04.04.1978
Sameinað þing: 61. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3100 í B-deild Alþingistíðinda. (2275)

185. mál, Álafoss hf.

Fyrirspyrjandi (Þórarinn Þórarinsson) :

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svar hans sem var á margan hátt mjög greinargott. Menn eru þess vegna vafalaust eftir þetta svar hans nokkru fróðari um þetta fyrirtæki eftir en áður, en yfir því hefur óneitanlega hvílt nokkuð mikil leynd, og það er kannske rétt, að það sé vegna þess fyrirkomulags sem er á rekstri þess.

Það kom fram í svari Framkvæmdastofnunarinnar, að hún vill ekki telja Álafoss ríkisfyrirtæki. Ég held að það sé samt óumdeilanlegt. Framkvæmdasjóður er opinber sjóður og hann á allt hlutaféð í fyrirtækinu, þannig að Álafoss getur ekki verið öllu greinilegra ríkisfyrirtæki heldur en þetta upplýsir.

Ég er þeirrar skoðunar, að þetta fyrirkomulag á ríkisrekstri sé ekki heppilegt. Ég tel að ef nauðsynlegt þykir að eitthvert fyrirtæki sé ríkisrekið á annað borð, þá eigi það að byggjast á sérstökum lögum frá Alþingi og Alþingi eigi að hafa aðstöðu til þess að fjalla um rekstur þess, en einstakir opinberir sjóðir, eins og Framkvæmdasjóður, eigi ekki að gegna því hlutverki að annast ríkisrekstur. Þó að það hafi kannske verið réttlætanlegt á sínum tíma, að Framkvæmdasjóður tæki að sér rekstur Álafoss, vegna þess hvernig ástatt var um afkomu fyrirtækisins, þá hygg ég að ef fyrirtæki, sem fá lán hjá Framkvæmdasjóði, lenda í fjárhagsörðugleikum, þá sé nokkuð vafasöm braut að sjóðurinn taki að sér rekstur þeirra og það geti opnað möguleika fyrir óeðlilegan ríkisrekstur. Ég er ekki með þessu að segja að ríkisrekstur geti ekki átt rétt á sér undir vissum kringumstæðum. En það á þá að gerast fyrir opnum tjöldum, með beinum ákvörðunum og lögum Alþingis og þessi ríkisrekstur að vera undir eftirliti þess.

Í sambandi við það sem forsrh. minntist á að lokum í svari sínu um útflutning á lopa og bandi, þá vil ég árétta þau ummæli hans, að þar er um mál að ræða sem þarfnast nánari íhugunar. Útflutningur á þessum vörum hefur gerst með tvennum hætti : Í fyrsta lagi í svokölluðum neytendaumbúðum. Það er þegar þessar vörur eru fluttar út í smáum stíl til þess að einstakir neytendur, sem vinna úr þessum vörum heima fyrir, geti keypt þær. Það er margt sem mælir með því, að nokkur rækt sé lögð við þennan útflutning, þar sem hann getur aldrei skapað neina samkeppni við íslenskar iðnaðarvörur. Öðru máli gegnir um útflutning á þessum vörum til verksmiðjuvinnslu, því að þar getur verið um mjög varhugaverða starfsemi að ræða. Mér skilst að það hafi komið í ljós, að Álafoss hafi flutt út lopa og band til verksmiðjuvinnslu erlendis, m. a. í Suður-Kóreu, þar sem vinnuafl er mjög ódýrt, og þessar vörur séu svo aftur seldar á Evrópumarkaði í samkeppni við íslenskar iðnaðarvörur fullunnar. Sú samkeppni er undir mörgum kringumstæðum óhagstæð fyrir okkur, vegna þess að í þeim löndum mörgum hverjum, þar sem þessi vara er unnin, er kaupgjald miklu lægra en hér, þannig að það er hægt að undirbjóða okkar vörur.

Ég tek undir það með hæstv. forsrh., að hér er um mál að ræða sem þarfnast ítarlegrar rannsóknar og aðgerða, þó að það sé ákaflega óeðlilegt, ef það kemur á daginn að það er ríkisfyrirtæki sem stendur fyrir slíkum útflutningi.