04.04.1978
Sameinað þing: 61. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3092 í B-deild Alþingistíðinda. (2270)

176. mál, risna fyrirtækja

Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds) :

Herra forseti. Við Alþb.-menn höfum margsinnis bent á það við umr. um skattamál hér á Alþ., að fyrirtæki greiddu ekki skatt af umsvifum sínum og rekstri með eðlilegum hætti. Við höfum bent á, að orsakir þessa væru margar og þá einkum fjölmargar ívilnunarreglur skattalaga. Um þetta mál hef ég flutt þáltill. sem er nú til athugunar í nefnd.

Ég hef hins vegar leyft mér að spyrja hér um einn athyglisverðasta þáttinn í reikningum fyrirtækja, einn af þeim þáttum sem veldur því, að fyrirtæki sleppa oft heldur vel við skattgreiðslur. Þar á ég við risnu fyrirtækjanna. Ég er ekki þeirrar skoðunar, að risnukostnað fyrirtækja beri alfarið að afnema. En ég vek á því athygli, að á þessu sviði er mikil hætta á misnotkun og enginn vafi að heimild skattalaga um þetta efni hefur verið og er misnotuð í stórum stíl. Það hlýtur að sjálfsögðu að vera stór spurning, hvort ekki er unnt að setja strangar hömlur við því að kostnaður af þessu tagi sé misnotaður í þeim tilgangi að létta skattgreiðslum af fyrirtækjum, og alveg ljóst, að um þetta efni verða að gilda mjög strangar reglur. En mér er nær að halda að svo sé ekki.

Ég hef leyft mér að bera fram fsp. um þetta efni, svo hljóðandi:

„1. Hvaða reglur giltu um frádrátt frá tekjum fyrirtækja vegna risnu við álagningu skatta árið 1977?

2. Hve mikilli fjárhæð nam þessi frádráttur hjá skattskyldum félögum við álagningu skatta árið 1977, upphæðin samanlögð eftir framtölum eða áætluð samkv. hæfilegu úrtaki?“

Ég held að þessar fsp. skýri sig nokkuð sjálfar. Síðari spurningin er um risnukostnað hjá skattskyldum félögum og ég vek á því athygli, að þar með er aðeins um að ræða þann hluta atvinnurekstursins, sem rekinn er í félagsformi. Mér er ljóst, að vegna þess að þetta mun ekki vera sérstakur liður í tölvuúrvinnslu skattyfirvalda, þá myndi það kosta óhæfilega fyrirhöfn að leggja þetta nákvæmlega saman miðað við hvert og eitt framtal og hef því stungið upp á því í fsp., að svarið fáist með áætlun samkv. hæfilegu úrtaki, en ég vek hins vegar á því athygli, að eðlilegast væri við úrvinnslu skattagagna, að þessi liður væri sérstaklega færður þannig að ávallt væri hægt að hafa þessa tölu nákvæmlega til reiðu þegar um hana væri spurt með líkum hætti og unnt er að svara því með tiltölulega mjög lítilli fyrirhöfn, hve mikið fyrirtæki hafa lagt í varasjóð samkv. heimildum skattal. eins og hvað eftir annað hefur verið spurt um hér á Alþ.