03.04.1978
Efri deild: 73. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3024 í B-deild Alþingistíðinda. (2228)

242. mál, lyfjalög

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason) :

Herra forseti. Í sambandi við það, að þessi frv. öll liggi ekki fyrir, þá geta þm. almennt séð að þessi n. er búin að starfa í fimm ár og ég hef átt marga fundi með ákveðnum nm. og við í rn. lögðum allan s.l. vetur mikla áherslu á að n. lyki störfum. Var talið í haust að þessi frv. mundu öll verða komin fram á fyrri hluta þings. En svo fer oft, að það tekur langan tíma að koma málum saman, og ekki síður þegar sprenglærðir menn eiga hlut að máli, eins og menn sjá að eru í þessari n. En þessi þrjú frv., sem er ætlað að leysa lyfsölulögin af hólmi, eru auðvitað mjög aðgreinileg. Lyfjafræðingafrv. er algjörlega sjálfstætt og afar einfalt frv. til afgreiðslu, og ég legg áherslu á að það fái afgreiðslu hér, þó að það sé seint fram komið. Það er í raun og veru svipaðs eðlis og er um menntun og viðurkenningu annarra stétta, og eins og ég sagði í framsögu fyrir því frv., þá er ég sammála þessari n. um að þetta eigi að vera sjálfstæður lagabálkur, vegna þess að lyfjafræðingar eru ekki allir inni í lyfjabúðum, heldur mjög víða, eins og kom fram í ræðu minni.

Þetta frv. er líka mjög aðgreint, en að verulegu leyti faglegs eðlis, sem ég tel að sé ekki hægt að leita mikið umsagnar um umfram þá sem stóðu að samningu þess faglega álits sem hér er lagt fram.

En í því frv., sem er ókomið, þá fannst okkur í rn. rétt að fella þennan hluta úr því og hann ætti að koma frá n., þar sem fjallað er um dreifingu lyfja almennt og m.a. rekstur lyfjabúða og lyfjaheildverslana. Mér finnst það líka fyrir mitt leyti vera ákaflega sjálfstætt frv., þegar þar að kemur.

Ég vonaðist til, að þessi frv. öll þrjú yrðu lögð fyrir þetta þing. En ég eða heilbr.- og trmrn. vildi ekki bíða með að leggja fram þessi tvö frv., vegna þess að það þarf þó nokkurn aðlögunartíma, og eins og menn sjá í frv., þá er ekki gert ráð fyrir að það taki gildi fyrr en 1. jan. 1979, svo það væri meira en um eins árs tími ef ætti að bíða með öll frv. til afgreiðslu eftir næsta þingi. Ég fyrir mitt leyti vil því mjög eindregið mælast til þess við n., að hún reyni eftir föngum að afgreiða þessi mál bæði. Eins og ég sagði áðan, er frv. um lyfjafræðinga ákaflega einfalt frv. og fljótafgreitt. Þetta er aftur það flókið, að ég hygg að þm. almennt geri sér ekki grein fyrir því, nema formaður n. af eðlilegum ástæðum, hann stendur betur að vígi en við hinir í þeim efnum, nema það sem lýtur að þeim breytingum sem við leggjum til, eins og um stjórn lyfsölusjóðs, sem er auðvitað ákvörðun sem hver og einn getur tekið, hvort rétt sé að fara inn á þá braut. Ég fyrir mitt leyti tel hana mjög til bóta og er mjög á því, að sú breyting nái fram að ganga. Hins vegar er ég ekki að segja að hvert orð í þessu frv. sé alveg heilagt mál og ekki megi breyta stafkróki í því. Mér dettur ekki í hug að halda því fram. Ef eitthvað kemur upp við nánari könnun og þá sérstaklega það sem ég óskaði sérstaklega eftir að yrði kannað af n., þá er n. auðvitað í sjálfsvald sett að flytja brtt. En þrátt fyrir það að frv. er mjög seint á ferðinni, sem er ekki til fyrirmyndar, ástæðurnar eru þessar og ekki er hægt að kenna rn. um það, að n. hafi verið sniðinn mjög þröngur stakkur í því máli, þá vona ég að þetta frv. fái afgreiðslu.