31.10.1977
Neðri deild: 10. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í B-deild Alþingistíðinda. (235)

16. mál, sveitarstjórnarlög

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Ég vil strax við 1. umr. þessa máls lýsa stuðningi mínum við þetta frv. Ég þarf í raun og veru ekki að gera frekari grein fyrir rökstuðningi þeirrar skoðunar en hér hefur komið fram. Það má þó bæta því við, að það er svo t.d. í okkar þjóðfélagi að því er varðar vinnumarkaðinn, að fólk á 18 ára aldri er þar í Flestum tilfellum síður en svo talið eftirbátar fólks sem orðið er 20 ára eða 25 ára eða hvaða aldur sem við nefnum fyrir ofan það. Það er sem sagt orðið fullgilt. Og ég held að það sé tími til þess kominn að fólk á þessum aldri fái þessi réttindi. Hér er aðeins um það að ræða að breyta þessu að því er varðar kosningar til sveitarstjórna. En ég vil jafnframt lýsa því yfir sem minni skoðun, að ég tel að jafnhliða slíkri breytingu sé æskilegt að færa kosningaaldur til Alþ. niður í 18 ár. Ég tel að öll rök hnígi að réttmæti slíkrar ákvörðunar. Ég skal ekki eyða frekari tíma hér til rökstuðnings þess, en ég vildi nota tækifærið til að lýsa stuðningi mínum við þetta frv.