03.04.1978
Efri deild: 73. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3022 í B-deild Alþingistíðinda. (2227)

242. mál, lyfjalög

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég hlýt að lýsa ánægju minni með þetta frv. til lyfjalaga. Ég hef að vísu ekki kynnt mér það nægilega mikið enn þá, en ég fæ tækifæri til þess í n. að kynna mér efni þess. Ég skal hins vegar játa það, að mér hefði þótt æskilegra að við hefðum séð öll þessi þrjú frv. í einu ef mögulegt hefði verið, þannig að við gætum fengið heildarmynd af þessu og tekið afstöðu okkar út frá því, hvað í hverju þeirra felst.

Það er rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að frv. um lyfjafræðingana hefur þegar verið tekið til meðferðar í heilbr.- og trn. og sent þar til umsagnar, og sama verður auðvitað upp á teningnum með þetta frv. Bæði eru þau þó það seint fram komin, að vart er hægt að reikna með því að þau fái afgreiðslu nú á þessu þingi. Því kemur það kannske ekki svo mjög að sök vegna þriðja frv., sem hæstv. ráðh. upplýsti að væri skammt á veg komið og ekki væri að vænta á þessu þingi, þó að þessi frv. komist ekki í gegn, því að þar held ég að hljóti að verða um að ræða ýmis meginatriða þeirrar skipunar þessara mála sem ég te1 að þyrfti að athuga. Ég fagna að sjálfsögðu yfirlýsingu hæstv. ráðh. um að það skipti miklu og þessu frv. sé ætlað það m. a. að stuðla að hóflegu verði lyfja.

Ég held einnig að ákvæði frv. um Lyfsölusjóð séu eftirtektarverð, og ég er sannfærður um að frv. í heild hljóti að vera til bóta. Ég sé það bara á upptalningu þeirra manna sem hafa um þetta fjallað, færir menn bæði varðandi þessi mál, lögfræðileg atriði og stéttarleg atriði varðandi það sem snertir lyfjafræðingana sjálfa. En ég sé í grg., að frá till. n. hefur einum kaflanum verið sleppt, þ. e. a. s. þeim sem í fjallaði um sölu og dreifingu lyfja, og rn. telji að sá kafli geti að ósekju beðið væntanlegs frv. um rekstur lyfjabúða og dreifingu lyfja, og þetta kom reyndar fram í máli hæstv. ráðh.

Ég get ekki stillt mig um að minna á það, að nú er nokkuð um liðið síðan þessi mál í heild komnu hér til umr. á Alþingi. 1972 voru fluttir á Alþ. tveir lagabálkar, annars vegar um Lyfjastofnun ríkisins. Það frv. var ekki endurflutt. Um það var mikill ágreiningur, sem eðlilegt mátti kannske teljast, og ég man að stjórnarandstaðan þáverandi, þ. e. a. s. Sjálfstfl., lagðist eindregið gegn þessu frv. og endirinn varð sá, að það var ekki endurflutt. Hins vegar var frv. um lyfjaframleiðslu. Það er frv. sem kemur að nokkru leyti inn á það mál sem hér er til umr., en að meginatriði er það þó því óskylt. Það frv., lagt fram af þáv. heilbr.- og trmrh. Magnúsi Kjartanssyni, fór fyrst fyrir Nd. og náði þar ekki fram að ganga, en var síðan endurflutt hér í Ed. með allmiklum breytingum. Það frv. náði fram að ganga hér í Ed., eftir að vísu nokkurt þóf og nokkrar breytingar einnig sem voru eðlilegar. Um þetta var töluvert deilt hér í deildinni, hvernig með skyldi farið. Þar voru í raun og veru almenn ákvæði um lyfjaframleiðslu, en II. kaflinn, sem var kannske veigamestur, var um stofnun sameiginlegs fyrirtækis um lyfjaframleiðslu. III. kaflinn fjallaði svo um verðlagningu, og það er nú í þessu frv. nú til lyfjalaga þó að öðruvísi sé orðað. Ég skal ekki segja hvort orðalagið er betra og hvort orðalagið tryggir betur það sem hæstv. ráðh. talaði um: að tryggja hóflegt ver. En í fyrra frv., sem fór hér í gegnum Ed., sagði svo í III. kaflanum, með leyfi forseta:

„Framleiðsluverð lyfja skal vera kostnaðarverð með hæfilegu tilliti til rannsókna- og þróunarkostnaðar. Söluverð innlendrar lyfjaframleiðslu fer að öðru leyti eftir reglum gildandi lyfjaverðskráa, sem staðfestar eru af heilbrrh.“ Svo er ákvæði um lyfjaverðlagsnefnd.

En hér er þetta stutt og laggott í þessu frv.: „Verð lyfja skal vera hóflegt. Það skal birta í lyfjaverðskrá, er ráðh. staðfestir.“

Ef þessu ákvæði er framfylgt rækilega, að verð lyfja skuli vera hóflegt, og þá auðvitað miðað við réttar forsendur og réttar aðstæður, þá skal ég ekki út af fyrir sig gera ágreining um þetta atriði. En hitt atriðið, sem ég vil vekja athygli á hér og ekki er enn þá ljóst hvernig rn. ætlar að standa að, það er sá kafli sem ráðh. vék sérstaklega að áðan. Og ég segi það enn, að ég harma að við skulum ekki sjá öll þessi frv. nokkurn veginn samhliða til þess að gera okkur grein fyrir því, hvað fyrirhugað er í sambandi við hið þriðja, sem ég tel kannske veigamest, þ. e.a. s. um sölu og dreifingu á lyfjum. Ég man ekki glöggt hvernig fór um þetta mál í atkvgr. hér á sínum tíma, varðandi þetta sameiginlega fyrirtæki um lyfjaframleiðslu, en þó man ég að eftir mikið þóf í heilbr: og trn. tókst okkur að ná samkomulagi, að ég held nokkurn veginn algerlega, um hvernig það skyldi rekið. Þetta átti vitanlega að vera gert í þeim tilgangi sem um er fjallað í þessu frv., að verð lyfja skuli vera hóflegt. Þetta fyrirtæki átti sem sagt að hafa það sem sitt höfuðmarkmið.

Ég sem sagt get stutt þetta frv. En ég vildi aðeins minna á þessi frv. og þær miklu umr. sem urðu um þau á sínum tíma. Það er auðvitað bagalegt að allt þetta kjörtímabil skuli hafa liðið án þess að þessi mál væru tekin til umr. á nýjan leik fyrr en nú í ]ok þessa tímabils og þá á þann hátt, að litlar líkur eru á að þau fari í gegn. Nú þori ég auðvitað ekki að fullyrða hvað hæstv. ríkisstj. ætlar að láta Alþ. sitja lengi og skila miklu af sér það sem eftir er vetrar. Það veitir kannske ekki af því að hressa þar svolítið upp á, því að ekki hefur verið mikið afrekað í vetur. Ef það er meiningin að hressa nú svolítið upp á þetta svona undir vorið og koma a. m. k. einhverju af þeim málum í gegn, sem hér skipta einhverju máli, þá kann að vera að við getum náð samkomulagi um þetta. En ég vil aðeins undirstrika það, að eftir er eitt veigamesta atriðið í þessu efni, eins og hæstv. ráðh. tók réttilega fram, og við getum í raun og veru ekki athugað þessi mál í fullkominni heild fyrr en við sjáum hvað þar er helst ráðgert og hvort þar er tryggð einhver sú nýskipan í sambandi við lyfjaverslunina sem a. m. k. ég get sætt mig við.