05.04.1978
Neðri deild: 70. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3159 í B-deild Alþingistíðinda. (2325)

Umræður utan dagskrár

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Hæstv. forseti. Í Rómarríkinu forna var stjórnmálamaður, sem Cato hinn gamli hét. Hann gat aldrei haldið ræðu um nokkurt mál án þess að ljúka ræðu sinni með kröfu um það, að Karþagó yrði lögð í eyði. Því er svo farið með hv. 8. landsk. þm., Sighvat Björgvinsson, að hann má nú orðið ekki tala um neitt mál í þingi án þess að Krafla sé komin á heilann á honum. Þó að spurst sé fyrir utan dagskrár um sjónvarpssendingar á fiskimiðin, þá skal Krafla komast inn í umr.

Út af þeirri fsp. sem hann bar fram, eða beiðni réttara sagt, um skýrslu um Kröflu, þá veit hv. þm. ósköp vel, því að ég hef margsinnis sagt honum það utan funda, hvernig það mál stendur. Strax voru gerðar ráðstafanir til þess, að samin yrði skýrsla, og hafa Orkustofnun, Kröflunefnd og iðnrn. unnið að því. Búið er að safna saman miklu efni og langt komið að ganga frá þeirri skýrslu, sem verður allmikil bók. — Þessi skýrsla verður lögð fyrir Alþ. áður en því lýkur. Þetta var ég búinn að segja hv. þm. og ástæðulaust fyrir hann, og það í umr. um sjónvarpsmál og fiskimið, að spyrjast fyrir um þetta.