31.10.1977
Neðri deild: 10. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 304 í B-deild Alþingistíðinda. (229)

16. mál, sveitarstjórnarlög

Flm. (Benedikt Gröndal):

Virðulegi forseti. Frv. það, sem ég hef flutt á þskj. 16, er þess efnis, að ákveðið verði með breyt. á sveitarstjórnarlögum að taka upp 18 ára kosningaaldur við sveitarstjórnarkosningar þegar á næsta vori.

Kosningarréttur til Alþingis er ákveðinn í 33. gr. stjórnarskrárinnar. Kosningarréttur til sveitarstjórna er hins vegar ákveðinn í 18. gr. sveitarstjórnarlaga. Af þessu leiðir að kosningarrétti til Alþ. verður ekki breytt nema með stjórnarskrárbreytingu, en kosningarrétti til sveitarstjórna má breyta með einfaldri lagasetningu.

Þetta frv. felur í sér þá þreyt., eins og ég áður gat um, að kosningarréttur til sveitarstjórna verði lækkaður í 18 ár, og gæti það komið til framkvæmda þegar í sveitarstjórnarkosningum 1978 ef þetta þing vill.

Kosningarréttur hefur verið lækkaður í 18 ár í fjölmörgum löndum, og er þegar fengin af þeirri breytingu veruleg reynsla. Hefur hvarvetna komið í ljós að hrakspár, sem algengar voru um breytingu þessa áður en hún var gerð erlendis, hafa ekki reynst á rökum reistar. Unga fólkið hefur yfirleitt reynst vera maklegt þess trausts sem því er sýnt með þeim auknu réttindum.

Alþfl. hefur frá stofnun sinni lagt ríka áherslu á baráttu fyrir auknum mannréttindum. Á fyrstu árum sínum hóf flokkurinn baráttu fyrir lækkun kosningarréttar úr 35 og 25 árum í 21 ár og lagði ríka áherslu á að fá afnumda þá svívirðu að fólk missti kosningarrétt ef það neyddist til að leita til sveitar.

Árið 1963 endurskoðaði Alþfl. stefnuskrá sína, eins og hann hefur gert á 15–20 ára fresti, og breytir þá ýmsum dægurmálum, en heldur sig jafnan við grundvallarkenningar jafnaðarstefnunnar. Við þá breytingu tók flokkurinn upp baráttu fyrir 18 ára kosningarrétti, og tveim árum síðar 1965 fluttu þm. flokksins till. þess efnis á Alþ. Var þá ákveðið að setja sérstaka n. til að athuga þetta mál. Í þeirri n. náðist samkomulag um að lækka kosningaaldurinn úr 21 ári í 20 ár og var stjórnarskrárbreyting þess efnis samþykkt á 87. og 88. löggjafarþingi með kosningum á milli. Breytingin tók gildi vorið 1968 og hafði þá sveitarstjórnarlögum verið breytt til samræmis.

Þm. Alþfl. tóku málið upp á nýjan leik 1974 og hafa flutt það á hverju þingi síðan. Að þessu sinni er aðeins gerð till. um breyt. á sveitarstjórnarlögum, sökum þess að með þeirri lagabreytingu má koma 18 ára kosningarrétti á við sveitastjórnarkosningar næsta vor, en kosningarrétti til Alþ. verður að sjálfsögðu ekki breytt nema á lengri tíma. Segja má að ekki sé eðlilegt að hafa mismunandi kosningarrétt til alþingiskosninga og sveitarstjórnarkosninga, en þó má líta á þá breyt., sem þetta frv, fjallar um, sem áfanga og gera ráð fyrir að sams konar breyt. varðandi alþingiskosningar komi óhjákvæmilega fljótt á eftir.

Vert er að geta þess, að hér á landi er greinilega vaxandi áhugi á að lækka kosningaaldur enn frekar en gert var fyrir áratug. Hér hafa menn tekið eftir því, að 18 ára kosningaaldur er allt að því ríkjandi regla í öllum þorra landa, sem næst okkur eru og við teljum okkur skyldust, og hefur hvarvetna gefist vel, hefur hvergi leitt til þeirra óæskilegu afleiðinga eða rasks sem ýmsir töldu að kynni að verða. Má nefna sem dæmi um áhuga hér á landi, að í prófkjöri Alþfl. hefur að sjálfsögðu verið tekinn upp 18 ára kosningaaldur í samræmi við stefnu flokksins og a.m.k. í sumum héruðum hefur stærsti flokkur landsins, Sjálfstfl., tekið ákvörðun um að heimila flokksbundnu fólki allt niður að 16 ára aldri að taka þátt í vali frambjóðenda til alþingiskosninga. Ég tel því ríka ástæðu til að sýna íslenskri æsku það traust að lækka kosningaaldurinn í 18 ár.

Íslensk ungmenni eru yfirleitt virkari þátttakendur í atvinnulífi og félagsmálum þjóðar sinnar en tíðkast erlendis, og þeim er iðulega gert hér á landi að axla meiri ábyrgð og skyldur en tíðkast um jafnaldra þeirra meðal annarra þjóða. Með tilliti til góðrar reynslu margra nágrannaþjóða verður því að telja að það sé tímabært að sýna unga fólkinu hér á landi það traust að stiga hiklaust sporið til 18 ára kosningarréttar.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni umr. vísað til 2. umr, og félmn.