05.04.1978
Efri deild: 74. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3141 í B-deild Alþingistíðinda. (2313)

230. mál, kaup ríkisins á síldarverksmiðjunni á Þórshöfn

Flm (Stefán Jónsson):

Herra forseti. Ég leyfi mér að flytja á þskj. 442 frv. til laga um kaup ríkisins á síldarverksmiðjunni á Þórshöfn á Langanesi. Frv. er svo hljóðandi:

„1. gr.

Ríkissjóður skal leita eftir kaupum á síldarverksmiðju Hraðfrystistöðvarinnar hf. á Þórshöfn á Langanesi.

2. gr.

Takist kaupin skal Síldarverksmiðjum ríkisins falin umsjá með verksmiðjunni, og þar með að hefjast þegar handa um að fullgera verksmiðjuna og búa hana nauðsynlegum tækjum til þess að hún geti hafið loðnuvinnslu þegar á næsta hausti.“

Ég hygg að rétt sé að gera þegar í upphafi máls grein fyrir aðdraganda þessa frv. Svo sem hv. þm. er kunnugt hefur sameignarfyrirtæki þeirra á Þórshöfn, Hraðfrystistöðin hf., átt í verulegum í fjárhagsörðugleikum síðustu ár, að mestu til komnum með þeim hætti, að fyrirtæki lenti í því óláni að kaupa notaðan og úr sér genginn togara í þann mund sem nýtt og fullkomið hraðfrystihús stöðvarinnar var að komast í gagnið, og bar svo til, að einmitt um þetta leyti varð þurrð á fiskimiðum þeirra Þistilfirðinga. Þeir höfðu orðið einna verst fyrir barðinu á niðurlagi þorskastríðsins, er bresku togurunum var hópað saman á miðin fyrir utan grunnslóð þeirra og þar gekk fiskur til þurrðar. Var þá ekki um annað að ræða fyrir þá Þórshafnarbúa en að reyna að komast yfir skuttogara, svo sem önnur byggðarlög höfðu gert til þess að tryggja sér hráefnisöflun, en einnig þetta bar upp á þann tíma þegar tekin hafði verið um það ákvörðun af hálfu núv. ríkisstj., að ekki skyldu keyptir fleiri skuttogarar til landsins en þeir sem þangað voru komnir. Má segja að þetta hafi borið upp á þann tíma þegar menn komust allt í einu að þeirri niðurstöðu að Íslendingar ættu orðið of mörg fullkomin fiskiskip. En hvað sem því liður áttu þeir Þórshafnarbúar ekki kost á því að kaupa annan togara en þetta gamla norska skip, sem rekið hafði verið með fádæma erfiðleikum hér á landi um nokkurt skeið og var raunar komið í gjaldþrot þar sem því hafði verið niður komið. Það var ljóst að þetta skip var illa farið og mörgu ábótavant þar um borð. Okkur þm. kjördæmisins má vera það minnisstætt að við inntum þá Þórshafnarbúa, sem í forsvari voru um þetta mál, eftir því, hvort þeir hefðu kynnt sér ástand þessa skips, sem væri ekki glæsilegt til kaups. Það kváðust þeir hafa gert, en töldu sig til knúna að kaupa skipið eigi að síður, þótt þeir vissu að þetta væri vonarpeningur, þar sem þeir sæju ekki fyrir aðra möguleika til að komast yfir skip sem gæti annast hráefnisöflun fyrir fyrirtæki þeirra.

Nú fór svo sem horfði, að skipið reyndist illa, bilanir voru tíðar og langt umfram það sem eðlilegt gat talist með tilliti til þess, að skipið var nýlega komið úr klössun. Hefur þetta valdið þeim Þórshafnarbúum tjóni með tvennum hætti, í fyrsta lagi náttúrlega með þeim hætti, að ekki hefur fengist hráefni til frystihússins svo sem þörf var á, þannig að atvinnuleysi hefur ríkt í plássinu mánuðum saman, og í öðru lagi hefur viðgerðarkostnaður á skipi þessu verið óskaplegur.

Á næstliðnu hausti, þegar enn kom í ljós að stórviðgerða var þörf á skipinu, leituðu þeir Þórshafnarbúar eftir því, að Síldarverksmiðjur ríkisins keyptu síldarverksmiðju, sem fyrir er þar í plássinu og í eigu Hraðfrystistöðvarinnar, — keyptu þessa verksmiðju af þeim Þórshafnarbúum þannig að andvirði verksmiðjunnar mætti renna upp í viðgerðarkostnað á skipi þeirra, sem þá hafði beðið í nausti um sinn vegna þess að ekki voru tiltækir peningar til þess að borga viðgerðina. Að vísu, svo sem eðlilegt var, leituðu Þórshafnarbúar eftir þessum kaupum með atbeina ríkisstj. Af hálfu forsjármanna ríkisstj. var leitað beint til stjórnar SR um það, hvort hún teldi æskilegt og vildi kaupa síldarverksmiðjuna á Þórshöfn. Af hálfu stjórnar Síldarverksmiðja ríkisins voru undirtektir fremur dauflegar. Í fyrsta lagi var það til fært, að Síldarverksmiðjur ríkisins væru ekki aflögufærar með fé eins og á stóð, þar eð þær hefðu þegar ákveðið umfangsmiklar og dýrar framkvæmdir annars staðar við Síldarverksmiðjur ríkisins. Í öðru lagi var á það bent, að síldarverksmiðjan á Þórshöfn væri ekki, eins og þá stóð á, í rekstrarhæfu ástandi, heldur þyrfti að gera allkostnaðarsamar breytingar á henni og endurbætur til þess að hægt væri að vinna í henni loðnu. Enn í þriðja lagi var það til fært, að Þórshöfn lægi ekki vel við loðnumiðunum, þar sem Raufarhöfn t. d. lægi mun betur að sumarloðnumiðunum en Þórshöfn, en Vopnafjörður betur að vetrarloðnumiðunum. Væri raunar, þegar sækja þyrfti norður fyrir Langanes með loðnufarm, ekki öllu lengra að sigla til Raufarhafnar en til Þórshafnar. Mætti því segja að ekki væri vinningur fyrir Síldarverksmiðjur ríkisins sem slíkar að því að reka síldarverksmiðju á Þórshöfn.

Öðru sinni, þegar eftir var gengið við stjórn Síldarverksmiðja ríkisins um þetta mál, fékkst álitsgerð frá stjórn Síldarverksmiðjanna sem var efnislega á þá lund, að ef ríkisstj. ákvæði að kaupa verksmiðju þessa yrði hún, eins og að líkum léti, að sjá fjárhagshlið málsins farborða.

Þar er síðan skemmst af að segja tilkomu málsins, að við þm. Norðurl. e. fengum undir mánaðamótin febr: mars bréf, dags. 22. febr., undirritað af forsvarsmönnum hreppsnefndar á Þórshöfn, atvinnumálanefndar, verkalýðsfélagsins og Hraðfrystistöðvarinnar, svolátandi með leyfi forseta:

„Við undirritaðir aðilar á Þórshöfn skorum hér með á alla þm. Norðurl. e. að standa saman að flutningi frv. á Alþ. um að Síldarverksmiðjur ríkisins kaupi síldarverksmiðju Hraðfrystistöðvar Þórshafnar hf. á Þórshöfn og komi henni í starfhæft ástand fyrir næstu loðnuvertíð. Ljóst er að óhæfa er að verksmiðja þessi standi í niðurníðslu, á sama tíma og leigja þarf skip frá Noregi til loðnubræðslu. Það er skýlaus krafa Þórshafnarbúa, að frv. þessa efnis verði lagt fram á Alþ. nú á næstu dögum. Ef ekki næst samstaða meðal þm. Norðurl. e. um að flytja áðurgreint frv., er það ósk okkar að þeir þm., sem hafa til þess vilja, flytji frv.“

Nú er skemmst af því að segja, og vil ég að það komi ljóslega fram í ræðu minni, að það hvarflar ekki að mér að skort hafi góðan vilja af hálfu annarra þm. kjördæmisins til þess að leysa efnahagsvanda þeirra Þórshafnarbúa. En vegna forsögu málsins, vegna þess með hvaða hætti hafði verið fjallað um mál þetta innan ríkisstj. áður og sökum þess með hvaða hætti stuðningsmenn ríkisstj. í hópi meðþm. minna úr kjördæminu höfðu bundist í málið við störf sín að því að leysa efnahagsvandamál Þórshafnarbúa, töldu þeir ekki rétt og ekki vænlegt til ávinnings fyrir málið að standa að flutningi frv. þessa, en brugðu með samþykki allra þm. kjördæmisins á það ráð að búa til annars konar þingmál, þ. e. a. s. þáltill., sem flutt verður í Sþ. og lýtur að því að beina því til ríkisstj. að efnahagsástandið á Þórshöfn verði athugað í heild og þá m. a. hugað að því, hvort ekki geti verið rétt eða vænleg lausn á þessum málum að Síldarverksmiðjur ríkisins kaupi þessa síldarverksmiðju og hefji rekstur hennar.

Ég taldi nauðsynlegt að greina frá þessari meðferð málsins í hópi okkar þm. kjördæmisins, vegna þess að upp hefur komið sá misskilningur, að ég vildi á einhvern hátt kenna þeim meðflm. mínum um það svona privat og persónulega, ef ekki verður orðið við þessari beiðni þeirra Þórshafnarbúa um kaup á verksmiðju þeirra. Hér er um að ræða eitt hinna svonefndu byggðamála og í grg. með frv. segi ég frá því, að mér hefði verið það miklu skapfelldara, að Þórshafnarbúum eða sameignarfélagi þeirra hefði verið séð með skaplegum kjörum, fyrir því fé sem til þess þyrfti að koma verksmiðjunni í brúkhæft stand, því augljóst er að hér yrði um mjög hagkvæmt fyrirtæki að ræða. Þess háttar fyrirgreiðsla hefði verið eðlileg, en henni hefðu þó orðið að fylgja að vísu hafnarbætur, svo að hin stærri loðnuskip gætu lagst að bryggju á Þórshöfn, og einnig hefði þurft að taka um það ákvörðun að búa þannig að hráefnisöflun til fiskiðjuversins á Þórshöfn að lýtalaust mætti teljast.

Nú blæs hins vegar þannig á landi hér, að ekki er að vænta á næstu víkum a. m. k. eða mánuðum neins konar veðrabrigða í byggðamálum, og ljóst, að ríkisstj. sú, sem nú situr, hefur uppi önnur áfarm, — eða e. t. v. væri kannske rétt að orða það svo, að hún hefði uppi engin áform um að efla framleiðslu hinna einstöku byggðarlaga, hvað þá að hún sýni sig í því að byggja fjárhag ríkisins á grundvelli aukinnar nýtingar landsins gæða, hvort heldur í mynd náttúruauðlinda eða vinnuafls landsmanna.

Ljóst er af því, hvernig staðið hefur verið að vandamálum Þórshafnarbúa, að ekki eru á döfinni neinar fyrirætlanir um að leysa efnahagsvandamál Hraðfrystistöðvarinnar og þar með þorpsins með myndarlegu átaki, sem gæti gert þeim Þórshafnarbúum kleift að standa á eigin fótum fjárhagslega. Ætlunin mun fremur vera sú að halda áfram þessari smábótastefnu, þ. e. a. s. að halda áfram að bjarga í smáskömmtum, þessari aðferð að bæta bót ofan á bót fremur en að láta atvinnulífið gjörsamlega stöðvast, í staðinn fyrir að hjálpa þeim Þórshafnarbúum: 1) til þess að komast yfir traust skip, sem nægt gæti örugglega til þess að afla hráefnis til fiskiðjuversins nýja, sem er mjög myndarlegt og vel hefur verið til stofnað; 2) með því að koma síldarverksmiðjunni á staðnum í gang, búa hana þeim tækjum sem nauðsynleg eru til viðbótar og endurnýja það sem úr sér hefur gengið á liðnum árum; 3) með því að leggja fram fé sem þarf til þess að bæta svo höfnina að hin stærri loðnuskip geti lagst þar að bryggju.

Ég hef gengið úr skugga um að ástæðan fyrir beiðni Þórshafnarbúa, þeirri sem sett er svo einarðlega fram í fyrrnefndu bréfi sem ég las hér áðan, er sú, að þeir hafa misst trú á því, að af hálfu ríkisstj. verði gerðar neinar ráðstafanir sem dugi til þess, að þeir heimamenn geti komið verksmiðjunni í gang, svo að til gagns megi telja, fyrir næstu loðnuvertíð. Þeir sjá ekki nein teikn þess að vænta megi neinnar slíkrar aðstoðar af hálfu ríkisvaldsins. Því er það sem þeir óska þess eindregið, að ríkissjóður kaupi verksmiðjuna og feli síðan stjórn Síldarverksmiðja ríkisins rekstur hennar, svo sem rekstur annarra síldarverksmiðja ríkisins, jafnframt því sem tryggt verði að lagt verði af mörkum fé til þess að koma henni hið fyrsta í rekstrarhæft ástand.

Frv. það, sem hér er flutt að beiðni þeirra heimamanna á Þórshöfn, kemur alveg heim og saman við niðurlag bréfs stjórnar Síldarverksmiðja ríkisins frá 19. des. s. l. sem stílað var upp á það, að ef Alþ. og ríkisstj. samþykktu að kaupa síldarverksmiðjuna á Þórshöfn og legðu til það fé, sem þarf til þess að koma henni í rekstrarhæft ástand, muni náttúrlega stjórn Síldarverksmiðja ríkisins taka að sér að reka þá verksmiðju eins og aðrar síldarverksmiðjur ríkisins.

Ég tel augljóst mál, að sá vandi, sem nú steðjar að þeim Þórshafnarbúum í atvinnu- og efnahagsmálum, er ábyrgðarmál ríkisstj. Íslands, en ekki stjórnar Síldarverksmiðja ríkisins.

Hér í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að ríkissjóður skuli leita eftir kaupum á síldarverksmiðju Hraðfrystistöðvarinnar hf. á Þórshöfn á Langanesi. Af hálfu eigenda síldarverksmiðju þessarar hefur þegar verið gerð grein fyrir því, með hvaða kjörum þeir vildu selja þessa verksmiðju. Það er ljóst mál að þessi verksmiðja er til sölu, en í 1. gr. frv. er aðeins kveðið á um það, sem eðlilegt er eigi að síður, að ríkissjóður leiti eftir kaupum á verksmiðjunni.

2. gr. frv. hljóðar um það, að ef kaupin takast á síldarverksmiðjunni, og er engin ástæða til að ætla annað, skuli Síldarverksmiðjum ríkisins falin umsjá með verksmiðjunni og þar með að hefjast handa um að fullgera hana og búa hana tækjum til þess að hún geti hafið loðnuvinnslu þegar á næsta hausti.

Að dómi kunnugra og þeirra, sem best eiga að þekkja til slíkra mála, færi rekstur þessarar verksmiðju á Þórshöfn við loðnubræðslu ákaflega vel með öðrum þáttum útgerðar frá Þórshöfn. Kunningja minn, siglingafróðan, sem margan túrinn hefur siglt fyrir Langanes með hlaðið skip, spurði ég hvort það væri ekki virkilega jafnlangt til Þórshafnar og Raufarhafnar þegar siglt væri með loðnufarm fyrir Langanes. Hann leyfði sér að svara til á þá lund, að þeir ætluðu þá piltarnir að gera vel fyrir röstinni, ef þeir ætluðu að fá út jafnlanga siglingu til Þórshafnar og Raufarhafnar.

Þeir ágallar á verksmiðjunni, sem upp eru taldir í grg. frá stjórn Síldarverksmiðja ríkisins, eru vafalaust ekki ýktir. Þessir ágallar eru á síldarverksmiðjunni á Þórshöfn. Úr þeim þarf að bæta til þess að hægt sé að koma verksmiðjunni í gang við loðnubræðslu. Það þarf að bæta við tækjum, og fullkomin ástæða er til þess að ætla, að kostnaður við það að koma verksmiðjunni í rekstrarhæft stand yrði í kringum 200 millj. kr. En hitt er vafalaust, að verksmiðja af þessu tagi á Þórshöfn, sem kostaði ríkissjóð tilbúin til þess að taka til starfa innan við 500 millj. kr., yrði arðbært fyrirtæki fyrir ríkið, og þó umfram allt hitt, að sú vinna, sem þessi verksmiðja mundi tryggja íbúum Þórshafnar, og þær framfærslutekjur, sem þeir mundu hafa af störfum í þessari verksmiðju, mundu efla byggðarlag sem vissulega stendur höllum fæti nú.

Þórshöfn er annars þannig í sveit sett með frjótt og viðlent hérað Þistilfjarðar að baklandi, að þar má efla útgerð og annan atvinnurekstur svo að hvort styðji annað til þroska: þorp og sveit. Svo bar til, að af öllum byggðarlögum á Norðurl. e. varð þetta pláss harðast úti við þau veðrabrigði, sem urðu við síðustu stjórnarskipti. Nú er nauðsyn að gera þá ráðstöfun er frv. þetta hnígur að, þ. e. a. s. að koma síldarverksmiðjunni þar í starfrækslu, og síðan þær ráðstafanir, sem ég drap áðan á í ræðu minni, að tryggja þeim Þórshafnarbúum skip sem til þess dugir að afla hráefnis í frystihús staðarins. Þessar ráðstafanir er nauðsynlegt að gera til þess að gera Þórshafnarbúum kleift að þreyja þorrann og góuna uns aftur bregður til bata fyrir hinar dreifðu sjávarbyggðir í stjórnmálum landsins.