04.04.1978
Sameinað þing: 61. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3090 í B-deild Alþingistíðinda. (2263)

143. mál, hönnun nýs alþingishúss

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Varðandi efni þessarar fsp. vil ég geta þess, að í Ed. hefur þegar verið samþykkt frv. til byggingarlaga og það frv. liggur nú fyrir Nd. til afgreiðslu. Í þessu frv. er tekið fram, að allar opinberar byggingar skuli hannaðar með tilliti til umferðar fatlaðra og aldraðra og það ákveðið í byggingarsamþykktum. Enn fremur má geta þess, að á vegum nefndar er nú starfandi byggingaraðili sem hefur í alllangan tíma kannað umferðarmöguleika fatlaðra í ýmsum opinberum byggingum í höfuðborginni og er á leið með að gera um það skýrslu. Ekki er ég viss um að hann hafi kynnt sér aðstæður hér í alþingishúsinu, en alla vega hefur hann komist að þeirri niðurstöðu, að okkur sé mjög ábótavant í þessu efni og full ástæða til þess að leggja nokkurt fé árlega í það að lagfæra byggingar, sem þegar eru í notkun, með tilliti til þess að þær verði hæfari til umferðar fyrir fatlað fólk.