31.03.1978
Sameinað þing: 60. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3014 í B-deild Alþingistíðinda. (2216)

147. mál, orkusparnaður

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, líklega í lokin á þessum umr.

Í fyrsta lagi er það út af því sem hv. síðasti ræðumaður sagði, Ingi Tryggvason. Mér er það alveg ljóst, að bæði í samstarfi við aðra flokka og innan flokka fær enginn einn einstaklingur allt sem hann vill. Það var ekki það sem ég var að spyrja um í þessum efnum. Ég var að spyrja hv. þm. um það, hvort hann væri með eða móti því að hækka hitunartaxta íbúðarhúsnæðis um 25%, eins og ráðh. Framsfl. samþykktu í ríkisstj. í gær. Þessu svaraði hv. þm. ekki. Mín spurning var bara um það: Var hv. þm. Ingi Tryggvason samþykkur því, sem ráðh. Framsfl. samþykktu í ríkisstj. í gær, að hækka hitunartaxta íbúðarhúsnæðis um 25%, eða er hann á móti því? Það var spurningin og henni hefði verið auðvelt að svara, en við henni fékkst ekkert svar, þannig að enn vita menn ekkert um afstöðu þessa hv. þm. til þessarar ákvörðunar. (Gripið fram í.) Ef það á að vera svo framvegis, að menn verði að ráða í afstöðu þm. Framsfl. án þess að þeir geti sagt til um það sjálfir hver hún er, þá getur sú ráðning orðið æðimisjafnt mat manna, ef þeir geta ekki sagt um það sjálfir, hvaða afstöðu þeir hafa til hinna ýmsu mála sem uppi eru. En ef ég á að ráða í þessa afstöðu, þá ræð ég í hana á þann veg, að hann sé samþykkur þessari hækkun sem ríkisstj. samþykkti í gær. Meðan annað kemur ekki fram lít ég svo á. Ég skal upplýsa hv. þm. um það, að ég skil ósköp vel öll þau orð sem hann lætur frá sér fara. En ég skil ekki gerðirnar, þær eru ekki í samræmi við orðin. Þar er hængurinn á. Og það er svo um fleiri hv. þm. Framsfl. en þennan eina. Gerðir þeirra eru ekki alltaf í samræmi við orðin. Ég skal svo láta útrætt um þetta að sinni a. m. k.

Mig langar til að víkja örfáum orðum að því, sem fram kom í ræðu hv. 12. þm. Reykv., Alberts Guðmundssonar. Ég sakna þess, ef hann er farinn úr salnum, því að að mínu viti hefur aldrei verið jafnómaklega að fólki úti á landsbyggðinni vegið eins og fram kom í ræðu þessa hv. þm. áðan.

Það sem hann sagði um grín milli hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar og mín varðandi fjölmiðla, þá ætla ég ekki að ræða mikið um það. En ég vænti þess, að allir fulltrúar fjölmiðlanna séu hér viðstaddir enn, og mig langar til að koma því á framfæri, að þeir skýri nú skilmerkilega frá öllu því sem fram kom í ræðu hv. 12. þm. Reykv. varðandi þær fullyrðingar hans, að Reykvíkingar væru að verða vinnudýr fyrir landsbyggðina. Væri vissulega ástæða til að fá skilmerkilega greint frá því, bæði í ríkisfjölmiðlunum, því að þetta hygg ég að fólk úti á landsbyggðinni eigi fullkomlega rétt á að fá vitneskju um, hvernig hinir einstöku hv. þm. tjá sig í garð þess hverju sinni.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þessi ummæli þessa hv. þm. Þeim verður ábyggilega svarað af hálfu þess fólks sem þeim er fyrst og fremst beint til, þ. e. a. s. fólksins víðs vegar um landið fyrir utan Reykjavíkurhringinn. En sem mína skoðun á þessu vil ég þó að segja það, að ég vísa þessum fullyrðingum gersamlega á bug og tel hér ómaklega, vægast sagt, að fólki ráðist, því fólki sem hér á í hlut, þ. e. a. s. íbúum þessa lands utan þess svæðis sem tilheyrir Reykjavík og þessi hv. þm. takmarkaði sig við. Ég vil þó minna hann á það, þegar hann er að tala um að Reykvíkingar séu að verða vinnudýr fyrir landsbyggðina, að það er á óteljandi mörgum sviðum sem landsbyggðarfólk í óteljandi mörgum málaflokkum á vegum hins opinbera er sett hjá og það herfilega, ef borið er saman við þá aðstöðu sem Reykvíkingar þó búa við. Ég vil aðeins minna þennan hv. þm. á það, að allur símakostnaður er margfalt meiri úti á landsbyggðinni heldur en er hér á Reykjavíkursvæðinu. Þar er líka margfalt meiri allur kostnaður í sambandi við rafmagn. Vöruverð er mun hærra hjá fólki úti á landsbyggðinni heldur en hér á Reykjavíkursvæðinu. Og öll þjónusta, sem landsbyggðarfólk þarf að kaupa, er í verulegum mæli dýrari en sambærileg þjónusta og samskonar er hér á Reykjavíkursvæðinu. Það er því í fyllsta máta ómaklegt hjá þessum hv, þm. að vega með þessum hætti — þó í orðum sé, en líklega fylgja gerðir á eftir — að þessu fólki sem hefur búið við miklum mun verri aðstöðu af hálfu hins opinbera og þjóðfélagsins heldur en það fólk sem býr á þéttbýlissvæðinu hér, Reykjavíkurhringnum.

Ég vísa algerlega heim til föðurhúsanna þeim fullyrðingum þessa hv. þm., að þjóðfélagið hafi ekki efni á því að búa eins að þeim, sem búa úti á landi, og þeim, sem búa hér í Reykjavík. Ég vona að fjölmiðlar komi einnig þessum ummælum þessa hv. þm. vel til skila. Hann sagði áðan: Þjóðfélagið hefur ekki efni á því að búa eins að þeim, sem búa úti á landi, og þeim, sem búa hér í Reykjavík.

Ég hygg að ummæli af þessu tagi, komist þau til skila fólks, verði dæmd að verðleikum. Ekki síst vegna hinna fyrri ummæla þessa hv. þm. um að það væri ekki svo ýkjamerkilegt sem kæmi frá a. m. k. tveimur tilteknum þm., hv. þm. Lúðvík Jósepssyni og mér, að það sakaði þó að ekki væri frá því greint, þá hlýtur að vera þeim mun meiri ástæða til þess að fjölmiðlar spari nú ekki að greina skilmerkilega frá ummælum hv. þm. Alberts Guðmundssonar sem hann viðhafði hér áðan og ég hef gert í nokkrum orðum að umtalsefni. Ég vænti þess, að það komist vel til skila, og svo veit ég að þeir, sem það heyra eða lesa, eru til þess fyllilega dómbærir að fella dóm sinu um réttmæti slíkra ummæla í garð þess fólks sem hér átti og á hlut að máli.