03.04.1978
Efri deild: 73. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3036 í B-deild Alþingistíðinda. (2242)

121. mál, áfengislög

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Þetta geta verið örfá orð. — Í hvert skipti sem hv. 2. þm. Norðurl. e. ræðir hér um áfengismál, þá er hann mér ráðgáta og ekki var það minna í þetta sinn. Hann segist vera á móti höftum og bönnum. Hins vegar vill hann sem sterkasta varnargarða. Hann segir að áfengi sé óhjákvæmilegur fylgifiskur okkar. Því miður eru ýmsir bölvaldar óhjákvæmilegir fylgifiskar mannkynsins, og af því stafar ýmiss konar löggjöf. Þess vegna setjum við vitanlega áfengislöggjöf. Hún er kolvitlaus, segir hv. 2. þm. Norðurl. e., og hann hefur bent á ýmislegt í því sambandi úr ræðustól hér. Allt hefur það verið firna óljóst að mínu mati, og ég hef aldrei komist að kjarnanum í því, hverju hann vildi í raun og veru breyta. Ég hef oft verið að velta því fyrir mér eftir þessar mörgu og stóru yfirlýsingar þessa ágæta hv. þm., hvers vegna í ósköpunum hann leggur ekki fram tillögur um breytingar á þessari kolvitlausu áfengislöggjöf, svo að við vitum nokkurn veginn hvað hann er að fara. Þess í stað kemur hann fram með eina ákveðna till. sem um eru mjög deildar meiningar, vægast sagt, um það að heimila bruggun áfengs öls, án allra annarra breytinga á þessari löggjöf. (Gripið fram í.) Já, ég veit að það er skoðun hv. flm., byggð á einhverri sérvisku hans, ég veit það ósköp vel, því að það getur ekki verið byggt á neinu öðru. Eins og hér hefur verið tekið fram, er hér auðvitað um hreina viðbót að ræða, ef ekkert annað er gert samhliða. En það hefur aldrei komið fram hjá hv. 2. þm. Norðurl. e., að hann vilji gera nokkuð samfara því að hann ætli að hleypa þessari viðbót þarna á okkur — aldrei nokkurn tíma. Og svo langt er gengið núna, að það vantaði ekkert annað, þegar hann var að tala um neysluvöruna áðan og fór að tala um ýmsar óhollar vörur, að hann færi að nefna brennivínið og mjólkina í sömu andránni. Það var alveg greinilega komið fram á varirnar á honum, þegar hann var að tala um hvað það gætu verið misjafnlega hollar vörur sem við létum ofan í okkur. Sem sagt, ég skil aldrei hv. 2. þm. Norðurl. e. í þessum málum. Ég held að honum sé nefnilega dálítil alvara með það, að hann vilji ráða bót á áfengisvandamáli okkar. Hins vegar held ég að till. hans um bruggun áfengs öls sé dálítið til þess að slá sér upp á henni í augum vissra aðila og hún hafi t. d. verið til þess að draga athygli frá einhverju öðru sem hv. 2. þm. Norðurl. e. stóð í á sama tímabili og þetta var. Mér hefur oft dottið þetta í hug, því að ég hef aldrei fundið neinar aðrar ástæður fyrir þessu.

En sem sagt, ég bara vona að núna fyrir þinglokin taki hv. þm. rögg á sig og sýni okkur þessa fullkomnu og skynsamlegu áfengislöggjöf sem hann vill koma á hér á landi. (JGB: Ég skal taka hv. þm. í ferðalag með mér fyrst.) Ferðalag, já, það kann vel að vera, að við þyrftum að fara í einhverja langferð, jafnvel á þessar frægu krár sem hann gerði að umtalsefni í ágætum sjónvarpsþætti okkar á milli og taldi jafnágætar og raun bar vitni. En ég hygg að það ferðalag hefði engin áhrif á skoðanir mínar, og ég hugsa að það mundi ekki breyta þessari sérvisku hans neitt heldur. Ég vildi þess vegna fá frá honum till. hans um breytingar á okkar áfengislöggjöf. Ég vildi það mjög gjarnan.

Ég skal taka undir það, að við eigum að sinna fræðsluþættinum í sambandi við okkar áfengismál. Ég get alveg tekið undir það. En það var eins með það og annað hjá hv. þm. þegar hann fór að ræða þessi mál. Mér var ekki alveg ljóst um hvað hann var að ásaka fullorðna fólkið, sem fer nú ekki með þetta sem mikið feimnismál, því að slíkur er nú drykkjuskapur þess, hann fer ekki fram sem neitt sérstakt feimnismál. Það virðist ekki vera svo, ekki hef ég orðið var við það. En það var mjög erfitt að skilja það á hv. þm., hvort hann ætti við það, að við ættum að fræða unga fólkið um skaðsemi áfengisins eða við ættum að kenna því að drekka sem allra fyrst og allra mest.