04.04.1978
Sameinað þing: 61. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3101 í B-deild Alþingistíðinda. (2276)

185. mál, Álafoss hf.

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Það kom fram í svari hæstv. forsrh., að á sínum tíma var fyrirtækið Álafoss gjaldþrota og það var því um það að ræða á sínum tíma, að ríkisvaldið bjargaði þessu fyrirtæki. Einkaaðilarnir, sem að því stóðu, voru á sínum tíma leystir út af mikilli rausn og síðan hefur þetta fyrirtæki verið í eigu opinberra aðila og hefur stóraukið umsvif sín og um hefur verið að ræða ágæta afkomu flest árin.

Nú er það að vísu svo, að félagsskapur ungra sjálfstæðismanna hefur haldið uppi miklum áróðri undir slagorðinn „Báknið burt“. Það kemur því engum á óvart, að hæstv. forsrh., sem svaraði fsp. um þetta efni, vildi hafa vaðið fyrir neðan sig af pólitískum ástæðum fáeinum mánuðum fyrir kosningar og tæki því undir kröfur um að þessu fyrirtæki sé fórnað aftur í hendur einkaaðila. En þessu atriði vil ég leyfa mér að mótmæla. Ég minni enn á það, að einkaframtakið gafst upp við rekstur þessa fyrirtækis og opinberir aðilar tóku við og hafa staðið vel að málum, og ég sé ekki að það sé nokkur ástæða fyrir opinbera aðila að fórna þessum gullkálfi sem Álafoss er nú orðinn.

Ég er hins vegar sammála hv. þm. Þórarni Þórarinssyni, að í sjálfu sér er ekki eðlilegt að ákveðinn sjóður, Framkvæmdasjóður, reki þetta fyrirtæki. Fyrirtækið hefur verið, ef svo má segja, í fóstri hjá Framkvæmdasjóði eftir að hann hirti þetta fyrirtæki upp af götunni, þar sem það átti sér ekki lífs von, og það er nú svo með fósturbörn, að þau eiga auðvitað ekki að vera allt of lengi í fóstrinu. Það verður að skapa þeim eðlilega aðstöðu. Ég tel að eina rétta stefnan í þessu efni sé að þessu fyrirtæki verði sköpuð eðlileg staða ríkisfyrirtækis með lagasetningu, þannig að Alþ. geti átt þess kost að fjalla um málefni þess með eðlilegum hætti og rn. haft eftirlit með því eins og öðrum ríkisfyrirtækjum.