05.04.1978
Neðri deild: 70. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3160 í B-deild Alþingistíðinda. (2327)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Ég stenst að sjálfsögðu ekki þessa brýningu hv. þm. Jónasar Árnasonar. Ég verð nú að segja, að það er ekki leiðum að líkjast þegar hæstv. iðnrh. líkir mér við Cato hinn gamla. En ég vil aðeins benda hæstv. iðnrh. á að það endaði með því, að Cato hinn gamli hafði sitt fram, og e. t. v. verður endirinn sá, að hæstv. ráðh. leggur fram þessa skýrslu sína, sem ég er að kalla eftir, þremur mánuðum eftir að hana átti að leggja fram á Alþ. ef fara átti eftir því sem við óskuðum eftir sem um skýrsluna báðum. Ég tel það ekki vera mikla þráhyggju að bíða þrjá mánuði fram yfir þann tíma, sem skýrslan átti fram að vera komin ef fara átti að beiðni þeirra fjölmörgu þm. sem um skýrsluna báðu, því það er fyrst nú sem ég spyrst formlega fyrir um það, hvort ekki sé ætlunin að leggja þessa skýrslu fram, svo að megi taka hana til umr. á þessu þingi. Það er ekki fyrr en þremur mánuðum eftir að það átti að gera. Ég tel það ekki bera vott um mikla þráhyggju.

En fyrst hæstv. iðnrh. vill endilega vitna í gamla stjórnmálaskörunga frá tímum Rómarveldisins, þá get ég endað ræðu mína á að vitna í þann atburð sem ég býst við að öllum þingheimi sé um kunnugt. Það var líka stjórnmálamaður í Róm, frægur nokkuð, sem m. a. var frægur fyrir að leika á fiðlu á meðan Róm brann. E. t. v. væri hæstv. ráðh. betur farið að hætta að leika á fiðluna, en taka heldur þátt í að slökkva eldinn.