04.04.1978
Sameinað þing: 62. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3122 í B-deild Alþingistíðinda. (2296)

61. mál, hafnaáætlun 1977-1980

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Vissulega væri ástæða til þess að ræða almennt og ítarlega um hafnamál og hafnarframkvæmdir undir þessum dagskrárlið, svo mjög sem bætt hafnaaðstaða á hinum ýmsu stöðum kringum landið er í raun og veru undirstaða þess að íbúar hinna ýmsu byggðarlaga, og ekki eingöngu þeir, heldur og þjóðarheildin, geti haldið áfram að lifa sæmilega góðu lífi í landinu. Ég skal þó ekki hafa mörg orð um málið í heild, en mér finnst rétt að fara örfáum orðum um þessa áætlun sem slíka, þegar þetta mál er tekið til umr.

Eins og fram kom hjá hæstv. samgrh., var áætlunin lögð fram á Alþ., að ég held í októbermánuði s. l., í byrjun okt. eða þar um bil. Ég a. m. k. gerði ráð fyrir því, að ætlunin væri að byggja á áætlun þessari t. d. við gerð fjárl. fyrir árið 1978 og fjárveitingar til hafnarframkvæmda á þessu ári. Eigi að síður er staðreyndin sú, að þessi áætlun er núna fyrst að koma til umr. á hv. Alþ., en strax í desembermánuði s. l., áður en farið var að ræða málið á þingi, var búið að skera niður framkvæmdir frá því, sem gert er ráð fyrir í þessari áætlun, um a. m. k. 25% miðað við fjárlög. Það var búið að skera niður fjárveitingar til framkvæmda við hafnir á árinu 1978 frá því sem þessi áætlun gerir ráð fyrir til þess sem fjárlög eru afgreidd fyrir árið 1978. Og núna, þ. e. a. s. röskum þremur mánuðum eftir að búið er að skera þessar fjárveitingar niður við trog, liggur mér við að segja, þá er fyrst tekið til við að ræða áætlunina, þá fyrst er farið að ræða áætlunina þegar búið er að meðhöndla hana með þessum hætti á Alþ. Þetta eru auðvitað óeðlileg og óæskileg vinnubrögð.

Ég tek undir það, sem kom fram hjá hv. þm. Helga Seljan, að mikil bót væri að því að mínu viti, ef hægt væri að koma áætlanagerð varðandi hafnarframkvæmdir og raunar fleiri framkvæmdir í svipað horf og gilt hefur um vegáætlun. Þar hefur stundum verið tröppugangur að vísu, en eigi að síður held ég að almennt sé treyst á þá áætlanagerð, a. m. k. að verulegu leyti. og menn geti byggt á henni nokkuð örugglega, þó að fjárupphæðir fari æðimikið úrskeiðis að sjálfsögðu á verðbólgutímum, eins og við höfum búið við nú að undanförnu. Mér finnst því mjög slæmt, ef það verður svo með gerð hafnaáætlunar, að hún komist ekki í svipað horf og vegáætlun. Ég þykist þó vita, að hæstv. samgrh. sé þess mjög fýsandi að koma þessari áætlanargerð í svipað horf og vegáætlun, en því miður hefur það ekki tekist enn.

Svo verður að segja í tengslum við þetta, að þannig hefur verið að málum haldið varðandi fjárveitingar til hafnarframkvæmda í tíð núv. hæstv. ríkisstj., að síður en svo er hægt að hrópa húrra fyrir því eða lýsa ánægju sinni með það. Sannleikurinn er sá, að raungildi framkvæmda við hafnir á þessu tímabili hefur farið minnkandi. Raungildi hafnaframkvæmda hefur stórlega minnkað á þessum árum, og ég tala nú ekki um það mikla misræmi sem er í fjárveitingum til hinna ýmsu staða eða kjördæma, eins og frá málum hefur verið gengið á Alþ. á undanförnum a. m. k. þremur árum. En ég skal ekki fara frekar út í þá sálma. Ég hef áður lýst skoðunum mínum á því. Þær eru óbreyttar og skal ég ekki lengja umr. með því. En ég held að það verði a. m. k. að gera tilraun til þess að koma áætlun um hafnarframkvæmdir í svipað horf og vegáætlun hefur verið.

Ég hlýt að taka undir það, sem kom fram hjá hv. þm. Helga Seljan, að þegar búið er að útbýta áætlun sem þessari, við skulum segja t. d. til sveitarstjórnarmanna og þeir sjá þar tölur á blað settar, líklega hugmyndir Hafnamálastofnunarinnar, þá kemur það illa við þá og ýmsa aðra, þegar staðið er upp við lok fjárlagagerðar og allt aðrar og lægri upphæðir fara til hinna ýmsu framkvæmda samkv. fjárl. en þessi áætlun gerir ráð fyrir — áætlun sem þeir hafa fengið í hendur frá ríkisstofnun, sem er Hafnamálastofnunin. Þetta kemur illa við þessa einstaklinga, en þetta kemur líka og ekki síður illa við þm. almennt, því að að sjálfsögðu er þeim kennt um að hafa skorið niður fjárveitingatillögur, sem koma frá embættismannakerfinu, til hinna ýmsu staða. Auðvitað er það ekki svo nema að sumu leyti. En nauðsynlegt er að á þessu verði breyting, a. m. k. verði áætlunin þá afgreidd nokkuð samtímis því að gerð fjárlaga fer fram og fjárlög eru afgreidd, en sé ekki tekin til umr. eða afgreiðslu löngu síðar. Nú veit ég ekki, hver er ætlun hæstv. samgrh., hvort ætlun hans er að afgreiða hafnaáætlun á þessu þingi eða hvort horfið verður að hinu sama ráði og gert var þegar hin fyrri áætlun var lögð fram og hún verði ekki formlega afgreidd. Auðvitað er alveg óviðeigandi að fara að afgreiða áætlun sem þessa eftir að búið er að gjörbylta henni eins og raun ber vitni, a. m. k. að því er varðar fjárlagaárið 1978.

Ég get ekki stillt mig um að taka undir þá gagnrýni sem hefur komið fram á hina margumtöluðu hafnarframkvæmd á Grundartanga. Ég hef áður lýst afstöðu minni til þess máls og raunar þeirra framkvæmda allra og þarf ekki að ítreka það. Það kemur illa við hina mörgu framleiðslustaði úti á landsbyggðinni — sjávarplássin sem framleiða til útflutnings og efla í raun og veru þann grunn sem við byggjum á til þess að geta lifað mannsæmandi lífi — að á sama tíma og skornar eru bókstaflega við trog fjárveitingar til hafnarframkvæmda á þessum stöðum er veitt fjármagni í hafnargerð við Grundartanga og ekki að sjá að neinn skortur sé á peningum þar. Ég vil t. d. nefna einn stað á Vestfjörðum, sem hefur orðið harkalega úti með hafnaframkvæmdir á árinu 1978. Það er Súðavík. Þar var byrjað á framkvæmdum á s. l. ári og höfðu verið gefin fyrirheit bæði það ár og einnig fyrir árið í ár um það, að unnið skyldi af fullum krafti að framkvæmdum þar. Því er ekki til að dreifa, að svo sé árið 1978, því miður. Svo er nú komið, að það, sem búið var að vinna á árinu 1977, liggur undir skemmdum vegna þess að ekki var fram haldið verkinu á þessu ári. Sömu sögu er að segja víðar frá Vestfjörðum en frá Súðavík. Ég tek því undir þá gagnrýni sem fram hefur komið, ítreka að það er síður en svo æskilegt að veita fjármagn til hafnargerðar við Grundartanga. Að því er virðist er veitt í hana nægu fjármagni og enginn skortur á því, á sama tíma og neitað er um fjárveitingar til hinna ýmsu fiskihafna, en þar er hvað brýnust nauðsyn á því að bæta hafnaraðstöðu, til þess að ekki liggi undir stórskemmdum þau fiskiskip sem eiga við þessa hafnaraðstöðu að búa og ekki síður til þess að styrkja, renna frekari stoðum undir þá framleiðsluatvinnugrein, sem í raun og veru stendur undir langsamlega mestum hluta allrar þeirrar tekjuöflunar sem þjóðin hefur til að framfleyta sér á.

Ég sagði, herra forseti, að ég skyldi ekki fara mikið út í að ræða almennt um hafnamálin, þó að full ástæða væri til, en ég vildi við þessar umr. koma því að sem ég hef nú sagt. Ég ítreka að breyting þarf að verða á vinnubrögðum varðandi meðferð hafnaáætlunarinnar, — breyting sem yrði í sömu átt og stefnt hefur í varðandi vegáætlunina. Ég ítreka svo það, sem líka hefur komið fram áður, að það er megn óánægja með það hvernig staðið hefur verið að fjárveitingum til hinna ýmsu staða, ekki síst þegar fjárveitingar fara til framkvæmda við fyrirtæki sem fyrst og fremst eru ætluð útlendingum, en á sama tíma er neitað um nauðsynlegar og sjálfsagðar fjárveitingar til þess að renna frekari stoðum undir okkar eigin atvinnuvegi, sem allt er svo byggt á.