04.04.1978
Sameinað þing: 61. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3095 í B-deild Alþingistíðinda. (2272)

176. mál, risna fyrirtækja

Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. svar hans. Ég held að það fari ekkert á milli mála af svari hans, að hér er um athyglisvert mál að ræða.

Það fór eins og mig grunaði, að ríkisskattstjóraembættið valdi síðari kostinn sem á var bent, þ. e. a. s. að gert væri hæfilegt úrtak og upphæðin áætluð, og það reyndist ekki vera nein smáupphæð sem út úr þeim útreikningi kom, þ. e. a. s. 300–350 millj. kr. sem heildarrisnuútgjöld skattskyldra félaga eru talin hafa verið. Þessu til viðbótar koma svo hugsanlega risnuútgjöld annarra fyrirtækja sem rekin eru á ábyrgð einstaklinga. Ef þessi upphæð er höfð til hliðsjónar og þá miðað við upphæðina, sem niðurstaða úrtaksins sýndi, þ. e. a. s. 343 millj. kr., þá er ljóst við einfaldan útreikning, að ríkið hefur orðið af skatttekjum aðeins af þessari ástæðu sem nema 181 millj. kr. Ég vek á því athygli, að í svari hæstv. ráðh. kom skýrt fram, að um þetta efni eru ekki til neinar skýrar almennar reglur. Ríkisskattstjóri hefur valið þann kostinn að fela skattstjórum að hafa hliðsjón af úrskurðum ríkisskattanefndar, en að öðru leyti hefur það verið frjálst mat þeirra sem þarna hefur ráðið. Ég held að það geti ekki dulist neinum, að hér er mikil hætta á ferðum hvað misnotkun snertir og þörf á miklu strangari og skýrari reglum um þetta efni en nú eru í gildi. Það er alveg ljóst, að hér getur verið um talsvert hærri fjárhæðir að ræða heldur en komu fram í svari hæstv. ráðh., og ég vil mjög mælast til þess við fjmrn. að það hugaði að því að setja reglur um þetta efni með útgáfu reglugerðar.