03.04.1978
Neðri deild: 69. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3068 í B-deild Alþingistíðinda. (2253)

245. mál, verðlag, samkeppnishömlur og óréttmætir viðskiptahættir

Guðmundur H. Garðarsson:

Virðulegi forseti. Ég vil hefja mál mitt með því að þakka hæstv. viðskrh., Ólafi Jóhannessyni, og ríkisstj. fyrir að hafa lagt fram þetta frv. til laga um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti. Hér er vissulega um að ræða veigamikið frv., sem felur í sér stórmerkar breytingar sem munu verða allri þjóðinni til mikilla hagsbóta, verði frv. að lögum og framkvæmt í þeim anda eins og kom fram í ræðu hæstv. ráðh. fyrr í umr.

Eins og fram kom í ræðu hæstv. ráðh. er frv. hluti af stefnuskrárloforðum núv. ríkisstj. Það skal viðurkennt, að það er nokkuð síðbúið, en eins og ráðh. sagði í frumræðu sinni og benti á felur frv. í sér svo viðamiklar breytingar og viðtækar, að ýmis atriði þörfnuðust mjög nákvæmrar athugunar og könnunar áður en þau voru sett fram í því formi sem frv. felur í sér.

Í stefnuræðu forsrh., sem flutt var í upphafi núverandi stjórnarsamstarfs, haustið 1974, sagði hæstv. forsrh. m. a., með leyfi forseta:

„S. l. 35 ár hefur verið hér á landi verðlagseftirlit, sem falið hefur í sér bein afskipti af verðlagningu í verslun, iðnaði og þjónustu. Slíkt eftirlit tíðkaðist í flestum löndum á styrjaldarárunum, en var alls staðar afnumið á árunum eftir styrjöldina nema hér á landi, þar sem því hefur verið haldið áfram í lítt breyttri mynd fram á þennan dag. Þetta verðlagseftirlit hefur alls ekki megnað að halda verðbólgunni í skefjum, sem þó átti að heita höfuðmarkmið þess. Kerfið hefur því ekki þjónað þeim tilgangi, sem til var ætlast. Það er því jafnmikið hagsmunamál launþega, neytenda, iðnaðar og verslunar að frá þessu kerfi sé horfið. Í stað þess verður að koma ný löggjöf um verðmyndun, viðskiptahætti og verðgæslu í líkingu við þá, sem tíðkast í öðrum löndum og stefnir til almenns eftirlits neytenda með viðskiptaháttum, örvunar heilbrigðrar samkeppni og eðlilegrar verðmyndunar. Slík löggjöf verður nú undirbúin í samráði við samtök launþega og neytenda annars vegar og samtök verslunar og iðnaðar hins vegar.“

Þetta sagði hæstv. forsrh. í stefnuræðu haustið 1974. Með framlögðu frv. er verið að efna fyrrgreinda stefnuyfirlýsingu.

Það var leitað umsagna fjölda aðila við undirbúning þessa frv. á fyrri stigunum. Ég leyfi mér að vísa til þess sem fram kemur með frv., að leitað var umsagna hjá m. a. Kvenfélagasambandi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Neytendasamtökunum Bandalagi háskólamanna, Félagi ísl. iðnrekenda, Verslunarráði Íslands, Kaupmannasamtökum Íslands, Vinnuveitendasambandi Íslands, Alþýðusambandi Íslands og Sambandi ísl. samvinnufélaga. En eins og við var að búast voru aðilar ekki sammála um ýmis atriði varðandi þetta frv. Í veittum umsögnum var ýmist í ökkla eða eyra. Skipulagshyggjumenn vilja greinilega viðhalda núverandi fyrirkomulagi og jafnvel setja enn meiri þvinganir á íslenska viðskiptahætti. Öðrum finnst ekki gengið nægilega langt í frelsisátt, bæði neytendum og íslenskum atvinnuvegum til hagsbóta. Viðskrh. og samstarfsmenn hans hafa við gerð frv. reynt að sætta þessi sjónarmið á grundvelli þess sem skiptir meginmáli fyrir íslensku þjóðina, þ. e. að hérlendis ríki sem mest frelsi í atvinnulífinu með þar af leiðandi hagkvæmari verkaskiptingu og möguleikum til aukins hagvaxtar.

Nágrannaríkin búa við hliðstæða löggjöf og framlagt frv. felur í sér. Verkalýðshreyfingin í þessum ríkjum, þ. á m. á Norðurlöndum þar sem hún er mjög sterk, hefur fylgt þeim viðskiptaháttum, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, og þeir viðskiptahættir hafa verið framkvæmdir á Norðurlöndunum á annan áratug. Hvers vegna skyldi það vera? Ástæðan er auðvitað sú, og hún er augljós, að reynsla þessara þjóða af frelsi og ákveðinni samkeppni er sú, að það skili betri árangri en höft og þvinganir, bæði fyrir launafólk, neytendur almennt og svo auðvitað sérstaklega atvinnuvegina og heilbrigða þróun í framleiðslu og þjónustu.

Frv. hefur þann megintilgang samkv. 1. gr. þess að vinna að hagkvæmari nýtingu framleiðsluþátta þjóðlífsins og sanngjarnri skiptingu þjóðartekna. Það skal annars vegar gert með því að vinna gegn ósanngjörnum viðskiptaháttum og hins vegar gegn samkeppnishömlum er hafa skaðlegar afleiðingar fyrir neytendur, atvinnurekendur eða þjóðfélagið í heild. Frv. tekur til hvers konar atvinnustarfsemi, svo sem framleiðslu, verslunar og þjónustu, án tillits til þess hvort hún er rekin af einstaklingum, félögum eða opinberum aðilum. Það tekur hins vegar hvorki til launa og starfskjara né til húsaleigu. Það nær ekki heldur til útflutnings né verðlagningar sem ákveðin er með sérstökum lögum.

Meginregla frv. felst í 8. gr. þess, þar sem kveðið er á um að verðlagning skuli vera frjáls þegar samkeppni er nægileg til að tryggja æskilega verðmyndun og sanngjarnt verðlag. Í frv. eru hins vegar fyrirvarar, sem gera ráð fyrir íhlutun um verðlagningu og álagningu í undantekningartilfellum, m. a. þegar um samkeppnishömlur er að ræða eða skilyrði myndast fyrir ósanngjarnri þróun verðlags og álagningar frá þjóðhagslegu sjónarmiði. Í 12. gr. frv. segir þó um þetta efni :

„Verð og álagningu má ekki ákvarða lægri en svo, að fyrirtæki þeirrar tegundar, er í 1. mgr. getur, fái greiddan nauðsynlegan kostnað við innkaup eða endurinnkaup vöru, framleiðslu, aðflutning, sölu, flutning ásamt afskriftum, svo og sanngjarnan, hreinan hagnað, þegar tekið er tillit til áhættunnar við framleiðslu vörunnar og sölu.“

Ákvæði þessarar frvgr. eru mikilvægt spor frá ríkjandi verðlagshöftum og að þeim viðskiptaháttum sem tíðkast hvarvetna um hinn frjálsa heim og tryggt hafa mun stöðugra verðlag, þ. e. a. s. hægari verðbreytingar en reyndin hefur verið hér á landi í haftajarðvegi. Frv. þetta tryggir íslenskri verslunarstétt, ef að lögum verður, tækifæri til að færa alþjóð heim sanninn um ágæti frjálsra verslunarhátta. Reynist sú samkeppni, sem hér er að stefnt, jafnvel við íslenskar aðstæður og hvarvetna annars staðar, sem engin ástæða er til að efast um, er séð fyrir endann á úrettum haftareglum sem fyrir löngu hefur dagað uppi annars staðar í ljósi reynslunnar.

Í IV. kafla laganna er fjallað um markaðsráðandi fyrirtæki og samkeppnishömlur. Með markaðsráðandi fyrirtækjum er átt við fyrirtæki, sem hafa yfir 25% veltu í viðkomandi starfsgreinum. Gert er ráð fyrir því, að verðlagsstofnun hafi visst eftirlit með slíkum fyrirtækjum, m. a. til þess að fyrirbyggja samkeppnisverðmyndun. Er í 19. gr. frv. rætt um samningaleið í því efni, en ella beitingu ákvæða 8. gr., sem grípa má til í undantekningartilfellum.

Í V. kafla, sem mér finnst að mörgu leyti mjög merkilegur kafli, er fjallað um óréttmæta viðskiptahætti og neytendavernd sem að hluta til heyrir og undir samkeppnisnefnd. Er þar að finna ýmis ákvæði varðandi neytendavernd sem ekki hafa áður verið í íslenskum lögum. M. a. er þar ákvæði um almennar leiðbeiningar og upplýsingaskyldu við framboð vara, þjónustu og annars þess, er frv. tekur til. Eru ákvæði þessi yfirleitt sótt í hliðstæð neytendalög á Norðurlöndum, en þó færð að íslenskum aðstæðum.

Staðreynd er, að við Íslendingar höfum einir vestrænna þjóða búið við verslunarhöft, sem ýtt hafa undir innlenda verðbólguþróun og skaðað okkur sem heild og einstaklinga meir en menn gera sér almennt í fljótu bragði grein fyrir. Þær leiðir verslunarhátta, sem enn haldast hér, er nú stefnt að því að afnema. Þeim var rutt úr vegi í Vestur-Evrópu fyrir áratugum, þ. á m. á Norðurlöndum, eins og ég gat um áðan. En frv. það, sem nú er lagt fram, er í aðalatriðum byggt á hliðstæðri löggjöf annarra Norðurlanda. Ég undirstrika og minni hv. alþm. á þá staðreynd, að þar hafa jafnaðarmenn ráðið miklu á löggjafarþingum um áratugi. Það var því meira en tímabært að frv. þetta kæmi fram á hv. Alþ., og er vonandi að það verði samþykkt á yfirstandandi þingi.

Ég ætla að víkja að nokkrum atriðum í ræðu hv. 2. þm. Austurl., án þess þó að fara mjög ítarlega út í ræðu hans. Sérstaklega vil ég víkja að því atriði, sem laut frjálsri álagningu.

Ég held að það sé mikill misskilningur hjá hv. 2. þm. Austurl. að halda að álagning á vöru og þjónustu, þ. e. a. s. vöru og þjónustu sem atvinnulífið lætur í té, sé bölvaldur við afkomu launamanna á Íslandi Ég minni hv. þingmenn á, og þm. yfirleitt, að heildarskattheimtan mun vera mun þyngri baggi fyrir hinn almenna launamann á Íslandi en sú álagning sem íslenskt atvinnulíf býr við. Vitað er að af heildartekjum þjóðarinnar fara 50–60% í skattheimtu, þ. e. a, s. til opinberra þarfa og uppskiptingar á þeim vettvangi. Hv. þm. sagði í ræðu sinni, að frv. virtist eiga litlu fylgi að fagna hjá ýmsum aðilum. Ég vek þó athygli á að umsagnir þær, sem með frv. fylgja, eru yfirleitt frá árunum 1976 og 1977 og hafa hugmyndir að frv. tekið þó nokkrum og ágætum breytingum í meðförum hjá starfsmönnum viðskrn., eins og sést ef þetta hvoru tveggja er borið saman. Svipað lagafrv. var lagt fram árið 1969.

Það er auðvitað rétt, sem hv. 2. þm. Austurl. sagði, að frv. sem þetta er mjög vandmeðfarið. Þess vegna er ekki við því að búast, að ýmsir hagsmunahópar og ég vil segja ýmsir ráðríkir hagsmunahópar vilji láta taka ráð úr höndum sínum eða það vald sem þeir hafa haft í sambandi við ákvörðun á verðlagi og verðlagningu vöru og þjónustu hérlendis í áratugi. En það er svo allt annað mál út af fyrir sig að láta örfáa menn fjalla um verðlagningu með þeim hætti. Hérlendis getur slíkt verið böl fyrir þá, sem við það verða að búa. Á ég þá sérstaklega við þann hluta fólks í atvinnulífinu, sem hefur orðið að lúta þeim úrskurði sem meiri hluti verðlagsnefndar hefur kveðið upp á hverjum tíma. En grundvallaratriði er að gera sér grein fyrir því, að núverandi fyrirkomulag stendur eðlilegri og réttri verðmyndun og frjálsri atvinnuþróun fyrir þrifum. Þetta viðurkenndi hv. þm. raunverulega í ræðu sinni, þó að það kæmi ekki beint fram í henni. Hann viðurkenndi margsinnis, að auðvitað þyrfti að gera einhverjar breytingar á ríkjandi ástandi.

Ég minni einnig á það, að Alþ. fjallaði um hliðstæða löggjöf árið 1969. Þá var málið mikið rætt á hv. þingi og munaði litlu að ný lög yrðu samþykkt sem stefndu í sömu átt eða svipaða. Hins vegar kemur það engum á óvart. að fulltrúar svokallaðrar skipulagshyggju skuli vera á móti allri breytingu í þá átt hérlendis, að hér ríki svipaðir viðskiptahættir og hjá helstu viðskiptaþjóðum okkar Íslendinga. En ef við viljum forða þessari þjóð frá einangrun er okkur nauðsyn og ég vil segja brýn nauðsyn að búa við svipaða viðskiptahætti og þær þjóðir, sem við höfum helst viðskipti við. Það er einnig vitað að skipulagshyggja, höft og þvingunarreglur á viðskiptasviðinu eru liður í „sósíaliseringu“ þjóðarinnar. Allt slíkt færir hana nær þeirri ánauð sem gerir frjálsa menn að þrælum. Það er hægt að gera smátt og smátt hægt og sigandi. Því miður hefur stefnt of mikið í þá átt hérlendis á liðnum áratugum.

Frv. til laga um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti er spor í frelsisátt og felur í sér veigamiklar breytingar neytendum í hag og öllum landslýð. Það er óhrekjanleg staðreynd, að frjálsir viðskiptahættir hafa stórbætt kjör alls almennings í þeim löndum sem þeir hafa fengið að njóta sín í. Flestir eru sammála um galla núverandi kerfis. Báðir hv. ræðumenn, sem talað hafa á undan mér, viðurkenna þá. Og hæstv. viðskrh. hefur lagt sitt lóð á vogarskálina til að auka frelsi í viðskiptum og í atvinnulífinu með því að leggja fram þetta frv.

Án nokkurs vafa má betrumbæta ýmislegt sem í frv. er. En eins og hæstv. viðskrh. sagði í framsöguræðu sinni er um að ræða svo víðtæka löggjöf, að ekki verður við öllu séð í fyrstu gerð. Frv. er þó spor í rétta átt. Alþingi er sú stofnun sem á að setja meginreglur um samskipti manna almennt. Þær reglur eiga að gera fólki auðveldara að taka ákvarðanir á hvaða sviði sem er. Frv. til laga um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti stefnir í þá átt. Því ber hv. Alþ. að samþykkja það í þeirri mynd sem það liggur fyrir í.