05.04.1978
Neðri deild: 72. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3173 í B-deild Alþingistíðinda. (2362)

192. mál, sveitarstjórnarlög

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég hef ekki hugsað mér að fara mörgum orðum um þetta mál, sem hér er til umr., frv. til l. um breyt. á sveitarstjórnarlögum. Við höfum orðið þess vör á hinu háa Alþ., að mjög hefur vaxið áhugi allmargra þm. fyrir ýmsum breytingum í kosningalögunum, og ætla ég því síður að fara út í alla þá sálma. Nú verð ég að játa, að á ýmsum þeim breytingum, sem fitjað hefur verið upp á, hef ég áhuga, en tel stórvarhugavert að breyta miklu alveg þegar komið er að kosningum. Ég álít að bæði þingsins vegna og vegna kjósenda í landinu þurfi þetta að eiga miklu lengri aðdraganda, allar veigamiklar breytingar í þessu efni.

Ég skil vel nauðsyn þess að breyta þeim kafla laganna, sem fjallar um kosningarnar, þannig að hindra megi að til tveggja kjörfunda þurfi að boða vegna kosninga í sveitarstjórn, þ. e. vegna kosninga varamanna. Því er ég fylgjandi. En ég er andstæður því að breyta til um kjördag að þessu sinni. Ég tel vel koma til álita að gera þetta, helst þá sem fyrst í upphafi kjörtímabils, en ekki að breyta mjög til rétt áður en kemur að kjördegi sjálfum.

Það vill svo til, að fyrsti laugardagur í júní er laugardagur fyrir sjómannadag. Að mínum dómi er alveg óhæfa að gera hann að kosningadegi, hvort heldur er til Alþ. eða sveitarstjórna. Svo ber til, að víðast á landinu eru hátíðarhöld sjómanna þennan dag, laugardaginn fyrir sjómannadag, a. m. k. allt sem er auðvitað mest skemmtiatriði þó að keppni sé kölluð, kappróður, reiptog, stakkasund o. s. frv., sem menn skemmta sér við, það er allt saman — a. m. k. þar sem ég þekki til — framið á laugardeginum fyrir sjómannadag. Einnig eru gjarnan aðalskemmtanir að kvöldi dags þennan hinn sama dag, þannig að þegar af þessari ástæðu kemur ekki til nokkurra greina að ég fallist á að fyrsti laugardagurinn í júní verði gerður að kjördegi. Enn fremur er það, sem hv. þm. Gunnlaugur Finnsson hlýtur að taka tillit til, að þá stendur sauðburður víða, a. m. k. í hans sveit, sem hæst. Hann er þá farinn að fara með hrúta í byrjun desember og hefur lokið við að hleypa til fyrir nýársdag ef ekki stendur yfir sauðburður hjá honum fyrsta laugardag í júní. En það er auðvitað ekkert búskaparlag að fara þannig að ráði sínu vestur þar. Það er í hæsta lagi, að þeir í Öræfum gætu þetta, þar sem sumarið kemur mánuði fyrr en annars staðar. Þess vegna er það líka, að flestir bændur, a. m. k. þeir sem eru búandmenn góðir, fara ekki af fötum allan þann tíma sem sauðburður stendur yfir og fjarri því að þeir eigi þess kost að verja tíma sínum til kosninga, að ég nú ekki tali um til framboðs í sveitarstjórn.

Þessi dagur er því alla vega furðulega valinn og hugdetta sem mér hreint og beint skil ekki, síst af öllu að þetta skuli vera lagt til af hv. 4. þm. Vestf., af því sem honum á að vera fullkunnugt um hvernig á stendur fyrir bændum landsins. Víð ýmsir aðrir getum vitnað um, hvernig ástatt er hjá sjómannastéttinni gjörvallri. Ég sé ekkert á móti því, þótt við enn einu sinni kjósum ekki á sama degi í kaupstöðum landsins og hreppum. Það er þénugt fyrir bændur og búalið að sækja kjörfund eins og nú stefnir að, hinn 25. júní, ásamt með því sem þeim gefst kostur á að kjósa til Alþingis. En ég vil beina því til flm., til þess að þetta verði ekki allt drepið fyrir þeim, hvort þeir geti ekki hugsað sér að draga einvörðungu til baka það sem að þessu lýtur um kjördaginn. Við gætum þá orðið sammála um að breyta hinu atriðinu, varðandi kjör varamanna, þannig að ekki þurfi það óheppilega upp á að koma að boða þurfi til annars kjörfundar til kosningar þeirra.