04.04.1978
Sameinað þing: 61. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3095 í B-deild Alþingistíðinda. (2274)

185. mál, Álafoss hf.

Forsrh. (Geir Hallgrímsson) :

Herra forseti. Ég hef óskað eftir skýrslu Framkvæmdastofnunar ríkisins í tilefni af fsp. hv. þm. Þórarins Þórarinssonar og tel réttast að hér komi fram sú grg. sem Framkvæmdastofnunin hefur gert í tilefni þessarar fsp.

Fyrst er spurt: „Af hverju er Álafoss hf. ríkisfyrirtæki?“

Álafoss hf. er ekki ríkisfyrirtæki samkv. þeim skilningi, sem almennt er í það orð lagður, segir Framkvæmdastofnun ríkisins. Ríkisfyrirtæki eru fyrirtæki hins opinbera sem komið er á fót samkv. sérstökum lögum. Því teljast ekki ríkisfyrirtæki þau hlutafélög sem ríkið eða opinberar stofnanir eru eigendur hlutafjárins að meira eða minna leyti. Hins vegar á Framkvæmdasjóður Íslands nú allt hlutafé í Álafossi hf. og hefur svo verið síðan árið 1971, að hlutafélagið keypti til sín hluti fyrri eigenda. Ástæða þess, að Framkvæmdasjóður á nú hlutafé félagsins, verður rakin til eftirgreindra atvika:

Á árunum 1963–1965 lánaði Framkvæmdabanki Íslands verulegt fé til uppbyggingar ullarverksmiðjunnar á Álafossi. Var byggt nýtt verksmiðjuhús og keyptar nýjar kembi- og spunavélar, en bæði húsakostur og vélar voru mjög úr sér gengin. Framleiðsla verksmiðjunnar var mestmegnis fyrir innlendan markað, en nokkuð var um sölu á teppabandi til Danmerkur. Reksturinn gekk erfiðlega á árunum eftir endurnýjun verksmiðjunnar og lágu til þess ýmsar orsakir, bæði innan fyrirtækisins og vegna óhagstæðra ytri aðstæðna. Á árinu 1968 má segja, að félagið hafi verið komið í algert þrot og blasti ekkert annað við en stöðvun rekstrar og gjaldþrot. Að frumkvæði Framkvæmdasjóðs var skipuð sérstök framkvæmdanefnd, er starfaði í umboði stjórnar félagsins um nokkurra mánaða skeið að því að halda í horfinu með rekstur fyrirtækisins, en í aprílmánuði 1969 ákvað stjórn Framkvæmdasjóðs að breyta skuldum að fjárhæð 28 millj. kr, í hlutafé í félaginu, enda var þess farið á leit af stjórn félagsins. Árið 1971 var 30 millj. kr. skuld síðan breytt í hlutafé með sama hætti.

Það var skoðun stjórnar Framkvæmdasjóðs á árinu 1969, þegar séð var að fyrirtækið Álafoss hf. yrði að hætta rekstri og gjaldþrot var á næstu grösum, að ekki væru einvörðungu hagsmunir Framkvæmdasjóðs í hættu, heldur mundu slík afdrif fyrirtækisins verða mikið áfall fyrir iðngreinina sem slíka og fjöldi fólks mundi missa atvinnu sína.

Um þær mundir og síðar hefur mikil áhersla verið lögð á eflingu iðnaðarins í landinu, og töldu stjórn Framkvæmdasjóðs og bankastjórn Seðlabankans, sem þá hafði með rekstur Framkvæmdasjóðs að gera, að stöðvun og upplausn fyrirtækisins Álafoss væri stórt skref aftur á bak í sókn fram á við til eflingar íslenskum iðnaði.

Því var ákveðið að freista þess að koma fyrirtækinu á réttan kjöl og efla það svo sem tök væru á. Fengnir voru í byrjun erlendir sérfræðingar í tæknilegum málefnum ullariðnaðarins til að gera úttekt á verksmiðjunni og framleiðsluháttum og leggja á ráðin um úrbætur. Fyrirtækinu var fengin ný forusta og gagnger endurskipulagning fór fram á flestum sviðum rekstrarins. Leitast var við að búa fyrirtækið bestu skilyrðum nútímalegs rekstrar, og á það jöfnum höndum við um endurskipulagningu fjármála, stjórnun alla í fyrirtækinu. bæði yfirstjórn og í framleiðslu og sölu, eftirlitskerfi, framleiðslu, kostnaðareftirlit, bókhald og skýrslugerð og skipulagningu og uppbyggingu markaðsmála.

Kostnaður þessu samfara var greiddur af fyrirtækinu sjálfu. Síðan árið 1969 hefur rekstur Álafoss hf. skilað hagnaði að undanskildum árunum 1971 og 1973. Frá árinu 1971, að endurskipulagning fyrirtækisins fór fram, hefur fyrirtækið fjármagnað frekari uppbyggingu með fé úr eigin rekstri að viðbættum stofnlánum er fengist hafa úr lánasjóðum iðnaðarins og þá fyrst og fremst Iðnþróunarsjóði.

Á árunum 1970–1976, að báðum árunum meðtöldum, námu fjárfestingar Álafoss hf. 395.1 millj. kr., og voru þær fjármagnaðar með eftirgreindum hætti: Iðnlánasjóður 15.5 millj. kr., Iðnþróunarsjóður 99.8 millj., Iðnrekstrarsjóður 19 mill j., Scandinavian Bank, Englandi, 35.5 millj., Banque Lambert, Belgiu, 15.8 millj., Landsbanki Íslands 5 millj., seljendur 25.1 millj., ný lán alls 215.7 millj. ÷ afborgun eldri lána 109.8 millj. Nettóupphæð lána 105.9 millj., hlutafé 30 millj. og úr rekstri 2ö9.2 millj., eða alls 395.1 millj. kr.

Eins og yfirlit þetta greinir hefur fjárfesting félagsins á umræddu 7 ára tímabili verið fjármögnuð að 2/3 hlutum með eigin fé fyrirtækisins, sem reksturinn hefur getað lagt af mörkum til uppbyggingar.

Í öðru lagi er spurt: „Hverjir eru í stjórn Álafoss hf., hver kýs hana og til hve langs tíma?“

Núverandi stjórn Álafoss hf. er þannig skipuð: Hafsteinn Baldvinsson, formaður, Guðmundur B. Ólafsson, Benedikt Antonsson, Heimir Hannesson, Ragnar Jónsson. Varamenn eru: Bjarni Björnsson og Björn Guðmundsson.

Stjórn félagsins er kjörin til eins árs í senn af eiganda hlutafjárins, Framkvæmdasjóði Íslands.

Í þriðja lagi er spurt: Hvert er umboð stjórnar? — Hér er átt við hvaða valdsvið stjórnin hefur. — Getur hún ákveðið án þess að bera undir aðra fjárfestingar og útflutning á lopa í stórum stíl?“

Eins og lög um hlutafélög gera ráð fyrir sem og samþykktir félagsins, hefur stjórnin æðsta vald í málefnum félagsins milli aðalfunda. Rétt er að taka fram, að lopi er ekki fluttur út nema í afar litlum mæli, en hins vegar flutt út ullarband af ýmsum gerðum. Hitt er annað mál, að Álafoss hf. hefur aflað sér einkaleyfis á nafninu LOPI og er ullarband selt undir því merki.

Í byrjun hvers árs eru gerðar ítarlegar áætlanir um framleiðslu, sölu og rekstrarafkomu ársins, og með hliðsjón af þeim áætlunum svo og af rekstrarárangri liðins árs og lánamöguleikum hjá lánasjóðum iðnaðarins eru teknar ákvarðanir um fjárfestingu ársins innan ramma áætlunar um fjárfestingar til lengri tíma.

Samsetning sölunnar milli tilbúins fatnaðar, ullarbands, gólfteppa, dúka, værðarvoða og annarra afurða innanlands og erlendis ræðst af markaðsaðstæðum og framleiðslukostnaði hverju sinni.

Í fjórða lagi er spurt: „Hvað er hlutafé Álafoss hf?“

Hlutafé Álafoss hf. eftir þá fjárhagslegu endurskipulagningu, er lokið var 1971. nam 60 millj. kr., en þar af voru hlutabréf í eigu fyrirtækisins sjálfs 2 millj. kr. Á árunum 1976 og 1977 voru gefin út jöfnunarhlutabréf í félaginu samkv. heimild í lögum að fjárhæð 240 millj. kr. og er hlutafé félagsins í árslok 1977 því 300 millj. kr., en fjárútlát Framkvæmdasjóðs hafa, eins og áður segir, numið 58 millj. kr.

Í fimmta lagi er spurt: „Hvaða fyrirgreiðslu hefur ríkið veitt Álafossi hf. síðan ríkið yfirtók fyrirtækið?“

Gerð hefur verið grein fyrir hvernig og hvenær Framkvæmdasjóður Íslands varð eigandi að hlutafé félagsins. Ríkið hefur ekki veitt fyrirtækinu neina fyrirgreiðslu aðra en þá sem aðrir ullarframleiðendur hafa fengið.

Fyrirtækið hefur fengið styrki frá Iðnrekstrarsjóði til markaðsöflunar með sama hætti og önnur sambærileg fyrirtæki, svo sem Hilda hf. og Gefjun, og fé til niðurgreiðslu ullar hefur farið um hendur fyrirtækisins eins og hjá öðrum fyrirtækjum.

Í sjötta lagi er spurt: „Greiðir Álafoss hf. vexti eða arð af hlutafé?“

Skuldir Álafoss hf. bera vexti samkv. venjulegum lánskjörum, og félaginu hefur tekist að standa við sínar skuldbindingar. Félagið hefur ekki greitt út arð af hlutafé, en jöfnunarhlutabréf hafa verið gefin út, eins og áður er lýst. Eigið fé úr rekstri hefur verið notað til uppbyggingar í fyrirtækinu, enda er það forsenda þess, að lánsfé fáist til nýrra framkvæmda.

Í sjöunda lagi er spurt: „Standa fyrir dyrum fjárfestingar til þess að auka lopaútflutning?“ Stjórn Álafoss hf. telur eðlilegt að vinna að áframhaldandi uppbyggingu fyrirtækisins með fjárfestingu og öðrum aðgerðum, sem treysta stöðu þess og þeirrar iðngreinar sem fyrirtækið er hluti af. Hvað fært þykir hverju sinni fer eftir því, hver afkoman er og hverjar eru markaðsaðstæður innanlands og erlendis. Vélar verksmiðju Álafoss hf. eru enn sumar hverjar í notkun þótt orðnar séu allt að 30 ára gamlar. Að því mun stefnt að taka þær úr notkun og afla nýrra svo og að auka húsakost þannig að frekari hagkvæmni verði náð.

Í áttunda lagi er spurt : „Hver tók þá ákvörðun um að flytja út verksmiðjulopa í stórum stíl til þess að endurvinna erlendis?“

Rétt er að taka fram, að Álafoss hf. stendur ekki að endurvinnslu ullarbands á erlendum vettvangi. Hins vegar hefur félagið allt frá árinu 1964 eða í 13 ár selt ullarband til verksmiðja erlendis. Í þessu sambandi er þó rétt að taka fram, að meginhluti þess ullarbands, sem Álafoss hf. flytur út, er til smásöludreifingar í hannyrðaverslunum erlendis.

Álafoss hf. hefur stuðlað að því, að stofnaðar hafa verið prjónastofur og saumastofur víða um landið, og jafnan látið þær sitja í fyrirrúmi um afgreiðslu ullarbands og ullarefna til framleiðslunnar. Á hinn bóginn hefur Álafoss hf. flutt út band ef hagstæðir samningar hafa náðst.

Félagið hefur ekki flutt út þá tegund loðbands sem notað er af íslenskum prjónastofum. Ákvarðanir um einstakar sölur innanlands og erlendis eru í höndum forstjóra fyrirtækisins í samráði við stjórn félagsins.

Í níunda lagi er spurt: „Hver fjármagnaði kaup Álafoss hf. á húseigninni við Vesturgötu 2? Húseignin Vesturgata 2 var í eigu Framkvæmdasjóðs Íslands. Á árinu 1976 keypti Álafoss hf. eignina, þar eð félagið þurfti á húsnæði að halda fyrir smásöluverslun þá er fyrirtækið hefur starfrækt um langt árabil. Kaupverðið var 40 millj. kr. og var helmingur þeirrar fjárhæðar greiddur í reiðufé af Álafoss hf., en helmingur var lánaður til 5 ára með 15% vöxtum.

Í tíunda lagi er spurt: „Hvers vegna eru reikningar Álafoss hf. ekki birtir í ársskýrslu Framkvæmdasjóðs?“

Álafoss hf. er sjálfstætt hlutafélag og starfar samkv. lögum um hlutafélög. Hlutafjáreign Framkvæmdasjóðs í Álafossi hf. og öðrum fyrirtækjum er að sjálfsögðu eignfærð í reikningum sjóðsins, eins og hún er á hverjum tíma, að jöfnunarhlutabréfum meðtöldum. Það er hins vegar ekki venja að birta reikninga sjálfstæðra hlutafélaga með reikningum þess, sem hlutaféð á, og gildir þá einu hvort sú hlutafjáreign nær til alls hlutafjár viðkomandi félags eða ekki. Hlutabréf eru í eðli sínu sú tegund viðskiptabréfa sem auðveldlega geta skipt um hendur, þótt hér á landi séu slík viðskipti að vísu ekki stunduð í miklum mæli. Sami háttur er hafður á um birtingu reikninga ýmissa sameignarfélaga sem ríkissjóður eða aðrir opinberir aðilar eiga að hluta.

Í ellefta lagi er spurt: „Er Álafoss hf. á lista yfir ríkisfyrirtæki sem komið hefur til tals að selja?“

Stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins, sem jafnframt fer með stjórn Framkvæmdasjóðs Íslands, tekur ákvarðanir um ráðstafanir í fjármálum sjóðsins lögum samkvæmt. Sala á hlutabréfum í Álafossi hf. hefur ekki komið til umr. í stjórn Framkvæmdastofnunarinnar.

Þetta er skýrsla Framkvæmdastofnunar ríkisins í tilefni af fsp. hv. 4. þm. Reykv., og skal ég að sinni ekki bæta neinu að ráði við þessa skýrslu. Ég vil aðeins bæta því við varðandi síðustu fsp., að ríkisstj. hefur fengið tvær skýrslur frá Álafossi hf. um rekstur fyrirtækisins, annars vegar í nóv. 1975 og hins vegar í maí 1977, og þá hefur verið rætt um það, hvort ekki væri rétt að Framkvæmdasjóður seldi hlutaféð annaðhvort að öllu eða einhverju leyti, en engar ákvarðanir hafa um það verið teknar. Það er skoðun mín að það sé rétt og nauðsynlegt raunar að það mál sé kannað, og ég tel eðlilegt að sú n., sem starfar á vegum ríkisstj. og fjmrh. hefur skipað til að kanna takmörkun ríkisumsvifa, taki það mál til meðferðar, hvort rétt sé að selja hlutabréfin í Álafossi hf., um leið og ég tek fram, að ég tel að það hafi verið haldið mjög vel á rekstri þess fyrirtækis, eins og unnt er að gera sér grein fyrir af lestri reikninga þess og aðstöðu allri. Hins vegar hefur það komið fram í umr. nú undanfarið, hvaða vandamál eru bundin því, að erlendis eru á boðstólum eftirlíkingar eftir íslenskum framleiðsluvörum sem stofna kunna í hættu þeim markaði sem íslenskar framleiðsluvörur og þar á meðal Álafoss hafa unnið sér erlendis. Ég tel nauðsynlegt að það vandamál sé ítarlega kannað, og ég trúi ekki öðru, eins og á rekstri Álafoss hefur verið haldið, en að stjórnendur fyrirtækisins muni gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að koma í veg fyrir að um svo óeðlilega samkeppni verði að ræða.