04.04.1978
Sameinað þing: 61. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3089 í B-deild Alþingistíðinda. (2260)

143. mál, hönnun nýs alþingishúss

Forsrh. (Geir Hallgrímsson) :

Herra forseti. Ég hef aflað mér upplýsinga frá húsameistara ríkisins í tilefni af fsp. hv. þm. Magnúsar Kjartanssonar, og tjáir yfirarkitekt húsameistara, Garðar Halldórsson, mér í sambandi við fsp. til forsrh. frá Magnúsi Kjartanssyni alþm. á þskj. 303 varðandi hönnun nýs alþingishúss eftirfarandi :

Embætti húsameistara ríkisins hefur gert athugun á byggingarmöguleikum á lóðum Alþingis svo og framtíð núverandi húsrýmis. Verður þetta nánar skýrt í grg. sem afhent verður forsetum Alþingis. Eiginleg hönnun nýbygginga hefur ekki hafist, því að málið er enn á frumathugunarstigi. Þegar til hönnunar nýbygginga kemur er sjálfsagt, að tekið verði fyllsta tillit til þess, að fatlað fólk fái athafnað sig hvarvetna innan bygginganna.