04.04.1978
Sameinað þing: 62. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3125 í B-deild Alþingistíðinda. (2299)

135. mál, virkjun Héraðsvatna hjá Villinganesi

Flm. (Páll Pétursson) :

Herra forseti. Ég hefði að vísu talið æskilegra, að fleiri væru viðstaddir umr. um þessa till. og þ. á m. hæstv. iðnrh. Ég vil þó ekki sleppa því tækifæri sem hér býðst til þess að flytja framsögu mína, en vildi mælast til þess við hæstv. forseta að málið yrði ekki afgreitt til n. öðruvísi en hæstv. ráðh. eða öðrum þm. gæfist kostur á að tjá sig um það.

Við flytjum sem sagt nokkrir þm. till. til þál. um undirbúning að virkjun Héraðsvatna hjá Villinganesi. Flm. eru auk mín hv. þm. Ragnar Arnalds, Stefán Valgeirsson, Stefán Jónsson, Ingvar Gíslason, Helgi F. Seljan, Ingi Tryggvason, Þórarinn Þórarinsson, Kjartan Ólafsson, Sighvatur Björgvinsson og Ólafur Þ. Þórðarson. Við höfum leyft okkur að flytja á þskj. 199 svo hljóðandi till.:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að gera nú þegar ráðstafanir til þess að hraðað verði svo sem frekast er unnt undirbúningi að virkjun Héraðsvatna hjá Villinganesi og hönnun hennar, svo að þar megi reisa næsta raforkuver á Norðurl. v.“

Þessi þáltill. er endurflutt frá 98. löggjafarþingi, en þá varð hún ekki útrædd. Tveir af þeim mönnum, sem þá vorn flm., voru ekki á þingi þegar till. var lögð fram, þeir Steingrímur Hermannsson og Jónas Árnason, en standa að sjálfsögðu enn að tillögunni.

Orkustofnun gaf út í maí 1975 frumáætlun um 32 mw. virkjun hjá Villinganesi í Skagafirði. Skýrsla þessi er unnin á vegum Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens og ber hún með sér að þarna er um mjög álitlega virkjun að ræða, sé verið að virkja vegna íslenskra notenda. Hins vegar er virkjun þessi ekki af þeirri stærð að hún geti orðið orkuöflunarfyrirtæki vegna erlendrar stóriðju. Síðan hafa verið framkvæmdar allmiklar rannsóknir á þessum slóðum, og gaf Orkustofnun út í mars 1977 hönnunaráætlun fyrir 30 mw. virkjun við Villinganes, samda af Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens, og aðra skýrslu eftir verkfræðinga Orkustofnunar, þá Birgi Jónsson, Davíð Egilsson og Snorra Sóphaníasson. Sú skýrsla heitir Villinganesvirkjun, Mannvirkjafræði.

Niðurstöður þessara rannsókna eru þær, að upphaflegri tilhögun var breytt nokkuð, þar sem berglög reyndust þéttari en ráð hafði verið fyrir gert, og enn þá hagkvæmara stíflustæði ákvarðað en fyrirhugað var í frumáætlun.

Í bréfi frá Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens til Orkustofnunar, dags. 15. mars 1977, segir m, a., með leyfi forseta:

„Raunfallhæð fyrirhugaðrar virkjunar er 58 m., sem að mestu leyti fæst með stíflu í árfarvegi. Virkjað rennsli er ráðgert um 59 kl/s og uppsett afl 30 mw. Stofnkostnaður vinnsluvirkja er áætlaður 3900 millj. kr. miðað við verðlag eins og það var í maí 1976.

Niðurstöður áætlunar staðfesta fyrri ályktanir um Villinganesvirkjun. Áætluð orkuvinnsla í samtengdu landskerfi, 180 gwst. á ári jafngildir 6000 nýtingarstundum á ári, og áætlað orkuverð við stöðvarvegg er nálægt 2.84 kr. á kwst., miðað við að árlegur kostnaður verði 13.13% stofnkostnaðar.

Nú kann að verða talið æskilegt að setja upp meira afl en 30 mw., ef ráðist verður í virkjunarframkvæmdir. Má í því sambandi benda á hugsanlegar virkjanir ofar á vatnssviðinu ásamt vatnsmiðlun, sem auka mundi afkastagetu Villinganesvirkjunar. Um þessi atriði er rætt nokkru nánar í 8. kafla grg. og m. a. gerð áætlun um 40 mw virkjun með einni vélasamstæðu. Stofnkostnaður þeirrar virkjunar er áætlaður 4245 millj. kr. Viðbótarkostnaðurinn verður því 345 millj. kr. eða 34.5 millj. kr á mw., þannig að líta má á 10 mw. aflviðbót sem hagkvæmt vara- og toppafl áður en kæmi til frekari orkunýtingar.

Virkjun við Villinganes verður því sem næst hrein rennslisvirkjun, þar sem nýtileg miðlun verður einungis nálægt 13 gígalítrum. Þrátt fyrir það teljum við eðlilegt rekstraröryggi verða fyrir hendi, þar sem vetrarrennsli er mjög jafnt. Fer það sjaldan niður fyrir 40 kílólítra á sekúndu, sem er nálægt vatnsnotkun við meðalálag.

Umrædd áætlun um virkjun Héraðsvatna við Villinganes verður að teljast fullnægjandi til ákvarðanatöku um framkvæmdir. Við teljum að óvissuþættir séu fáir og engir mikilvægir, en samhliða gerð útboðsgagna, ef til kemur, þurfa að fara fram viðbótarathuganir á jarðlagaskipan og líklegum byggingarefnum. Þá þarf að gera líkanprófanir á framhjárennslisgöngum og botnrás, bæði að því er varðar falltöp og rof neðan botnrásar.

Við viljum þakka gott samstarf við Orkustofnun við áætlanagerðina og erum reiðubúnir til frekari samvinnu þar að lútandi.

Virðingarfyllst,

Sigurjón Helgason. Loftur Þorsteinsson.

Hæstv. iðnrh. hefur talið heppilegra að leggja áherslu á virkjun Blöndu og borið þrisvar fram frv. þar að lútandi. Blanda verður hins vegar ekki virkjuð nú á næstu áratugum samkv. þeirri virkjunartilhögun sem iðnrh. þráflytur hér á Alþ. í frv.- formi nema með því að selja mestalla orkuna til orkufreks iðnaðar.

Virkjunin er allt of stór fyrir almennan raforkumarkað á Norðurlandi og einnig of stór fyrir almennan markað á landinu öllu, nema í tengslum við sérstök stórverkefni á sviði orkufreks iðnaðar. Enn augljósara er þó, að áform um Blönduvirkjun sem koma beint í kjölfar ákvörðunar um Hrauneyjafossvirkjun, hljóta að vera tengd stórfelldum hugmyndum um uppbyggingu erlendrar stóriðju á fyrri hluta næsta áratugs, svo sem rækilega hefur sannast í umr. á Alþ. nú í vetur. Villinganesvirkjun í Héraðsvötnum er hins vegar af þeirri stærð, að hún fellur mjög vel að þeirri aukningu raforkumarkaðarins, enda gæti hún verið fullnýtt í þágu landsmanna allra á rúmu ári. Auk þess er virkjunin talin mjög hagkvæm samkv. nýjustu útreikningum.

Þá er þess að geta, að um virkjun hjá Villinganesi er einhugur heimamanna, og vísa ég því til sönnunar í fylgiskjöl þau sem prentuð eru með till. Einhugur heimamanna ríkir hins vegar ekki hvað varðar virkjun Blöndu, enda er þar um geysilega röskun á náttúrufari að ræða.

Upprekstur á Auðkúluheiði eiga Svínavatns- og Torfalækjarhreppar og Blönduós, á Eyvindarstaðaheiði eiga upprekstur Bólstaðarhlíðarhreppur, Seyluhreppur, Lýtingsstaðahreppur og einstakar jarðir í Akrahreppi og Rípurhreppi. Viðhorf íbúa þeirra hreppa, er upprekstur eiga á Eyvindastaðaheiði, kemur glögglega í ljós í fskj. með þessari þáltill. Viðhorf íbúa Svínavatnshrepps er það, að í júní 1975 skrifaði meiri hluti atkvæðisbærra íbúa hreppsins undir yfirlýsingu til iðnrn. um bað, að þeir teldu ekki koma til greina að sökkva landi á Auðkúluheiði. Síðan var samþykkt á almennum sveitarfundi á Húnavöllum 15. júlí 1975 með 31:16 atkv. ályktun sem tekur af öll tvímæli um vilja meiri hluta hreppsbúa. Flestir íbúar Torfalækjarhrepps og forráðamenn Blönduóshrepps hafa hins vegar tekið jákvæða afstöðu varðandi virkjun Blöndu. Það er því augljóst að samstaða næst ekki nema um virkjun Héraðsvatna, en þar er ekki heldur um verulega röskun á náttúrufari að ræða.

Ég mun nú lýsa mannvirkjunum nokkru nánar og styðst þá enn og einkum við áðurnefndar skýrslur.

Lega virkjunarstaðarins er í innanverðum Skagafirði og vatnasvið virkjunarinnar er á hálendinu norðan Hofsjökuls. Af 59 m heildarfallhæð fást um 55 m með stíflugerðinni, en um 4 m með dýpkun farvegar. Hvort tveggja hefur verið ákvarðað með hagkvæmnisreikningum. Stíflulónið verður um 1.7 km2 að flatarmáli og rúmar um 33:5 kílólitra með vatnsborði í yfirfallshæð, sem yrði 151.8 m yfir sjávarmáli. Þar sem inntak virkjunarinnar verður við botn lónsins takmarkast niðurdráttur í því aðeins af hagkvæmnisástæðum, þ. e. jafnvægi milli notagildis miðlunar og fallhæðar. Ljóst er að lónið er of lítið til rennslismiðlunar að marki umfram dægursveiflur og að hagkvæmast muni því vera að halda sem hæstu vatnsborði í því að jafnaði. Möguleikinn á niðurdrætti er þó mikilvægur til að tryggja full afköst virkjunarinnar um stundarsakir í neyðartilvikum þótt aðrennsli sé í lágmarki. Þannig má t. d. halda 30 mw. afli í um það bil 5 sólarhringa með 13 gígalítra miðlun, þegar lágrennsli er í vötnunum. Svarar það til rúmlega 9 m niðurdráttar í stíflulóninu.

Rekstur virkjunarinnar sem rennslisvirkjunar byggist á lindáreinkennum Jökulsánna, sem nánar er að vikið í kaflanum um vatnasvaði. Virkjunartilhögun er annars í aðaldráttum sem hér segir:

Aðalstíflan er jarðefnastífla með þéttikjarna úr mórenu, en steypt yfirfali verður á vesturbakka, og rennur flóðvatn frá. því eftir nýjum farvegi á kafla, en skilar sér aftur í farveg Héraðsvatna um 1 km neðan virkjunarinnar. Á byggingartíma verður rennslinu veitt fram hjá stíflusvæðinu um jarðgöng í vesturbakkanum. Á síðasta byggingarstigi verður lokuvirki komið fyrir við útstreymisop ganganna og stutt frá hliðargöng lögð frá þeim að stöðvarhúsinu, sem verður ofanjarðar í gljúfrinu neðan stíflu. Göngin verða þannig bæði aðrennslisgöng virkjunarinnar og botnrásargöng auk þess, að flytja framhjárennsli á byggingartíma. Um 2 km langur frárennslisskurður er ráðgerður frá stöðvarhúsinu niður eftir árfarveginum.

Þá er þess að geta, að í Jökulsánum í Skagafirði eru nokkrir aðrir álitlegir virkjunaráfangar, þannig að þarna virðist vera um að ræða álitlega staðhætti til raforkuöflunar miðað við þarfir landsmanna sjálfra. Það er skoðun flm. þessarar till.. að samtenging raforkukerfis landsmanna sé hið brýnasta verkefni. Eðlilegt sé jafnframt með tilliti til öryggis- og atvinnusjónarmiða að reisa virkjanir af hæfilegri stærð í hinum ýmsu landshlutum. Því má bæta við, að þessi virkjunarstaður er ekki á eldvirku svæði.

Hvað varðar umhverfisáhrif Villinganesvirkjunar, þá eru þau, eins og ég sagði áðan. mjög lítil, en þessi helst að gljúfrið mun fyllast af vatni. Efnistaka er mjög nærtæk og raflínulögn auðveld, sárafáir km að byggðalinunni. Enn fremur er rétt að geta þess, að sá stíflugarður, sem þarna yrði reistur, kæmi í stað brúar á Héraðsvötn sem nauðsyn ber til að reist verði þarna í nágrenninu, en mundi að sjálfsögðu kosta verulegt fé.

Jökulsá eystri og Jökulsá vestari koma saman nokkru ofan við virkjunarstaðinn við Villinganes og heita þær síðan Héraðsvötn eins og menn vita. Eins og nöfn Jökulsánna benda til eru þær jökulvatn, en þó einungis að litlu leyti þar sem þær hafa mjög sterkan þátt lindáa. Staðhættir við Jökulsá eystri eru þeir, að fjalllendinu hallar frá brún Eyjafjarðar til vesturs, þar myndast margar þverár sem liggja í Jökulsá eystri og leggja Jökulsá eystri til mest af vatnsmagninu. Sömuleiðis má segja um Jökulsá vestari, að í hana fellur Hofsá, sem er með lindáavatni. Rennsli þessara áa er samkv. upplýs6ngum Sigurjóns Rists ótrúlega jafnt. Ýmsir virkjunarvalkostir aðrir eru álitlegir í Jökulsánum, t. d. í sambandi við miðlunarlón uppi á hálendinu, sem raunar hefði óæskileg umhverfisáhrif í för með sér, m. a. hættu á auknu krapareki niðri í héraðinu. Einnig færi þar nokkurt gróðurlendi forgörðum, þó að það sé í miklu minna mæli en á Auðkúluheiði og Eyvindarstaðaheiði. Þá má einnig nefna virkjanir með dægurmiðlun eingöngu, sem virðast mjög æskilegir virkjunaráfangar. Ég nefni áætlun sem RARIK lét einu sinni gera um 20–30 mw. virkjun neðan Merkigils, þar sem virkjað yrði 70m fall án landsskemmda, og virkjunaráfanga nokkru neðan Skatastaða, um 12 mw. virkjun. Ýmsir aðrir möguleikar hafa einnig komið til greina á þessu vatnasvæði. Það er eðli áfangavirkjana, að þær er hægt að taka í notkun eftir þörfum þjóðfélagsins hverju sinni og þarf þá ekki að gera vandræðasamninga um orkusölu til erlendrar stóriðju til þess að fá kaupanda að orkunni á skömmum tíma. Það er sá leikur sem leikinn hefur verið, en ég tel að hafi gefist illa.

Þessi till. er, eins og ég sagði áðan, endurflutt. Áður en ég lýk máli mínu vil ég lesa, með leyfi forseta, tvær örstuttar umsagnir sem sendar voru eftir að till. var lögð fram hið fyrra sinn. Þá fyrst les ég umsögn frá bæjarstjórn Sauðárkróks, dags. 28. apríl 1977. Hún hljóðar svo:

„Bæjarstjórn Sauðárkróks ræddi stöðu virkjunarmála á fundum dagana 26. og 27. apríl s. l. Var eftirfarandi ályktun samþykkt með shlj. atkv. bæjarfulltrúa:

Bæjarstjórn Sauðárkróks lýsir stuðningi við fram komna till. til þál. um undirbúning að virkjun Héraðsvatna hjá Villinganesi, enda verði allur undirbúningur virkjunarinnar miðaður við það, að hér sé um að ræða áfanga stærri virkjunar í Héraðsvötnum og Jökulsá eystri. Bæjarstjórn skorar á þm. Norðurl. v. að beita sér fyrir, að fjármagn til hönnunar virkjana þessara verði tryggt og öllum rannsóknum og undirbúningi verði lokið sem fyrst, þannig að ákvörðun um framkvæmdir megi taka án verulegs fyrirvara.“

Þá er ályktun frá aðalfundi sýslunefndar Skagafjarðarsýslu og hljóðar svo:

„Sýslunefnd Skagafjarðarsýslu lýsir fyllsta stuðningi við fram komna till. til þál. um virkjun Héraðsvatna hjá Villinganesi og skorar, á Alþ. að samþykkja hana. Eftir öllum atvikum og með vísan til fyrri ályktana sinna lýsir sýslunefndin þeirri skoðun sinni, að þessi virkjun eigi að njóta forgangs umfram aðrar virkjanir á þessu svæði. Þar sem rannsóknum til undirbúnings virkjun þessari er að mestu lokið, væntir sýslunefndin að framgangi málsins verði hraðað sem mest má verða.

Þetta leyfi ég mér að tilkynna yður, herra alþm., hér með.

Jóhann Salberg Guðmundsson.“

Þessi till. til þál. er studd ítarlegum fskj. Ég mun einungis drepa á þau í stuttu máli. Ég get ekki stillt mig um að minna á eitt, það seinasta, en það er hin sögulega ályktun hátíðarfundar á Þingvöllum 1974 um landgræðslu- og gróðurverndaráætlun til minningar um 1100 ára búsetu þjóðarinnar í landinu. Ég tel að það eigi að starfa í anda þeirrar ályktunar á virkum dögum ekki síður en á hátíðastundum. Skoplegt er að flytja fjálgar ræður á Þingvöllum og samþykkja hátíðlegar ályktanir, en vinna þvert gegn anda þeirra þegar hátíðarmóðurinn er runninn af mönnum. Villinganesvirkjun samræmist fyllilega þessari ályktun og anda hennar.

Ég læt nú máli mínu lokið, en heiti á hv. þm. að greiða götu þessarar till. Við flytjum ekki frv. til laga um þessa virkjun. Við viljum einungis að hún sé undirbúin, þannig að hægt sé að taka raunhæfa ákvörðun um hana þegar sá tími kemur og þá viti menn hvað þeir eru að samþykkja, geti gert sér grein fyrir því hvað þetta verk muni kosta og á hvern hátt það yrði framkvæmt. Ég leyfi mér svo að óska eftir því, herra forseti, að að loknum þessum hluta umr. verði málinu vísað til athugunar atvmn. Sþ. Eins og ég tók fram í upphafi sakna ég úr þingsalnum manna sem hefðu þurft að vera þar og ég veit að hefðu viljað vera þar. Óska ég því eftir, að þeim verði gefinn kostur á að tjá sig um málið ef þeim sýnist svo, áður en málið er sent til nefndar.