03.04.1978
Efri deild: 73. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3029 í B-deild Alþingistíðinda. (2239)

121. mál, áfengislög

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Skynsemi og skinhelgi virðist kannske stundum svolítið erfitt að skilgreina og gera grein fyrir því, hvað sé skynsamlegt og hvað ekki, ekki síst í umr. um áfengismál.

Svo sem fram kom í ræðu hv. frsm. allshn., þá er sú breyting á áfengislögunum, sem hér er lögð til, ekki veigamikil, en þó er hún sjálfsögð. Vegna stöðugrar rýrnunar peninga okkar er nauðsynlegt að breyta tölulegri upphæð sekta án þess að lagabreytingar komi til hverju sinni. Hins vegar eru, eins og þegar hefur komið fram, margar aðrar veigamiklar breytingar sem gera þyrfti á áfengislöggjöfinni, og raunar hefur oft verið gerð tilraun til þess að breyta þeim verulega, en gengið illa. Það eru meira að segja veigamiklar ástæður til endurskoðunar á áfengislöggjöfinni nú.

Í fyrsta lagi eru fjölmörg ákvæði í lögunum, sem margir eru óánægðir með og líklegt er að finna mætti eðlilegri lausn á með gaumgæfilegri athugun. Í öðru lagi er þekking manna á skaðsemi áfengis stöðugt að aukast, og sú viðbótarvitneskja gefur fullkomna ástæðu til þess að endurskoða ýmis ákvæði laganna. Til dæmis um þörf á endurskoðun má geta þess bréfs sem alþm. fengu frá Sambandi veitinga- og gistihúsaeigenda um lög og reglur um vínveitingar, enda þótt það sé í nokkuð öðrum dúr en við erum vanir að ræða. En mér finnst ástæða til þess, þar sem þetta eru þeir aðilar sem hafa mikið með áfengislöggjöf að gera og framkvæmd hennar, þá finnst mér ekki óeðlilegt að við aðeins fáum að heyra um sjónarmið þeirra. Með leyfi forseta langar mig til að lesa hér glefsur úr þessu bréfi. Þar segir svo m. a.:

Eins og getið er hér að framan, er næsta ótrúlegur frumskógur af reglum tengdum rekstri veitingastaða og sér í lagi þeirra er einnig hafa vínveitingar. Er ekki úr vegi að tíunda hluta þess hér til glöggvunar fyrir þá er lítt þekkja til. Í áfengislögum frá 1969 segir:

Skilyrði fyrir vínveitingaleyfi er að veitingastaðir hafi á boðstólum mat — hvort sem eftirspurn er eftir honum eða ekki. Af þessu leiðir að ekki er hægt að selja vín án þess að á staðnum sé fullbúið eldhús og iðnlærður matreiðslumaður. Utan kaupstaða má aðeins selja áfengi á þeim tíma sem helst er von erlendra ferðamanna. Eftirlitsmenn skipaðir af ráðh. skulu fylgjast með að ákvæði áfengislaga og reglugerða séu haldin á veitingastöðum. Veitingamenn skulu endurgreiða ríkissjóði kostnað vegna eftirlitsins. Mun það nánast einsdæmi þegar um löggæslu er að ræða. Áður en sett er reglugerð um vínveitingar, þ. á m. um veitingatíma, álagningu og lögreglueftirlit, skal leitað umsagnar áfengisvarnaráðs. Ekkert segir til um að umsagnar veitingamanna skuli leitað. Óheimilt er veitingastöðum að selja vín nema gegn staðgreiðslu. Lögreglustjóra er heimilt að loka áfengisútsölu eða banna vínveitingar á veitingastöðum fyrirvaralaust um lengri eða skemmri tíma. Hefur þessu ákvæði oftsinnis verið beitt af litlu tilefni og stöðvað rekstur veitingastaðanna þeim til stórfellds tjóns. Óheimilt er að selja áfengi þeim sem gerst hafa sekir um óleyfilega sölu eða bruggun áfengis. Á að krefja menn um sakavottorð áður en þeir fá afgreiðslu á bar eða hvað?

Í reglugerð um sölu og veitingar áfengis segir: „Dómsmrn. auk lögreglustjóra er heimil skyndilokun veitingastaða.“ Áfengi má aðeins veita frá 12–14.30 og 19–23.30. Er ekki tímabært að lengja daglegan vínveitingatíma? Það gefur heldur afkáralega mynd af íslensku þjóðskipulagi, að erlendur ferðamaður á hóteli getur ekki fengið afgreiddan neinn drykk um miðjan dag, en hins vegar er allt í lagi að senda bí eftir flösku í ríkið fyrir hann.

Mér fannst ástæða til, vegna þess að málflutningur minn hér hefur gjarnan verið einhliða, að fram kæmi hér sjónarmið þessara manna sem svo mikið fjalla um og hafa hagsmuna að gæta af áfengislöggjöfinni og hvernig framkvæmd hennar sé. En þrátt fyrir alla þessa annmarka sem kunna að vera á því að koma áfengi ofan í landsfólkið, þá virðist það ganga furðulega vel. En annars staðar í bréfi sínu geta veitingahúsamenn einnig um það, að aðeins 13% af því áfengi, sem er drukkið í landinu, muni vera drukkið í veitingahúsum. En mikið er drukkið og afleiðingarnar alvarlegar. Til þess að sýna fram á slíkt langar mig til þess að lesa smágrein, er birtist í einu Reykjavíkurblaðanna nýlega, með leyfi forseta. Fyrirsögnin er „Áfengi er hættulegra konum en körlum.“ Vil ég aðeins lesa hér glefsur úr greininni:

„Það ern margir, sem eru í þessari hættu“ þ. e. hættu áfengisins. „T. d. er þriðji hver fullorðinn Þjóðverji í hópi þeirra sem drekka mikið, m. ö. o. 80 grömm af alkóhóli á dag eða meira. 2 millj. Vestur-Þjóðverja eru nú þegar í lífshættu vegna ofneyslu áfengis.“ — Ég tek það fram, að þetta er ekki bindindisblað sem ég er að lesa úr. — „Lifrarsjúkdómur er þar í landi í þriðja sæti meðal banameina á eftir hjarta- og æðasjúkdómum og krabbameini. Lifrin hefur verið talin geta afkastað 7 g af vínanda á klst., m. ö. o. breytt þessu magni í skaðlaus efni. Ef álagið verður meira til langframa hlaðast úrgangsefnin upp og tortíma frumum lifrarinnar.

Hitt vita menn, að sumir virðast þola álagið betur en aðrir. Læknar hafa til þessa ekki getað fundið neina skýringu á þessum mun einstaklinganna. Þeir hafa ekki getað svarað öðru til um en því, að hér sé um að ræða arfgengar hneigðir eða eitthvað þess háttar. Nýjar rannsóknir benda til þess, að kynhormónar séu forsenda fyrir mismunandi áfengisþoli manna. Lifur, sem verður fyrir árásum alkóhóls, á bersýnilega erfitt með að losna við östrogenhormónin, og þetta efni verður ekki aðeins til í eggjastokkum kvenna, heldur er það og framleitt af kynkirtlum karla, en magnið er mjög einstaklingsbundið. Ef allt er með felldu taka heilbrigðar frumur lifrarinnar við östrogeni að brjóta það niður. Frumur, sem alkóhól hefur skaðað, eru vart færar um það starf. Östrogenmagn er jafnan hátt í blóði ofdrykkjumannsins.“

Að lokum segir að þessi rannsókn á hormónum hafi sýnt að konur þoli verr alkóhól heldur en karlmenn og það komi fram nú, að lifrarskemmdum fari jafnt og þétt fjölgandi og að lifur konunnar þoli minna alkóhól á dag heldur en lifur karlmannsins og þess vegna sé nú komið svo, að lifrarsjúkdómar hjá konum fari ört vaxandi.

Þetta er tekið úr upplýsingum í einu af þeim löndum, þar sem mikið er til af börum og alkóhóls neytt í ríkum mæli, en að mestu leyti létt alkóhól, og sýnir það, sem löngum hefur verið reyndar vitað, að það er ekkert síður hætta að drekka létt vín heldur en sterk, heldur er það fyrst og fremst heildarmagnið sem um er að ræða.

Margt fleira mætti tína til um hörmuleg félagsleg, heilsufarsleg og fjárhagsleg áhrif áfengisneyslunnar, bæði á einstaklinga, á fjölskyldur og þjóðfélagið í heild, reyndar líka um vinnutap og framleiðslutafir. Það er án efa rétt, sem haldið hefur verið fram, að við töpum fleiri vinnudögum árlega vegna áfengisneyslu en af völdum verkfalla.

Um félagslega örðugleika vegna drykkju mætti flytja langt mál. Þar þekkja þó flestir til og þarf því ekki að orðlengja. Þó má geta þess. að prestar telja það viðburð ef til þeirra er leitað vegna hjúskaparörðugleika án þess að bein eða óbein orsök sé drykkjuskapur.

Þá er það vitað, að hin hræðilegustu og hörmulegustu afbrotamál, sem hér hafa komið upp á undanförnum árum, ern öll nátengd áfengisneyslunni.

Varðandi heilsufarsleg áhrif ofneyslu áfengis á líkamann, þá eru einna þekktust áhrifin á lifrina, eins og áður er getið, en auk þess eru skaðleg áhrif á heilafrumurnar mjög áberandi og hjá drykkjumönnum er heilarýrnun algengt fyrirbrigði. Sérstakar taugabólgur í fótum eru beinlínis kenndar við alkóhólisma, og áhrif ofneyslunnar á hjarta og æðakerfi eru löngu þekkt.

Allt ber því að sama brunni: ofneysla áfengis er einstaklingum og þjóðfélagi til skaða og þess vegna ber að leita eftir leiðum til þess að draga sem mest úr áfengisneyslunni.

Þrátt fyrir þær dökku hliðar, sem við okkur blasa, er kannske ekki örgrannt um að eitthvað kunni að vera að rofa til í baráttunni gegn áfengisbölinu. Starfsemi sjúklinganna sjálfra, áfengissjúklinganna, er farin að setja svip sinn á heildarstarfið. Starfsemi AA-samtakanna er löngu landsþekkt, og nú hefur bæst við hópur er hefur hið sama markmið, en berst með nokkuð öðrum hætti.

Móttökustöð fyrir ölvaða og aðra þá, sem eru í bráðri þörf, eins konar slysavarðstofa fyrir áfengissjúklinga, er eitt mesta nauðsynjamál til þess að ná árangri. Þetta er margra ára baráttumál þeirra sem gegn áfenginu berjast, en nú fyrst er einhver von um að árangur náist í því efni. Enn fremur mun hið öfluga félagsstarf áðurnefndra félaga gefa ríkulegan árangur áður en langt um líður.

Nýlega voru norskir stjórnmálaflokkar spurðir um álit þeirra á alkóhólvandamálinu. Þeim kom öllum saman um að þarna væri eitt mesta félagslega vandamál þeirrar þjóðar sem væri ástæða til þess að berjast gegn af öllum þeim mætti sem þeir ættu til. Og ég vil sérstaklega vegna þeirra orða, sem féllu hjá hv. síðasta ræðumanni, geta þess, að það, sem veldur því að ég gat ekki greitt atkv. þeirri till. hans að lögleiða framleiðslu áfengs öls í þessu landi, er ekki síst það að viðbótartegund veldur auknum drykkjuskap. Í öðru lagi vegna þess að um öl er að ræða og í huga okkar er öl í raun og veru ekki áfengi, þá er ákaflega líklegt, þar sem áfengt öl inniheldur ávanaefni, að það hljóti að leiða til þess, að líkaminn krefjist smám saman meira áfengis og þá sterkara heldur en áfenga ölið er. Þetta er í sjálfu sér eðli málsins samkv. mjög svo rökrétt, því að annars væri áfengi ekki ávanaefni.

Hins vegar er það svo, að þetta er hvarvetna um heim mikið vandamál En það eru að koma í ljós, eins og ég áður sagði, síaukin vandamál og einkum félagsleg og heilbrigðisvandamál, þannig að ætla má að farið verði að taka þetta alvarlegri tökum en hingað til hefur verið gert.