05.04.1978
Neðri deild: 72. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3174 í B-deild Alþingistíðinda. (2365)

193. mál, sveitarstjórnarkosningar

Garðar Sigurðsson:

Ég hélt að ég hefði verið búinn að kveðja mér hljóðs áðan um hitt málið, en ég sá ekki ástæðu til að gera aths. vegna þess að þetta mál er eins og vaxið út úr hinni vitleysunni og óhætt að nefna það, sem ég ætlaði að gera aths. við, undir þessum dagskrárlið. Það er eiginlega um sama málið að ræða í raun. Þetta er aðeins fylgifiskur hins frv., sem ekki verður að lögum.

Ég sé ekki ástæðu til þess að segja margt um þær aths. sem þessir hv. þm. og flm. gerðu við ræðu mína. Þar koma engar röksemdir að neinu haldi og fáar heyranlegar. Mér leiddist samt þegar þeir voru að víkjast undan því að þykjast skilja það, við hverja ég átti þegar ég talaði um þessa hávaðasömu gemsa úti í bæ og tók m. a. svo gróft til orða að nefna suma þeirra ritsóða. Allir landsmenn vita við hverja er átt. Það vita allir landsmenn, hverjir hafa hamast mest að Alþ. og reynt að draga virðingu þessarar stofnunar niður í skítinn. Þó að þessir hv. þm. reyni viljandi að loka augunum fyrir þessu, þá mega þeir vita að augun í fólki eru ekki aðeins til þess að loka þeim fyrir staðreyndum, heldur til þess að horfast í augu við þær, jafnvel þótt þær séu óþægilegar.

Hv. þm. Gunnlaugur Finnsson talaði í hæðnistón þegar ég vék að því að ég hefði í huga hagsmuni verkafólks. Hann sagðist þekkja þennan tón, gerði grín að. Þetta grín mistókst auðvitað algerlega. Það er óviðurkvæmilegt að taka svo til orða hér í hv. þd. Það, sem ég átti við, var að úti á landi eru laugardagar að talsverðu leyti vinnudagar hjá því fólki sem vinnur við framleiðsluna. Það er staðreynd. Og ég var aðeins að hugsa um að þetta fólk hefði möguleika til þess að vinna í kosningunum, eins og hann veit að gert er, ekki síst á stærri stöðunum. Og hann treysti svona geysilega mikið á atvinnurekendur, eins og kom fram í ræðu hans áðan, að þeir mundu ekki láta þetta fólk vinna laugardaginn sem kosningarnar væru, þeir mundu sjá um að ekki yrði látið vinna þann laugardag! Ég er ekkert viss um að atvinnurekendur í því plássi, sem ég þekki mest til, færu að gera sér sérstakt far um að gera vinstrisinnuðu verkafólki eitthvað þægilegra um vík að taka þátt í kosningaslagnum á móti sér — þeir, sem eru t. d. í framboði í væntanlegum þingkosningum. Og er ekki nóg þó að þessir atvinnurekendur væru svona liðlegir í öllu, eins og hv. þm. Gunnlaugur Finnsson álítur, að þeir mundu gefa frí til þess að fólkið flýti sér á kjörstað. Það er ekki nóg. Þetta fólk vill vinna fyrir sinn flokk og sína frambjóðendur og gera meira en bara setja krossinn á réttan stað, sem ég veit að það gerir, a. m. k. heima hjá mér. Það vill líka vinna.

Enn vefst hvítasunnan fyrir Gunnlaugi Finnssyni, hv. þm., miklu meira en sjómannadagurinn. Það er rétt, að hvítasunnan er mikill hátíðisdagur hjá þeim sértrúarflokki sem í þessu landi lifir. Vil ég ekki gera lítið úr því, að menn vilji minnast þess hátíðlega þegar heilagur andi birtist þeim ágætu mönnum fyrir nærri 2000 árum austur við botn Miðjarðarhafsins. Það er mjög gott að minnast heilags anda, ekki aðeins á þessum degi, heldur alla daga, og mætti hv. þm. Gunnlaugur Finnsson gera meira að því að leggja þar við eyru. En ég tel ekkert síður mikilvægt að minnast sjómannastéttarinnar á hátíðisdegi hennar, þó að sjómenn séu kannske ekki að hugsa um heilagan anda einmitt þann daginn. Því tel ég ósæmilegt og með öllu ófært að ætla sér að fara að kjósa á sjómannadaginn, og litlu betra þó að hv. þm. stingi upp á því að flytja sjómannadaginn til, eftir því sem honum býður við að horfa hverju sinni, ýmist fram eða aftur, aftur eða fram.

Hv. þm. Sverrir Hermannsson talaði áðan, vel og skynsamlega eins og hans er vandi, og var auðvitað sammála mér í öllum atriðum. Sérstaklega vildi hann þó taka undir það, að ófært væri að vera að nudda þessu yfir á sjómannadaginn og fráleitt að fara að gera þessar breytingar fyrir væntanlegar kosningar, þegar svo stutt er til loka þingsins og stutt er til kosninga. En hann minnti einnig á, að sauðburðurinn stendur yfir ekkert síður þennan dag en síðasta laugardag í maí á stórum svæðum á landinu. Hins vegar get ég sagt hv. þm. Gunnlaugi Finnssyni það, að sauðburði er víða lokið í mínu kjördæmi á þessum tíma, a. m. k. mestu annirnar í því efni, a. m. k. ef þokkalega viðrar. En það eru auðvitað erfiðleikar ef illa viðrar, og þeir erfiðleikar verða alls ekki búnir eftir viku, því að þarna er ekki nema vika á milli. Virðist útgerðarmaðurinn Sverrir Hermannsson, hv. 3. þm. Austurl., þekkja allt miklu betur varðandi sauðburð en sjálfur bóndinn vestan úr Önundarfirði, og þykir mér það firnum sæta. Ég gerði þó ráð fyrir að hann vissi þetta, en það er komið í ljós að hann veit ekki einu sinni þetta.

Ég þarf svo sem ekki að segja margt fleira um þetta. Ég er búinn að víkja lítillega að sauðburðinum sem Ólafur G. Einarsson, hv. þm., hafði í huga. Hann hélt að ég hefði gleymt bændum og sveitafólki þegar ég talaði áðan. Það er alveg af og frá. Ég mundi vel eftir þessu fólki, og það man ábyggilega líka vel eftir okkur, við þurfum ábyggilega ekki að kvarta undan því.

En hv. þm. Ólafur G. Einarsson sagði þó að hann gæti fallist á sunnudaginn, svo ekki hefur hann verið ákveðinn í trúnni hvað þetta atriði varðar. Hann er nú þegar farinn að hrekjast á milli skotgrafanna í þessu. Tel ég þá að sjálfsögðu mjög mikið unnið, að laugardagurinn skuli ekki vera honum svo fastur í hendi. En þá, þegar laugardeginum sleppir, sýnist mér að sunnudagurinn sé enn verri, vegna þess að það er nú sjálfur sjómannadagurinn, fyrsti sunnudagur í júní.

Þeir töluðu um það báðir, að þeir væru ekki að hrekjast undan neinum áróðri með þessum tillöguflutningi. En hver var þá tilgangurinn, þegar svo margir gallar eru finnanlegir á frv.? Hver var í raun og veru tilgangurinn með þessu annar en að vera lýðræðislegur í framan, sem sjaldan skeður utan þess að þeir flytja svona mál?

Herra forseti. Ég gæti svo sem haldið áfram að ræða þetta mál ítarlegar, en þar sem tveir nm. í félmn. höfðu gert fyrirvara við afgreiðsluna, þá fyndist mér rétt gagnvart þeim hv. nm., að þessari umr. yrði ekki lokið að þessu sinni, heldur yrði frestað, þannig að þeir gætu þá gert grein fyrir fyrirvörum sínum áður en 2. umr. lýkur. (Gripið fram í: Ég vil leiðrétta ræðumann. Ég hafði engan fyrirvara varðandi þetta mál sem er á dagskrá.) Herra forseti. Ég get kannske sparað mér að svara þessum aths., vegna þess að ég tók fram í upphafi máls míns, sem að sjálfsögðu hefur farið fram hjá hv. þm. Gunnlaugi Finnssyni eins og flest annað í máli mínu, að ég ætlaði að ræða það dagskrármál, sem var áðan á dagskrá, og vonast til að þeirri umr. verði frestað en ekki lokið.