04.04.1978
Sameinað þing: 61. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3112 í B-deild Alþingistíðinda. (2289)

356. mál, markaðsmál landbúnaðarins

Fyrirspyrjandi (Sigurlaug Bjarnadóttir) :

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. landbrh. fyrir svör hans og greinargóða skýrslu um störf markaðsnefndar. Hann gaf mér líka mjög glæsilegan matseðil frá Vestur-Berlín og harmaði að þetta væri allt búið og hann gæti ekki boðið mér það. En hann þarf engar áhyggjur að hafa, það er nóg af óseldu dilkakjöti hér heima fyrir okkur sem hér búum.

Ég verð að telja það gleðilegt líka, að okkur hefur tekist að auðga þýska tungu með okkar ágæta íslenska orði dilk. Það er sannarlega sómi að því.

En mig vantaði inn í svör hæstv. ráðh. svar við spurningu minni um það, hvort það væri rétt að íslenskt dilkakjöt í Færeyjum væri selt á lægra verði en færeyskt dilkakjöt. Þetta er atriði sem mann hefur furðað mjög á og mér hefur ekki, eins og ég sagði, tekist að fá viðhlítandi svör við, hvort er rétt eða rangt.

Það kemur fram á þessum matseðli, að hér hafa þeir ekki einskorðað sig við reyktu réttina. En hvergi nokkurs staðar í umr. um þessi markaðsmál og kynningu á íslensku dilkakjöti hef ég fyrr en á þessum matseðli séð né heyrt að um annað hafi verið rætt. Og ég vil benda á að í ágætri grein eða útdrætti úr ræðu eftir Svein Tryggvason, formann markaðsnefndar, sem birtist í Tímanum ekki alls fyrir löngu, er talað um hugmyndir um sérrétti og smekklegar neytendapakkningar. En það er auðvitað enn sem fyrr ekki annað en reykt kjöt sem þar er minnst á. Talað er um að æskilegt væri að útbúa einhvern sérrétt, líklega helst reykt kjöt, úr frampörtum. Það er reykta kjötið sem gengur alls staðar í gegn. Það er ekki minnst á nýja dilkakjötíð; sem alls staðar þykir herramannsmatur, og ég hef heyrt fólk hér heima á Íslandi, sem tekur við gestum frá útlöndum, Skandinavíu og öðrum Evrópulöndum, segja að íslenska kjötið, eins og við matreiðum það gjarnan, t. d. í kótelettum, ofnsteiktum hrygg eða lærum, þyki hið mesta hnossgæti. Þetta hefur maður hvergi heyrt nefnt á nafn í umræðum um markaðsleit og kynningu á íslenska lambakjötinu. Það er náttúrlega ekki alveg nóg að leita markaðarins, heldur verðum við með skipulegum hætti að kenna erlendum þjóðum að matreiða kjötið. Og því hef ég talið sjálfsagt, að við hefðum sent út af örkinni t. d. húsmæðrakennara eða matreiðslumann sem virkilega kann að framreiða íslenska dilkakjötið svo að gómsætt sé, en einskorða okkur í öllum bænum ekki við gömlu reykhúsin og reykta kjötið.

En þá er ég komin að síðasta lið fsp. minnar, um skipun markaðsnefndar. Fimm mætir menn eiga þar sæti: frá landbrn., frá Framleiðsluráði, frá Stéttarsambandi, frá Búnaðarfélagi Íslands og frá Sambandi ísl. samvinnufélaga. Ég verð nú að segja það, að fyrir lítið höfum við íslenskar konur sýslað í búri og eldhúsi frá upphafi alda, að við skulum ekki nú á ofanverðri 20. öldinni vera virtar viðlits þegar mál eins og þetta kemur upp á teninginn. Og ég lýsi furðu minni yfir því, að þessum ágætu mönnum, sem ég veit að gengur allt hið hesta til, skyldi ekki hugkvæmast að kalla til ráðuneytis og samvinnu um þetta einhverja af okkar ágætu konum. Mér dettur í hug t. d. Vigdís Jónsdóttir skólastjóri húsmæðrakennaraskólans, sem hefur margar og merkar hugmyndir um matreiðslu og manneldi. Það hefði ekki verið nein skömm að henni í þessari n., og ég held að hún hefði haft fullt eins mikið til málanna að leggja þarna eins og þessir 5 karlmenn, að þeim ólöstuðum. En þetta er gömul og ný fyrirmunun að ganga fram hjá konum, jafnvel þegar um er að ræða mál sem þær varða töluvert meira en karla. Ég get í því efni minnt á að þegar sett var n. til þess að undirbúa löggjöf um fóstureyðingar var ekki ein einasta kona í þeirri n., fyrr en það var heimtað eftir á að því yrði breytt. Þegar á sinni tíð var undirbúin löggjöf um húsmæðraskóla var engin kona til kvödd í þá n. Ég hélt að við værum nú orðnir dálítið upp í tíðina að þessu leyti og gleymdum ekki að það væru til konur sem hafa vit á hlutunum til jafns við karlmenn og ekki þá hvað síst þar sem um matreiðslu og manneldi er að ræða.

Ég læt útrætt um þetta og þakka fyrir svörin. En ég vildi gjarnan fá upplýsingar og svör við spurningu minni um það, hvort það sé rétt, að íslenskt dilkakjöt í Færeyjum sé selt ódýrar en færeyskt og færeyskur landbúnaður og sauðfjárbúskapur eigi í vök að verjast af þeim sökum.