31.10.1977
Neðri deild: 10. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í B-deild Alþingistíðinda. (233)

16. mál, sveitarstjórnarlög

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Ég þakka þeim hv. 5. þm. Vesturl. og 5. þm. Reykv. fyrir undirtektir þeirra undir efni frv. og þær viðbótarröksemdir fyrir því sem þau hafa flutt í ræðum sínum. Hv. 6. þm. Reykv. hafði hins vegar aðra skoðun og er ekkert um það að segja, það er matsatriði. Hann benti á að ég hefði í framsöguræðu minni fullyrt að reynsla af 18 ára kosningaaldri væri góð, án þess að rökstyðja það á nokkurn hátt. Þetta er út af fyrir sig rétt hjá honum, svo að ég mun fara um það örfáum orðum hvers vegna ég fullyrt að reynslan væri góð.

Þegar fyrst komu fram hugmyndir um 18 ára kosningaaldur var þeim ekki vel tekið og komu fram þær skoðanir og hrakspár víða um lönd, að unga fólkið skorti á þeim aldri þroska til að fara með þann rétt sem kosningarrétturinn er. Ef því yrði fenginn slíkur réttur mætti búast við að það hópaðist til að misnota hann og valda pólitísku raski sem gæti ekki orðið frjálsum þjóðfélögum til góðs. Nú hafa farið fram svo margar kosningar í ólíkum löndum, bæði stórum og smáum, frjálsum og þar sem frelsið er minna, að ég tel að það sé hægt að draga þá ályktun af þeim, að fengin sé reynsla í þá átt að kosningarréttur 18 ára æskufólks hafi ekki haft neinar truflandi eða óeðlilegar afleiðingar. Það sjáum við hreinlega af úrslitum kosninga. Nú vil ég ekki halda því fram, að það sé í sjálfu sér gott að úrslit raskist lítið og breytingar séu ekki góðar. En það má af úrslitunum yfir nokkurn tíma sjá hvort það hefur orðið óeðlileg breyting sem stafaði af 18 ára kosningaaldri. Það hefur ekki verið hægt að sjá að því er ég best veit.

Þá má benda á að skoðanakannanir eru orðnar mjög ítarlegar og fullkomnar í öðrum löndum. Þar taka jafnvel fræðimenn trúanlegar kannanir um hvernig þátttaka hinna ýmsu aldursflokka og hinna ýmsu stétta hafi verið og hvernig hinir ýmsu aldursflokkar hafi skipst á flokka sem í framboði eru. Reynslan hefur orðið sú, að þátttökuhlutfall 18, 19 og 20 ára fólks hefur ekki verið verulega ólíkt því hlutfalli sem tíðkast hjá öðrum aldursflokkum. Þar er dálítill munur á, fólk á miðjum aldri kýs heldur minna, en síðan meira eflir því sem það eldist. Þetta er reynslan í flestum nágrannalöndum okkar. En unga fólkið hefur ekki skorið sig úr á neinn verulegan hátt. Það virðist vera svipaður hópur í þessum árgöngum unga fólksins sem hefur pólitískan áhuga og notfærir sér þennan rétt eins og í öðrum árgöngum. Það virðist líka vera svipaður hópur sem ekki hefur nægilegan áhuga á pólitískum réttindum til að hagnýta sér kosningarrétt. Loks er spádómurinn um að þroskaleysi mundi leiða til þess að æskufólkið hópaðist í hina og þessa öfgaflokka. Það hafa ekki komið fram röksemdir eða rannsóknir sem gefa ástæðu til að ætla að breyting úr 20 eða 21 árs kosningarrétti í 18 ár hafi orðið til að efla öfgaflokka sérstaklega.

Af öllu þessu tel ég að fullyrðing mín um, að reynslan hafi verið góð, geti fullkomlega staðist. Ef menn vilja orða þetta á gætnari hátt, má nota þau orð, að hrakspár varðandi lækkun kosningaaldurs hafi örugglega ekki reynst eiga við rök að styðjast.

Ég vil að lokum minna hv. dm. á að kosningarréttur og kosningarréttarmál eru eitt af stórmálum þessa þings. Það er sýnilegt af málflutningi, sem þegar hefur átt sér stað hér í deildinni og Sþ., að þetta er eitt þeirra mála sem þjóðin væntir að Alþ. geri á breytingu. Ég bendi á að aldursmark kosningarréttarins er eitt þeirra meginatriða sem verður að taka til athugunar í því samþandi. Ég tel rétt að gera þetta skref fyrir skref. Það var ákveðið fyrir áratug að lækka kosningaaldur um eitt ár, en ekki þrjú, og næsta skrefið mætti vera að framkvæma lækkun í sveitarstjórnarlögum, enda mundi þá vera hægara að koma við leiðréttingu ef einhverjar óvæntar og óæskilegar afleiðingar kæmu í ljós.