05.04.1978
Neðri deild: 72. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3168 í B-deild Alþingistíðinda. (2359)

192. mál, sveitarstjórnarlög

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er af ýmsum ástæðum erfitt að koma í ræðustólinn eftir flutning þeirrar ræðu sem hér var að ljúka, en mig langar með fáum orðum að víkja að örfáum atriðum varðandi þetta mál.

Nú skal ég taka það fram strax, að í mínum huga vakna ýmsar spurningar og efasemdir um breytingar frá því sem nú er varðandi sveitarstjórnarkosningarnar. Ég vil í fyrsta lagi segja, að mér líst miður vel á þá breytingu að kosningar eigi að fara fram á laugardegi. Ef við tökum t. d., eins og talað er um nú, fyrsta laugardaginn í júní, þá er það laugardagur fyrir sjómannadag. Eins og verið hefur á ýmsum stöðum hér á landi, að ég hygg mörg undanfarin ár og kannske í áratugi sums staðar, fara hátíðarhöld sjómannadagsins fram að nokkru, sums staðar að verulegu leyti einmitt laugardaginn fyrir sjómannadag. Það er því í mínum huga um tómt mál að tala að kjósa á laugardegi fyrir sjómannadag. Ef kosning ætti að eiga sér stað á laugardegi, eins og nú háttar til um sjómannadaginn, þá yrði að færa sjómannadaginn til.

Nú er það, að mér finnst, heldur óviðurkvæmilegt og í mörgum tilfellum ekki eðlilegt að vera á eilífu rokki með sjómannadaginn. Ég held að sá tími, sem nú hefur verið valinn honum, teljist nokkuð skaplegur. Í mínum huga t. d. er ekki æskilegt að sjómannadagurinn væri færður þannig til, að hann yrði síðasti sunnudagur í maí eða hann yrði um miðjan júní eða síðari hluta júní. Ég er því heldur andstæður því að breyta kosningunum á þann veg, að þær fari fram á laugardegi.

Auk þess, sem ég hef hér tekið fram, þá er það rétt, sem kom fram hjá síðasta ræðumanni, að ýmsar stéttir í landinn vinna enn þá á laugardögum. Það merkir í raun og veru, að ef kosningar ættu að fara fram á laugardegi, þá mundi annað tveggja gerast, að það fólk, sem vinnur t. d. almenna vinnu, verkamenn, fólk í fiskvinnslustöðum, verslunar- og skrifstofufólk og fleiri, yrði annaðhvort að hætta vinnu á föstudögum, ef það vildi á annað borð sinna eitthvað kosningaundirbúningi og vinna fyrir kjördag, eða að öðrum kosti yrði ekki um slíka vinnu að ræða af hálfu þessa fólks. Hins vegar má um þetta segja, að í mörgum starfsgreinum er t. d. ekki unnið nema fram að hádegi á laugardögum. Eftir hádegi gætu þessir starfshópar eða starfsstéttir, sem vildu sinna kosningaundirbúningi eða hugðarefnum sínum í tengslum við kosningar, gert það án þess að þurfa að fella niður vinnu eftir hádegi laugardaginn, miðað við að kosningar ættu sér stað á sunnudegi. Þessu er ekki til að dreifa, ef að því verður horfið að færa kosningar fram á laugardag.

Annað í þessu, sem hér var komið inn á, finnst mér líka vera ærið íhugunarefni. Ég held að í raun og veru komi kannske frekast tvennt til: annaðhvort að hafa bæjar- og sveitarstjórnarkosningar og alþingiskosningar sama daginn eða að það verði a. m. k. óbreyttur tími sem liður milli þessara kosninga, þ. e. a. s. einn mánuður. Ég er ekki hlynntur því að stytta tímann milli kosninga, ef á annað borð er ekki horfið að því að hafa kosningarnar á sama degi, en ég er nú heldur, án þess að hafa íhugað það til hlítar, andvígur því, að hafa sama kjördag fyrir bæjar- og sveitarstjórnarkosningar og alþingiskosningar. Ég verð því að segja að eins og málið stendur nú er ég heldur andvígur þessari breytingu, að færa kosningarnar til svo að þær færu fram á laugardegi.

2. gr. frv. er fyrst og fremst um breytingu á kosningu varamanna. Tel ég slíka breytingu eðlilega og sjálfsagða og hef ekkert við hana að athuga. En ég er sem sagt heldur andvígur 1. gr. á þeim forsendum sem ég hef stuttlega rakið.

Fram kom í máli frsm. n., sem er jafnframt 1. flm. að frv., að ef að þessu yrði horfið með kosningadaginn, hann yrði fyrsti laugardagur í júní, þá mundi nokkuð oft þurfa að færa sjómannadaginn til. Mér finnst óheppilegt að þurfa að vera að rokka með sjómannadaginn meira og minna. Ég held að miklum mun æskilegra sé að reyna, a. m. k. eftir því sem hægt er, að hafa hann í sem föstustum skorðum og á sama sunnudegi og verið hefur. Nú er ljóst og hefur komið fyrir, ef ég man rétt, að vegna hvítasunnu hefur þurft að færa hann til, en ef að þessu yrði horfið líka væri miður farið, a. m. k. finnst mér það. Ég tel að ef á að hverfa að því að hafa kosningarnar á laugardegi, þá yrði að færa sjómannadaginn til. Ég er ekkert viss um að menn finni neitt heppilegri tíma til þess að halda sjómannadaginn hátíðlegan en einmitt þann sem nú er. Það er í mínum buga algerlega útilokað að kosningar fari fram laugardaginn fyrir sjómannadag.

Mig langaði við þessar umr. að koma þessum hugrenningum mínum að varðandi málið, frekar en ég telji mig hafa mótað afgerandi afstöðu til þess, nema að því leytinu til, að ég er heldur andvígur því að kosningarnar verði færðar til laugardags.