröng. Hitaveita er eitthvert mesta happ sem við getum fengið, hvar sem hún kemur og á hvaða heimili sem vera skal á landinu. Það á að stuðla að því með fjárhagslega hagkvæmum lánum, eins og raunar hefur verið gert í stórum stíl, að fá sem víðast hitaveitu. En það er jafnfáránlegt að ríkissjóður tekur há atvinnugjöld af þeim vörum sem þarf til að koma hitaveitunni á.

Það segir hér í grg.: „Þjóðir heims leggja nú sívaxandi áherslu á orkusparnað sem ein af þeim leiðum, sem fara verður til þess að mæta áhrifum orkukreppunnar: Og eitt af stærstu málum í Bandaríkjunum í dag, og varðar hvorki meira né minna en heiður sjálfs forseta þess lands, er að gera sérstakt átak í orkusparnaðarmálum. Hann leggur heiður sinn að veði til að ná því fram. Efni þessarar till. er svo mikilvægt, eins og menn hafa viðurkennt, að það verður að reyna á það, að hugur fylgi máli í því efni, en þetta er í annað sinn, sem till. er flutt. Það er merkileg staðreynd. Raunverulegur áhugi hjá sumum er ekki meiri en svo. Það er eitthvað annað sem er þarna á bak við.

Nú vænti ég þess, að hv. þm. fái áður en langt um liður að taka raunhæfa afstöðu til þeirra mála, hvort við viljum sýna ákveðna stefnu í orkumálum og breytingu frá því sem verið hefur í mörg ár eða ekki, með atkvgr. okkar hér á hv. Alþingi.