03.04.1978
Neðri deild: 69. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3081 í B-deild Alþingistíðinda. (2256)

245. mál, verðlag, samkeppnishömlur og óréttmætir viðskiptahættir

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið, en vil aðeins segja nokkur orð í tilefni af seinni ræðu hæstv. ráðh.

Hann svaraði spurningum, sem komið höfðu fram, um framkvæmd meginatriðis frv. um frjálsa álagningu, frjálst verðlag. Sagði hann eitthvað á þá leið, að samkeppnisaðstaða væri hugtak sem skilgreiningar þyrfti við, þá skilgreiningu ætti verðlagsráð að setja fram. Eins og mál standa nú, er því ekki hægt að fá upp gefið hjá hæstv. ráðh., hvaða skilgreiningu hann vill gefa á þessu efni frv., frjálsri álagningu eða frjálsu verðlagi sé samkeppnisaðstaða fyrir hendi. (Dómsmrh.: Það er ekki 100% öruggt, að ég verði í sæti viðskrh. að sex mánuðum liðnum.) Það var ekki það, sem var verið að spyrja um, hvort hæstv. núv. viðskrh. yrði í viðskrn. að sex mánuðum liðnum eða ekki. Það var verið að spyrja um viðhorf hans til þessa efnisatriðis frv. sem hann sjálfur er að leggja fram. Hvaða viðhorf hefur hann til þessarar meginstefnu frv. núna, hvort sem hann verður ráðh. eftir sex mánuði eða ekki? Það er spurningin.

Hæstv. ráðh. viðurkenndi auðvitað það, sem hér hefur verið bent á, að slík samkeppnisaðstaða er þeim mun ólíklegri þar sem markaðurinn er smærri. Og það svar hæstv. ráðh., að lögin giltu auðvitað um allt land, fullnægir ekki, a. m. k. ekki þeim spurningum mínum, hvort þetta hefði sömu áhrif á stöðum eða svæðum sem hefðu einvörðungu eina verslun, hvort viðskiptavinir á þeim svæðum nytu sömu aðstöðu til hins betra — eins og oddvitar frv. halda fram — í lækkuðu vöruverði og t. d. þeir sem búa á svæðum eins og Reykjavík, þar sem þessi samkeppnisaðstaða væri hugsanlega fyrir hendi. Það er auðvitað mergurinn málsins, að ef svo er ekki, þá er verið að gera upp á milli landsmanna eftir því hvar þeir búa. Það er aðalatriðið. Ef það er rétt, sem höfundar frv. og fylgismenn þess gera ráð fyrir, að frjáls álagning eða frjálst vöruverð lækki vöruverð hvort sem er, þá kemur það viðkomandi viðskiptavinum til góða á þessu svæði, þar sem samkeppnisaðstaðan verður hugsanlega fyrir hendi, en ekki á öðrum stöðum. Þar í liggur auðvitað munurinn. Hæstv. ráðh. fullyrti ekki einu sinni, að að hans mati væri nægileg samkeppnisaðstaða fyrir hendi t. d. í matvöruverslun, en þó taldi hann það líklegt.

Þá víkur að því svari hæstv. ráðh., að þó að svo háttaði á sumum stöðum að aðeins væri ein verslun, þá væri sem betur fer svo guði fyrir að þakka, — held ég að hann hafi orðað það, hæstv. ráðh., — að samgöngur væru það góðar að menn gætu keyrt á milli. Það er nú ekki einu sinni svo guði fyrir að þakka. Í heilum landshlutum eru menn þannig settir stóran hluta úr árinu, að þeir verða að gera svo vel að una á sínum stað án þess að geta farið í verslanir á öðrum stöðum. Þetta leysir því ekki vandann. Samkeppni verður ekki í þessum tilfellum, vegna þess að ekki er hægt að fara á milli staða. Að mínu viti er því ósvarað enn þeirri spurningu, hvort hér sé enn verið að auka á misræmi og ranglæti með tilkomu þessarar hugsanlegu löggjafar. Ég hygg eða a. m. k. eru í mínum huga meiri líkur fyrir því, að svo sé, en verið sé að lagfæra til meira réttlætis. (Dómsmrh.: Það er ekki ætlunin eins og hv. þm. veit.) Nei, ég er ekki að segja, að það sé ætlunin. Ég hef ekki sagt að ætlunin væri þessi. (Dómsmrh.: Það á að meta þetta með tilliti til landsins alls. Það hélt ég að ég hefði sagt nokkuð skýrt.) Ég óttast að þó að sá aðili, sem hæstv. ráðh. segir að eigi að meta þetta, sem er verðlagsráðið, sé allur af vilja gerður til að finna jákvæðustu lausnina á málinu, þá verði eigi að síður sú reyndin að aukið verði á þann ójöfnuð sem fyrir hendi er, en hann verður ekki minnkaður.

Ég ætla að taka fram sérstaklega út af því sem ég sagði um framkvæmd á verðlagseftirliti, að ég var ekki að vega að neinum þeirra einstaklinga sem í því hafa starfað. En ég vil aðeins benda á, — ég held það sé rétt, ég bið hæstv. ráðh. að leiðrétta mig ef ég fer með rangt mál, — að það er einvörðungu einn starfsmaður verðlagseftirlitsins á Vestfjörðum, á öllum Vestfjörðum. Og allir þeir, sem til þekkja í þeim efnum, geta séð hvernig verðlagseftirlit það er í reynd, ef einn maður á að annast svæði eins og Vestfirði alla. Mér er ekki kunnugt um hvort þeir eru fleiri starfandi t. d. á Austfjörðum eða Norðurlandi, ég skal ekkert um það fullyrða, en ég held að þetta sé rétt hjá mér, að það sé aðeins einn starfsmaður verðlagseftirlitsins á Vestfjörðum, en hann á að sjá um framkvæmd verðlagseftirlits á öllu því svæði. Það mætti fyrr vera afkastamaðurinn sem gæti sinnt því verkefni svo vel væri. Þetta var það sem ég átti við, að eins og þessi mál hafa verið rekin er verðlagseftirlit í raun og veru lítið sem ekkert í reynd.

Um það sem hæstv. ráðh. sagði, að ánægjulegt væri að heyra að við teldum valdið betur komið í höndum hans sem oddaaðila en hér væri gert ráð fyrir, skal ég ekkert segja. Ég hygg að sá gæti sest í sæti viðskrh. sem hugsanlega væri andstæðari þeim sjónarmiðum, sem ég aðhyllist í þessum efnum, en núv. hæstv. viðskrh. er. En spurningin er ekki um hann persónulega sem ráðh. Ráðh. koma og fara. Ég held að ekkert fari milli mála, að áhrif launþegahreyfingarinnar eða launþegasamtakanna í hinu nýja verðlagsráði, sem frv. gerir ráð fyrir, eru skert frá því sem nú er.

Mér finnst í raun og veru merkilegt að heyra að frv. sem þetta hefur ekki verið rætt í þingflokkum stjórnarflokkanna. Einungis hæstv. ríkisstj. hefur rætt þetta mál og stendur að því. Ég er að vísu ekki þingvanur, en mér þykir ólíklegt að mörg dæmi séu þess að svo stórt, viðamikið, vandmeðfarið og viðkvæmt mál sé ekki einu sinni rætt í viðkomandi stjórnarflokkum áður en það er lagt fram sem stjfrv. Sú er þó raunin varðandi þetta.

Ég skal ekki, herra forseti, hafa þessi orð fleiri en ég vil aðeins ítreka, að engin svör hafa komið við því frá hæstv. ráðh., hvaða mat hann leggur á samkeppnisaðstöðu nú með tilliti til landssvæða eða með tilliti til vöruflokka eins og ástandið er í dag. Það er að mínu viti nauðsynlegt að fá vitneskju um það; hver framkvæmd er hugsuð að þessu leyti, því að mergurinn málsins er sá, a. m. k. er það mitt sjónarmið, að fá vitneskju um það, hvort enn er verið að gera ráðstafanir eða setja löggjöf sem eykur frekar en nú er misréttið og óréttlætið að því er varðar hærra, mun hærra vöruverð úti á landsbyggðinni en er hér á þessu svæði. Mér sýnist að þetta frv. a. m. k. geti orðið til þess að svo verði En engin svör hafa fengist við því frá hæstv. ráðh., hvert hans mat á framkvæmdinni verði. Það harma ég. Kannske kemur það fram í meðförum viðkomandi n. En eins og málið blasir við mér núna og ég met það; þá er ég andvígur frv.