04.04.1978
Sameinað þing: 61. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3111 í B-deild Alþingistíðinda. (2287)

356. mál, markaðsmál landbúnaðarins

Ingi Tryggvason:

Herra forseti. Vegna þeirra ummæla hæstv. landbrh. sem hér hafa komið fram um verðþróun á fiski annars vegar í Bandaríkjunum og á landbúnaðarvörum hins vegar, sem hefur, eins og fram kom, verið mjög ólík, langar mig að láta þess getið hér, að á s. l. hausti fékk ég upplýsingar sem a. m. k. voru taldar ábyggilegar um heimsmarkaðsverð á gærum. Nú verður það að viðurkennast, að slíkir hlutir eru dálítið misjafnir og ekki öruggt að það sé eins túlkað hjá öllum, en þetta voru samt nokkuð markverðar upplýsingar einmitt í ljósi þess, sem þó kom fram hjá hæstv. landbrh., að verðlag á gærum hefur verið tiltölulega hagkvæmt. En samkv. þessum upplýsingum hafði verð á gærum í dollurum talið lækkað úr 8 dollurum og milli 30 og 40 centa árið 1973 í 7 dollara og 40–50 cent árið 1977. Sem sagt, á sama tíma og fiskblokkin hækkar úr 20 centum, að vísu er það aðeins lengri tími, 20 centum í 120 cent eða sexfaldast, þá lækkar verð í dollurum talið á vöru eins og gærum, sem þó er tiltölulega eftirsótt landbúnaðarvara.

Mér finnst dæmi eins og þetta sýna okkur ákaflega glögglega í hverjum vanda við erum stödd með landbúnaðarvörurnar. Og það sýnir okkur líka, að það er ekki síður nauðsyn á því hér en víða annars staðar, — og ég veit að það er víða framkvæmt annars staðar, — að þeir atvinnuvegir, sem af einhverjum ástæðum eiga lengri eða skemmri tíma í söluörðugleikum, njóta styrks frá þeim atvinnuvegum sem gefa mikið í aðra hönd í sölu. Og það hefur vissulega gerst á þessu árabili, að sjávarafurðir hafa hækkað gífurlega, þó að landbúnaðarvörur hafi ýmist staðið í stað, hækkað lítið eða jafnvel lækkað.

Að öðru leyti ætla ég ekki að blanda mér í þessar umr. Ég vil þó gjarnan þakka landbrh. fyrir þá skýrslu sem hann las hér um störf markaðsnefndar. Ég er þeirrar skoðunar, að við þurfum að vera mjög vakandi í sambandi við öll markaðsmál. Við erum fáir og ekki auðugir og eigum örðugt með að koma vörum okkar á þrönga erlenda markaði af ýmsum ástæðum. Þess vegna þurfum við að leggja mikið á okkur til þess að halda okkar hlut. Okkur hefur gengið mjög vel með framleiðsluvörur sjávarútvegsins yfirleitt, þó að þar sé að vísu misjafnlega auðvelt um vik. En það er eðlilegt að erfiðlega gangi fyrir okkur að selja landbúnaðarvörur á erlendum mörkuðum, m. a. vegna þess, að þessir markaðir eru meira og minna yfirfullir, og ekki síður vegna hins, að þau lönd, sem við skiptum við um landbúnaðarvörur, vernda eigin markaði með stórum í fjárframlögum, þannig að tæpast er um það að ræða að hægt sé að tala um nokkurt eðlilegt markaðsverð á þessum vörum okkar.