03.04.1978
Efri deild: 73. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3027 í B-deild Alþingistíðinda. (2237)

121. mál, áfengislög

Fram. (Ingi Tryggvason) :

Herra forseti. Allshn. hefur rætt þetta frv. til 1. um breyt. á áfengislögum á nokkrum fundum sínum. Frv. þetta fjallar eingöngu um breytingar á viðurlögum við brotum á áfengislögum. Í n. var nokkuð rætt um nauðsyn þess að breyta áfengislögunum að öðru leyti og koma þar ýmis atriði til umr., en frá því var horfið að gera brtt. við þetta frv. í þá átt, þar sem nm. voru raunar þeirrar skoðunar, að nauðsynlegt væri að láta fara fram heildarendurskoðun á áfengislöggjöfinni. Þess vegna varð niðurstaðan sú, að það voru gerðar að vísu smávægilegar brtt., sem hér er gerð grein fyrir á sérstöku þskj., en að öðru leyti koma ekki brtt. frá nefndinni.

Erindi bárust til n. um nauðsyn á breytingu á áfengislöggjöfinni. Sérstaklega er rætt um aldurstakmark í sambandi við sölu á áfengi og aldurstakmark í sambandi við leyfi til þess að vera í veitingahúsum og njóta þar þjónustu og raunar ýmis fleiri atriði í sambandi við áfengislöggjöfina, sem í ljós kom að ýmsir höfðu áhuga á að komið væri á framfæri. Og það er alls ekki fyrir það, að n. taldi ekki þörf á almennum breytingum á áfengislöggjöfinni, að ekki var horfið að því að vinna það verk nú.

Ég held að það sé ekki ástæða til þess að fjölyrða hér um þessar brtt., sem n. leggur til. Þær eru ekki stórfelldar, en miða að því, að tekið er upp aftur atriði úr gömlu lögunum, sem hafði verið fellt niður, en þótti við nánari athugun ekki rétt að niður væri fellt, og eins er nokkru skýrar tekið til orða um fáein atriði önnur.

Ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja um þetta, en endurtek það, að mér og öðrum nm. er vel ljóst að þetta er aðeins einn liður í þeim breytingum sem nauðsynlegt væri að gera á áfengislöggjöf.