04.04.1978
Sameinað þing: 61. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3091 í B-deild Alþingistíðinda. (2265)

351. mál, gjaldtaka á fjölsóttum stöðum í umsjá ríkisins

Fyrirspyrjandi (Jón Árm. Héðinsson) :

Herra forseti. Á þskj. 405 hef ég leyft mér að bera fram svo hljóðandi fsp.:

„1. Á hvaða staði hefur verið sett gjald samkv. 36. gr. laga um skipan ferðamála?

2. Hvað hefur innheimst mikið fyrir hvern stað og hvað hefur það kostað í innheimtu?

3. Hvernig hefur því fé verið ráðstafað, sem innheimst hefur?“

Í 36. gr. umræddra laga segir svo með leyfi forseta:

„Ráðh. er heimilt að ákveða, að fenginni umsögn Ferðamálaráðs, að greitt skuli sanngjarnt gjald fyrir þjónustu, sem veitt er á stöðum í umsjá ríkisins, enda sé fé það, sem þannig safnast, að frádregnum innheimtukostnaði, eingöngu notað til verndar, fegrunar og snyrtingar viðkomandi staðar, og til að bæta aðstöðu til móttöku ferðamanna.

Ákvæði þessi taka þó ekki til þjóðgarða eða annarra svæða á vegum Náttúruverndarráðs, nema samþykki þess komi til.“

Mér er kunnugt um það, að á nokkrum stöðum hefur þetta gjald verið tekið, og þess vegna er það ósk mín og ég veit fleiri manna, sem hafa greitt þetta gjald á viðkomandi stöðum, að sjá þess árangur, að féð sé notað samkv. þessari grein, það er tilefni þessarar fsp.