03.04.1978
Efri deild: 73. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3032 í B-deild Alþingistíðinda. (2240)

121. mál, áfengislög

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég skal ekki að óþörfu lengja þessar umr. og ekki ástæða til fyrir mig að gera það með hliðsjón af frv. eða lögunum sjálfum. Ég get mjög eindregið tekið undir ræðu hv. 2. þm. Reykn. um þá reynslu sem birt hefur verið almenningi um ofnotkun áfengis. En það er ekki síst vegna þess að ýmsir alþm. hafa fengið spurningu til sín frá fjölmiðlum, hver afstaða þeirra sé til bruggunar áfengs öls og till. hv. 2. þm. Norðurl. e. um það mál á undanförnum tveim þingum, að ég hygg, a. m. k. á síðasta Alþ., að þá tel ég ástæðu til að lýsa því hér yfir, sem ég hef reyndar gert þrívegis opinberlega áður á undanförnum árum, að ég er algerlega andvígur framleiðslu áfengs öls. Ég tel að það séu síður en svo nokkur rök, sem enn hafa komið fram, er geti sannfært mig eða mín skoðanasystkini um að það sé „menningarauki“ í meðferð áfengis eða að tilkoma þess geti með nokkrum hætti auðveldað fólki að umgangast þennan hættulega drykk sem áfengi er með betra móti, eftir að leyfð hefur verið slík bruggun öls, heldur en er í dag. Við mundum samkv. reynslu annarra þjóða aðeins auka á þann vanda sem allir viðurkenna að er ærinn fyrir hendi í landinu í dag og nefndur hefur verið í útvarpinu á löngu tímabili mesta mein aldarinnar. Meginrökin í þeim fyrirlestrum, sem þar hafa verið fluttir, og viðtölum, sem þar hafa komið fram, komu einnig fram í ræðu hv. 2. þm. Reykn. áðan, bæði frá leikmannssjónarmiði og lærðra manna, sem lagt hafa sig fram um að komast að sannleikanum í sambandi við ofneyslu áfengis. Ég trúi því ekki þrátt fyrir tillöguflutning hv. 2. þm. Norðurl. e., að hann vilji í raun auka á þann vanda sem hér er fyrir hendi.

Ég hlýt að leggja áherslu á það, sem ég hef sagt mörg undanfarin ár opinberlega, að ég tel að þetta sé ekki leiðin til bættrar „vínmenningar“, ef hægt er að tala um „menningu“ í því sambandi, að leyfa bruggun áfengs sterks öls, nema síður sé, heldur aðeins viðbót við þann vanda sem við eigum við að etja í dag. En sem betur fer er skilningur almennings að aukast á þessu viðfangsefni og þörfinni fyrir að neytt sé allra bragða til þess að berjast gegn þessu böli. Ég hygg að það verði seint fundið út fjárhagslegt tjón þjóðfélagsins sem heildar af þessum vanda og seint að fullu metinn sá voði, sem þar er á ferðinni, heilsufars-, félags- og efnahagslega. Og ég trúi því ekki, að nokkur okkar vilji í raun og sannleika bæta á þann vanda. Langtum fremur vil ég enn trúa því, sem þegar er farið að brydda á með gleðilegum hætti hjá almenningi, og að alþm. verði ekki eftirbátar í að styðja þá hugarfarsbreytingu sem er að verða með þjóðinni til þessa sjúkdóms og lærðir menn viðurkenna að hér er um sjúkdóm að ræða, en afgreiði málið ekki á jafnódýran hátt og gert hefur verið undanfarin ár með þeim hörmulegu afleiðingum sem við höfum orðið vilni að eða okkar kynslóð. Það er hvorki hægt að afgreiða vandann eða slíkan sjúkdóm með því að menn séu bara ræflar, eða eins og viljað hefur koma fram í ræðum sumra ræðumanna í þessum efnum, að hér sé um nánast geðveikiflokk fólks að ræða. Það hefur sýnt sig, að á þeim stofnunum, sem beitt hafa nýjum aðferðum til lækningar þessum sjúkdómi, hefur orðið undraverður árangur og þeir, sem lengst hafa glímt við vandann með þessum nýju aðferðum, fullyrða að enginn sé svo illa farinn af hans völdum, að ekki geti hlotið lækningu, ef byggt verði á þeim höfuðgrundvelli að sjúklingurinn sjálfur vilji berjast við sjúkdóminn. Þá megi með hjálp og aðstoð vísindamanna og áhugafólks, en ávallt þó með því fororði fyrst og fremst að viðkomandi aðili vilji takast á við sjúkdóminn, þá megi hjálpa nánast hverjum einasta manni.

Hingað til hefur því miður of oft viljað á því bera, að menn hafa viljað afgreiða þetta á sem ódýrastan hátt, og sjúkdómurinn hefur raunverulega allt fram undir síðustu ár ekki fengist viðurkenndur sem sjúkdómur, heldur eitthvað allt annað, eftir mati hvers og eins, og eiga þar jafna sök á bæði lærðir og leikir. En sem betur fer, eins og hér hefur komið fram og ég skal með glöðu geði undirstrika og votta af eigin reynslu að er rétt, þá er gleðileg hugarfarsbreyting að eiga sér stað nú með þjóðinni, og ég tel að Alþ. eigi að fylgja henni eftir svo sem kostur er, þannig að sú aðferð fái að reyna sig til þrautar og eftir öllum þeim leiðum sem tiltækar eru.

En vegna þess að ég hef orðið var við það, að það er talið að einhver skoðanaskipti hefðu átt sér stað hjá mér á síðustu árum varðandi bruggun áfengs öls, þá taldi ég nauðsynlegt að upplýsa það hér, að engin skoðanaskipti hafa ekki átt sér stað hjá mér. Ég er sömu skoðunar nú í dag og ég var fyrir um það bil 15 árum, þegar ég var fyrst spurður þessarar spurningar. Svo mikið sem ég var andvígur bruggun áfengs öls, þá er ég enn sannfærðari í þeim efnum í dag. Áfengara öl mun ekki leiða til neinnar blessunar í umgengni við þennan vanda, þótt mér sé hins vegar ljóst að vín muni áfram fylgja manninum eins og það hefur gert svo lengi sem sögur eru skráðar og að algjört vínbann sé jafnóviturlegt, en allar rýmkanir frá gildandi lögum í því efni væru óskynsamlegar nú. Þetta vildi ég að kæmi skýrt og glögglega fram, og um þau efni hef ég að engu skipt um skoðun. Reynslan í því efni talar með miklu sterkari rökum en svo, að skoðanaskipti eins eða tveggja manna hafi þar nokkur áhrif á. Í ljósi reynslunnar tel ég að bruggun áfengs öls boði einungis, eins og reynslan sýnir frá öðrum löndum, meiri neyslu áfengis eða alkóhóls og meiri óhamingju og félagslegar og fjárhagslegar þrautir, sem því hafa fylgt og ofneyslu þess mun fylgja um ókomin ár. En þessi sjúkdómur hefur nú fengist viðurkenndur sem slíkur og það á að takast á við hann sem sjúkdóm, en ekki með einhverjum sleggjudómum eða fordómum frá gamalli og liðinni tíð.