04.04.1978
Sameinað þing: 62. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3117 í B-deild Alþingistíðinda. (2294)

61. mál, hafnaáætlun 1977-1980

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Á s. 1. hausti, þegar fjárlög voru til meðferðar á hv. Alþ., var lögð fram till. til þál. um hafnaáætlun fyrir árin 1977–1980. Ekki tókst að koma þessu máli af fyrir áramótin, og ýmsar breytingar áttu sér einnig stað í sambandi við hafnaáætlunina sem gerðu það að verkum, að rétt þótti að geyma það að tala fyrir henni þangað til á framhaldsþingi. Hefur það dregist til þessa, en nú mun ég gera það. Till. er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar samkv. 10. gr. hafnalaga, nr. 45 24. apríl 1973, að árin 1977–1980 skuli stefnt að því að verja til almennra hafnarframkvæmda úr ríkissjóði fjárhæðum, sem svara til ríkishluta framkvæmda þeirra, sem lýst er í áætlun Hafnamálastofnunar ríkisins um hafnarframkvæmdir á áðurgreindu tímabili og útbýtt er jafnframt þáltill. þessari.“

Það var gert þá. Þáltill. þessi er því flutt samkv. því sem vitnað er til í þessum lögum, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Hafnamálastjóri gerir í samráði við hafnarstjórnir tillögu að áætlun um hafnargerðir til fjögurra ára í senn. — Um gerð hafna og staðarval skal jafnan leita álits samtaka skipstjórnarmanna í byggðarlaginu, ef til eru, ella hjá landssamtökum þeirra. — Áður. — Áður en gengið er endanlega frá áætluninni skal hafnamálastjóri senda stjórn hverrar hafnar tillögur sínar um framkvæmdir á áætlunartímabilinu við þá höfn og gefa hafnastjórninni nánar tiltekinn frest til þess að koma með aths. og brtt. — Hafnamálastjóri skal á sama hátt senda áætlunina í heild stjórn Hafnamálasambands sveitarfélaga til umsagnar; — Þetta hefur og verið gert að sjálfsögðu. — „Hafnagerðaáætlun skal miðuð við það fjármagn, sem ætlað er til hafnargerða í almennri framkvæmdaáætlun ríkisins, ef slík áætlun er gerð, en að öðrum kosti skal miða við það heildarfjármagn, sem líklegt er talið að til ráðstöfunar verði til hafnarframkvæmda. — Hafnargerðaráætlunin skal gerð á tveggja ára fresti og lögð fyrir Sþ. sem þáltill. — Áætlunin öðlast gildi, þegar Alþ. hefur samþykkt hana. — Hafnamálastjóri skal síðan vinna að framkvæmd áætlunarinnar í samráði við viðkomandi hafnarstjórnir og eftir því sem fjármagn er fyrir hendi. — Ráðh. skal leggja árlega fyrir Alþ. skýrslu um framkvæmdaáætlun, áður en í fjárveitingar eru ákveðnar.“

Þetta er í annað skipti, sem þáltill. um hafnarframkvæmdir er lögð fyrir Alþ., en fyrri till. var lögð fram vorið 1975. Af ýmsum ástæðum, sem ekki skulu raktar hér nánar, varð þá samkomulag um það á Alþ.,till. skyldi ekki afgreidd formlega.

Áður en núgildandi hafnalög tóku gildi voru í eldri lögum ákvæði um gerð fjögurra ára áætlunar um hafnargerðir, en þau voru miklu óákveðnari og óljósari en nú, m. a. ekki gert ráð fyrir að áætlunin væri samþykkt sem þáltill. Alþ. Stefnt er að því með gildandi lögum að taka upp svipað áætlunarform og í vegagerð, sem reynst hefur mjög vel þar. Með því að fjalla sérstaklega um hafnaáætlunina á Alþ. og afgreiða hana sem þáltill. væri henni fengið fastara og ábyrgara form og hún markaði þannig þeim aðilum, sem að hafnarframkvæmdum vinna víðs vegar um landið, ákveðnari línu til að starfa eftir en ella.

Sú áætlun, sem hér liggur til grundvallar og útbýtt hefur verið, er að stofni til gerð haustið 1976, og allur framkvæmdakostnaður í skýrslunni er miðaður við árslok 1976. Áætlunin var notuð til viðmiðunar við skiptingu fjárlagafjár til einstakra hafna árið 1977 og fyrir yfirstandandi ár einnig. Jafnframt hefur hún verið kynnt fjvn. og þm. einstakra kjördæma.

Samkv. áætluninni er á þessu fjögurra ára tímabili gert ráð fyrir framkvæmdum við samtals 64 hafnir hringinn í kringum landið. Eru þar með taldar allar stærri hafnir sem falla undir hugtakið almennar hafnir og þar með lög nr. 45/1973, svo og fjöldi smáhafna sem falla undir sömu lög, en þessar hafnir njóta sérstaks ríkisframlags sem yfirleitt nemur 75% af framkvæmdakostnaði. Áætlunin nær hins vegar ekki til framkvæmda við landshafnirnar þrjár: Keflavík-Njarðvík, Rif og Þorlákshöfn. Hún nær ekki heldur til ferjuhafna, en framkvæmdakostnaður við landshafnir og ferjuhafnir er greiddur að fullu af ríkissjóði. Einnig er Reykjavíkurhöfn utan við áætlunina, en hún kostar sjálf allar sínar framkvæmdir. Loks nær áætlunin ekki til framkvæmda við höfn á Grundartanga. Þótt sú hafnargerð falli undir hafnalögin að öllu leyti, er hún nokkuð sérstaks eðlis og verður um sérstaka fjáröflun til hennar að ræða, bæði ríkis og heimahluta.

Heildarframkvæmdakostnaður á tímabilinu er áætlaður tæplega 5.5 milljarðar kr. Er sú tala, eins og áður segir, miðuð víð verðlag árið 1976.

Þessar framkvæmdir skiptast þannig, að framkvæmdir við eina höfn eru á öllu áætlunartímabilinu yfir 400 millj. kr. Víð fimm hafnir eru framkvæmdir á bilinu 200–300 millj. kr. við hverja höfn. Samtals er ríkishlutinn áætlaður 1170 millj. kr. Fer þannig tæplega þriðjungur framkvæmdafjárins í heild til þessara hafna. Framkvæmdir við 15 hafnir eru svo á bilinu 100–200 millj. kr., samtals rúmlega 2 milljarðar. Framkvæmdir við 19 hafnir eru á bilinu 50–100 millj., samtals 1340 millj. kr. Loks eru smáhafnarframkvæmdir, allt frá 4 millj. í 50 millj., við 24 hafnir samtals eða 541 millj. kr.

Ljóst er að ekki hefur verið unnt að sinna öllum óskum í þessari fjögurra ára áætlun miðað við heildarfjármagn sem hægt er að verja til hafnarframkvæmda. Hlýtur raunar svo að vera, þar sem uppbygging og endurnýjun fiskiskipaflota landsmanna hefur verið jafnhröð og raun ber vitni um undanfarin ár hér á landi. Blasa því enn við brýn verkefni í hafnargerð víðs vegar um landið. Ótrúlega mikið hefur þó áunnist á síðustu árum þrátt fyrir takmarkað fjármagn. Þannig skorti mikið á, að sæmileg hafnaraðstaða væri fyrir hendi til viðlegu og afgreiðslu skuttogaranna á mörgum þeim stöðum sem þeir voru gerðir út frá. Hafnir landsins voru engan veginn viðbúnar að taka við þessum nýju skipum, enda voru þær fyrst og fremst byggðar fyrir smábátaútgerð, þó þær hafi jafnframt þjónað strandflutningum. Á þessu hefur orðið mikil breyting á síðustu árum, enda stefnir markvisst að því í hafnargerð að skapa skuttogaraflotanum sem hesta aðstöðu.

Ný og betri tækni hefur einnig verið tekin upp á ýmsum sviðum hafnargerðar. Þannig er nú reynt með líkantilraunum, áður en framkvæmdir eru hafnar, að finna heppilegustu legu og gerð hafnarmannvirkja til þess að standast ágang sjávar. Hafa þessar tilraunir gefist ótrúlega vel. Hefur verið ákveðið, m. a. með nokkrum fjárveitingum á þessa árs fjárlögum, að skapa þessum rannsóknum betri aðstöðu, enda skila þær fjárveitingar sér margfalt aftur í betri og öruggari höfnum og undirbúningi framkvæmda.

Koma nýs graftækis til landsins s. l. sumar boðar einnig aldaskipti í sögu hafnargerðar. Þetta tæki, sem byggt var í Noregi og hannað þar, kemur í stað gamla Grettis sem nú hefur lagt upp laupana. Tækinu fylgja tveir prammar til jarðvegsflutnings, en þeir voru smíðaðir hjá Stál sf. á Seyðisfirði. Til kaupa á öllum þessum tækjum var myndarleg fjárveiting á fjárlögum síðasta árs.

Haldi sú jákvæða þróun áfram, sem verið hefur í hafnargerð undanfarin ár, tæknilegum undirbúningi og góðu samstarfi þeirra aðila sem að þessu vinna af hálfu ríkisins og bæjar- og sveitarfélaga, verða hafnamálin áður en varir þróaðri þáttur í samgöngu- og atvinnumálum landsmanna en flestir aðrir.

Herra forseti. Áður en ég lýk máli mínu og þáltill. þessari verður vísað til ha. fjvn., ætla ég að lokum að taka fram, að við afgreiðslu áætlunarinnar ber hv. fjvn. nauðsyn til að aðlaga till. sínar þeirri afgreiðslu sem var á í sambandi við fjárlög fyrir árið 1978 og framkvæmdir næstu ára. Ég geri ráð fyrir því, að fyrir lok næstu viku eða í byrjun þar næstu viku liggi fyrir skýrsla um framkvæmdir í hafnamálum á s. l. ári, en hún er nú annaðhvort að fara í prentun eða komin þangað, og verður þá gerð grein fyrir framkvæmdum þeim sem unnið var að á árinu 1977. Þar er að sjálfsögðu að finna ýmsar upplýsingar, eins og venja er í þeirri skýrslu. Sé ég því ekki ástæðu til að fara frekar út í þau mál nú, þar sem þau verða til umr. síðar, en legg til, herra forseti, að málinu verði að þessari umr. lokinni vísað til hv. fjvn. og síðari umr.