31.10.1977
Neðri deild: 10. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í B-deild Alþingistíðinda. (227)

52. mál, ættleiðingarlög

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það frv. til ættleiðingarlaga, sem hér er nú lagt fram, hefur legið fyrir tveim þingum. Fyrst var það að vísu lagt fram meira til kynningar heldur en ætlast væri til að það yrði afgreitt.

Frv. er samið af svokallaðri sifjalaganefnd, en í henni eiga sæti dr. Ármann Snævarr, Baldur Möller ráðuneytisstjóri, frú Auður Auðuns fyrrv. ráðherra, og ritari hefur verið Guðrún Erlendsdóttir hrl., sem er kennari í þessum fræðum við Háskóla Íslands.

Þetta frv., ef það verður að lögum, á að koma í stað laga nr. 19 1953, um ættleiðingu, og tvennra laga um breyt. á þeim lögum sem síðan hafa verið samþ.

Fyrstu heildarlög um ættleiðingu, sem sett voru hér á landi, voru þau lög sem ég nefndi áðan, lög nr. 19 frá 1953. Það var að vísu svo, að lög um ættleiðingu voru eitt af þeim málefnum innan fjölskylduréttarins sem norræn samvinnunefnd fjallaði um á sínum tíma og leiddi m.a. til þess, að bæði hjúskaparlög og eins lög um börn, bæði skilgetin og óskilgetin, voru lögtekin á sínum tíma, þó Íslendingar ættu ekki beina aðild að þeirri samvinnu á þeim tíma. Þessi samvinna leiddi til þess að lög um ættleiðingu voru sett á Norðurlöndunum upp úr 1920. En hér á landi urðu lög um ættleiðingu út undan og ekki sett heildarlög um það efni fyrr en á árinu 1953. Í stað þess var farið eftir ýmsum dreifðum lagaákvæðum og svo nokkuð í framkvæmd eftir svipuðum reglum og giltu eftir Norðurlandalögunum.

Það er ekki hægt að segja að í þessu frv., sem hér liggur fyrir, felist nein stefnubreyting frá núgildandi lögum, og í þessu frv. er ekki um að ræða stórvægilegar breyt. frá gildandi lögum. En í þessu frv. eru sett skilmerkileg ákvæði um sitthvað og auk þess að sjálfsögðu gerðar ýmsar minni háttar breytingar á einstökum atriðum.

Þessu frv, fylgir ítarleg grg. Í II, kafla grg. eða athugasemdanna er skráður fjöldi ættleiðinga hér á landi og gerður nokkur samanburður á tíðni þeirra hér og á Norðurlöndum. Í III. kafla eru teknar saman á glöggan hátt þær helstu breyt., smáar og stærri, sem um er að ræða. Ég sé ekki ástæðu til þess, herra forseti, að fara að endursegja þær hér. Loks eru í IV. kafla athugasemdanna með frv. aths. við einstakar greinar frv.

Þar sem hér hefur áður verið mælt fyrir þessu frv. í þessari hv. d. sé ég ekki ástæðu til að orðlengja frekar um það í framsögu að þessu sinni. Það má í stuttu máli segja að það sé í megindráttum sniðið eftir hliðstæðri löggjöf á Norðurlöndum.

Ég leyfi mér að vonast til að þetta frv. fái afgreiðslu á þessu þingi. Ég held að það sé óhætt að segja að það sé talsvert viðaminna og einfaldara en það frv. sem greidd voru atkv. um áðan og vísað til n. og ég mælti fyrir á síðasta fundi hv. deildar, þ.e.a.s. frv. til barnalaga. Ég vona þess vegna, hvað sem um það frv. kann að verða, að þá sjái hv. d. og hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar, sér fært að afgreiða það á jákvæðan hátt.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og til hv. allshn.