05.04.1978
Efri deild: 74. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3135 í B-deild Alþingistíðinda. (2305)

52. mál, ættleiðingarlög

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Þetta frv. til ættleiðingarlaga hefur gengið í gegnum hv. Nd. og verið samþ. þar með lítils háttar breytingum. Frv. er samið af sérstakri nefnd, sifjalaganefnd, sem svo hefur verið kölluð, sem tekið hefur saman fleiri frv. Í henni áttu sæti dr. Ármann Snævarr hæstaréttardómari, formaður, Auður Auðuns fyrrv. ráðh. og Baldur Möller ráðuneytisstjóri dómsmrn. Ritari n. var Guðrún Erlendsdóttir, sem er kennari við Háskólann og hefur haft með höndum kennslu í sifjarétti.

Með þessu frv. fylgir sérstaklega ítarleg grg., sem skipt er í kafla.

Í I. kafla grg. er vikið að því, hvenær ættleiðingarlög fyrst voru sett hér. Þau urðu ekki samferða ættleiðingarlögum á Norðurlöndunum, heldur voru sett hér síðar. Ern fyrstu ættleiðingarlögin frá 1953. Þangað til þau voru sett var stuðst við ýmis dreifð lagaákvæði og venjur og höfð hliðsjón af lögum um það efni á Norðurlöndunum. Norðurlandalögin hafa svo verið endurskoðuð og gefin út að nýju og verið gerðar á þeim ýmsar breytingar. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er samið með tilliti til þess og geymir að ýmsu leyti fyllri ákvæði en ættleiðingarlögin frá 1953, en auk þess talsvert veigamiklar breytingar frá þeim lögum. Gerð er allrækileg grein fyrir því, hverjar þær breytingar eru, í III. kafla athugasemda þeirra sem fylgja frv. Eru þar taldar upp breytingar í ekki færri en 17 liðum. Er um að ræða í sumum tilfellum allþýðingarmiklar breytingar. Ég sé ekki ástæðu til þess að ég fari að lesa þær upp og endurtaka það sem í aths. segir um þær.

Ég vil leyfa mér að benda á II. kafla athugasemdanna, þar sem er að finna tölfræðilegar upplýsingar um fjölda ættleiðinga hér á landi. Þar er skrá yfir ættleiðingar allt frá 1904 til 1975. Eins og sjá má á þeirri skrá, hefur fjöldi ættleiðinga verið talsvert mikill, fór vaxandi fram til 1960, en má segja að aðeins hafi dregið úr honum síðan.

Því er ekki að neita, að meðal fræðimanna, m. a. íslenskra, eru nokkuð skiptar skoðanir um það, hversu langt eigi að ganga í ættleiðingum. Er talið af sumum, að eðlilegra sé e. t. v. að miða við fóstur og fósturbörn en beinlínis að hafa kjörbarnafyrirkomulag. Ég skal ekki fara út í það nánar. Ég hygg, að hv. allshn. Nd. hafi fengið umsagnir um þetta efni, og vænti þess, að upplýsingar liggi fyrir um það.

Menn geta haft skiptar skoðanir á því, hvort eigi eða megi að stefnu til leyfa ættleiðingar eða ekki. Hins vegar held ég að ef menn eru á því, að það eigi að gera. þá sé þetta frv. tvímælalaust til mikilla bóta frá núgildandi löggjöf, geymi fyllri og skýrari ákvæði en þar er að finna. Ég held að varla þurfi að gera ráð fyrir því, að breytt verði til frá þeim háttum sem hér hefur verið fylgt í því efni, að ættleiðingar eigi sér stað í allríkum mæli. Það getur vissulega verið, að hér sé meiri vandi á höndum í því efni en sums staðar annars staðar, m. a. vegna fámennis sem hér er.

Með tilvísun til þess, hve ítarlegar aths. fylgja frv., sé ég ekki ástæðu til þess að vera að hafa lengri framsöguræðu um það. Hv. þm. hafa fengið ríkuleg tækifæri til að athuga þetta frv. vegna þess að það hefur legið fyrir tveimur þingum, og ég held að óhætt sé að segja, að það hafi hlotið mjög vandlega athugun hjá hv. allshn. Nd. Ég ætla því að láta þetta nægja, herra forseti. en leyfi mér að óska eftir því, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.