05.04.1978
Neðri deild: 70. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3157 í B-deild Alþingistíðinda. (2321)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Virðulegi forseti. 1 ummælum, sem komu fram hjá hv. þm. Ólafi G. Einarssyni, formanni fjh: og viðskn., hefur verið upplýst að fundir hafa verið haldnir, hvort sem hæstv. forseti hefur talið sig þurfa sérstaklega að ýta á eftir nefndaformönnum svo að fundir yrðu haldnir og mál afgreidd. En þó að ekki þurfi að ýta á eftir hv. þm., formanni fjh: og viðskn. til fundahalda, þá þarf eigi að síður að ýta á eftir honum svo að mál fái umfjöllun í n. Það væri kannske frekar að biðja hæstv. forseta um það í framhaldi af því sem hér hefur komið fram.

Varðandi hitt, sem og kom fram hjá Ólafi G. Einarssyni, þá er það rétt að hv. þm. Lúðvík Jósepsson er flm. ásamt mér og hv. þm. Garðari Sigurðssyni að þessu máli. Hvort sú er ástæðan, að hann hafi ekki rekið á eftir afgreiðslu málsins af miklum þunga, hvort það eru í raun og veru þau rök, sem fyrir því liggja að málið hafi ekki fengið umfjöllun í n., skal ég láta liggja á milli hluta. En sé það skilyrði, að flm. að frv. eða þáltill. þurfi að vera í n., sem málið fer til, til þess að málið fái umfjöllun, þá er nú orðið allerfitt fyrir þm. að koma á framfæri hugðarefnum sínum og flytja mál á Alþ. Ég vil hins vegar draga mjög í efa, að hv. þm. og meðflm. minn að frv., Lúðvík Jósepsson, hafi ekki ýtt á eftir þessu máli, því að ég hef nokkrum sinnum talað um það við hann. Þetta getur hann auðvitað upplýst sjálfur, en hann er því miður ekki viðstaddur nú. Ég geri ráð fyrir því, að hann hafi ýtt á eftir málinu, en þrátt fyrir það hefur það ekki fengið afgreiðslu.