31.03.1978
Sameinað þing: 60. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3012 í B-deild Alþingistíðinda. (2215)

147. mál, orkusparnaður

Ingi Tryggvason:

Herra forseti. Það hafa nú orðið meiri umr. um þá þáltill., sem hér átti um að fjalla, og þau orð, sem út af henni spunnust, heldur en ég hafði gert mér grein fyrir þegar ég tók hér til máls fyrr í dag. Það hefur ýmsu verið beint að mér í þessum umr. og hafði ég raunar hugsað mér að láta það sem mest fram hjá mér fara. Ég veit að hv. þm. Karvel Pálmason skilur það vel, að þar sem margir menn eru í einum flokki geta ekki allir náð því fram sem þeir helst vildu. Hann kannske skilur það jafnvel, að þegar tveir flokkar standa að sömu ríkisstj. hljóta að verða einhverjir einstaklingar í þessum flokkum sem verða að horfa á það, að það sé ekki allt nákvæmlega eftir þeirra höfði. Ég hef grun um að það hafi viljað til í minni flokkum, að menn hafi orðið ósammála og orðið að ganga sína leið hvor. Ég ætla ekki að eyða að þessu fleiri orðum, en ég veit að hv. þm. Karvel Pálmason skilur mig miklu betur en hann vill vera láta.

Mér finnst rétt að geta þess og leggja á það nokkra áherslu, að þegar ríkisstj. ákvað hækkun á rafmagnsverði til upphitunar var þó fram tekið, að verð á rafmagni til upphitunar skyldi ekki vera hærra en sem svaraði verði á olíu til upphitunar. Ég er ekki með þessu móti að lýsa yfir ánægju með að rafmagnsverðið skyldi vera hækkað. En þarna er þó ekki verið að fara yfir þau mörk sem ýmsir verða að búa við úti á landsbyggðinni. Ég er einfaldlega þeirrar skoðunar, að það þurfi að vinna að því að jafna framfærslukostnað fólksins í landinu yfirleitt eftir því sem frekast er unnt og þetta sé einn sá þáttur, orkuþátturinn, sem nauðsynlegastur sé og sjálfsagðastur. Og ég trúi því, að eftir því sem við stöndum betur að vígi með að nota eigin orku til upphitunar — alveg sérstaklega til upphitunar — þá munum við komast nær því að allir búi þarna við sama kost fjárhagslega.

Ég get ekki stillt mig um vegna orða hv. 12. þm. Reykv. áðan að segja örfá orð. Mér finnst gæta allt of mikillar viðkvæmni í orðum hans gagnvart Reykvíkingum. Ég var alls ekki með þeim orðum, sem ég lét falla hér, að höfða sérstaklega til Reykvíkinga. Ég vil t. d. geta þess, ef það mætti vera hv. þm. nokkur huggun, að í mínu kjördæmi búa menn við mjög misjafnt orkuverð og ég er alls ekki að draga taum einhvers sérstaks landshluta. Ég hygg að það sé meiri munur á almennu orkuverði — og þá á ég við raforkuverði — til heimilisnota á Akureyri og t. d. Dalvík heldur en Reykjavík og Dalvík. Það er einfaldlega skoðun mín, að þarna eigi landsmenn allir að búa við sama rétt, hvort sem þeir búa í Reykjavík, á Akureyri eða t. d. Dalvík, svo að dæmi séu nefnd. En ég nefni Dalvík vegna þess að þar selja Rafmagnsveitur ríkisins orkuna.

Hitt er svo alveg rétt, að þetta gerist ekki allt á svipstundu og það geta verið ýmsir örðugleikar á þeirri leið að jafna þessi réttindi. Ég get gjarnan sagt það, að ég er einn þeirra manna sem hafa ekki haft áhuga á að þeir, sem eru skráðir eigendur þess lands sem liggur að fallvötnum, seldu réttinn yfir fallvötnunum dýrum dómum þeim sem taka fallvötnin til orkuvinnslu. En hugsunarháttur sá, sem kom fram hjá hv. 12. þm. Reykv., hlýtur að leiða hugann að því, hvort einmitt Reykjavíkurborg hefur ekki fengið aðstöðuna til virkjunar allt of lágu verði keypta. Það hefur því miður mjög oft gerst hér á landi, að fjarlægir staðir hafa nýtt sér orkulindir dreifbýlisins og þeir, sem næstir hafa þar staðið, hafa ekki einu sinni fengið að njóta hennar í hinum minnsta mæli. Þess vegna er það, að málflutningur eins og sá, sem hér var hafður um hönd áðan, er í mesta máta óheppilegur og til þess líklegastur að vekja sundrung, en ekki til þess að vekja samstöðu og skilning. Það má endalaust um það deila t. d., hverjir eiga mestan hlut að þeirri raforku sem notuð er á þéttbýlissvæðunum, svo að dæmi séu tekin af Reykjavík og Akureyri t. d., hvort þeir, sem búa í næsta nágrenni fallvatnanna, kynnu ekki að hafa rétt á að segja nokkuð um þessa hluti, ef þessi hugsunarháttur á að ríkja, sem ég er þó andstæður, því að ég tel að þetta séu auðæfi sem öll þjóðin á, og við eigum líka að nýta þau á þann hátt, að allir fái jafnan rétt til þeirra, fjárhagslegan rétt til að njóta þeirra.

Ég tel ekki að Reykvíkingar séu vinnudýr fyrir landsbyggðina. Ég held að það sé misskilningur hjá hv. þm. að taka svo til orða, að Reykvíkingar séu vinnudýr fyrir landsbyggðina. Ég held að við séum yfirleitt alls ekki vinnudýr hver fyrir annan, heldur sé þar býsna mikill jöfnuður á milli landshluta. Ég tel ekki heldur að ég sé að vekja neinar falskar vonir þó að ég ræði um það, að réttlæti og jöfnuður þurfi að komast á í orkumálum. Ég mótmæli því algerlega. Ég mótmæli því líka, að það sé skynsamlegur hugsunarháttur að ræða aldrei um neitt annað en það sem eru kaldar staðreyndir á borðinu. Orðin eru til alls fyrst, og ef við viljum byggja þetta land og byggja það allt, þá verðum við að búa þegnum landsins, þegnum þjóðarinnar sem jafnastan rétt: fjárhagslegan rétt, félagslegan rétt til þess að búa í landinu.

Maður hnýtur örlítið um einstakt orðaval hjá hv. þm. Albert Guðmundssyni, eins og t. d. að talað sé um að það fólk, sem búi upp til fjalla, geti aldrei öðlast sambærileg kjör við þá sem búa á þéttbýlisstöðunum. Ég geri ráð fyrir að þetta orðalag sé notað til þess að undirstrika þann feikilega mun sem hlýtur að dómi þm. að vera á þeim, sem eru svo hamingjusamir að búa í þéttbýli höfuðborgarinnar, og hinum, sem búa uppi í sveit. Og raunar er það svo, að fáir Íslendingar búa upp til fjalla. Þó er hægt að finna um það nokkur dæmi, eins og íbúar Hólsfjalla og jafnvel kannske íbúar Mývatnssveitar, því að þeir búa í yfir 200 m hæð yfir sjó. Ég tel einmitt að það eigi að vera okkur metnaðarmál og sjálfsögð skylda að búa þessu fólki, sem af einhverjum ástæðum, sem yfirleitt eru félagslegs eðlis og yfirleitt eru ákaflega rökrétt afleiðing af byggð okkar í þessu landi í 1100 ár, — það eigi að vera okkur sjálfsögð skylda að búa þessu fólki sambærileg kjör og sambærilegar aðstæður við aðra þegna þjóðfélagsins, eftir því sem framast er unnt. Það verður aldrei á öllum sviðum, en það er hægt að jafna þar metin mjög frá því sem nú er.

Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þetta. Mér er ljóst að það gerast engin stórvirki í þessu máli á skömmum tíma. En ég endurtek það, að ég er mjög ákveðið þeirrar skoðunar og það er yfirlýst stefna Framsfl., að það beri að vinna að jöfnun orkuverðs og jöfnun lífsaðstöðu fólksins í landinu yfirleitt.