31.10.1977
Neðri deild: 10. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í B-deild Alþingistíðinda. (237)

27. mál, fuglaveiðar og fuglafriðun

Flm. (Jónas Árnason):

Herra forseti. Þetta frv., sem ég hef leyft mér að flytja, frv. til l. um breyt. á l. nr. 39/1966, um fuglaveiðar og fuglafriðun, var flutt á síðasta þingi, en hlaut þá ekki afgreiðslu. Efni þess er í stuttu máli það, að við Íslendingar framfylgjum ákvæðum alþjóðasáttmála um verndun fugla, sem við erum aðilar að, með því að banna haglabyssur sem taka fleiri skothylki en tvö, byssur sem hægt er að skjóta af fleiri skotum en tveimur í einni hrinu. Slíkar byssur munu vera æðimargar hér á landi, úr þeim er hægt að skjóta allt upp í 5 skotum í einu, og liggur í augum uppi að slík vopn í höndum viðvaninga valda því að margir fuglinn flýgur burt hættulega særður. Viðkomandi ákvæði alþjóðasamþykktarinnar fjallar um bann við byssum af þessu tagi. Þetta frv. stefnir að því að draga úr þeirri hættu að rjúpna- og gæsaskyttur valdi því að fuglar særist alvarlega og taki út þjáningar sem oft og tíðum leiða að sjálfsögðu til dauða.

Það urðu alllangar umr. um þetta hér í fyrra, mjög svo fræðilegar umr. Risu upp menn, sem vit hafa á byssum, og fundu þessu ýmislegt til foráttu. Það var jafnvel gengið svo langt að halda því fram, að þeim mun fleiri skot sem væru í byssunum, þeim mun minni hætta væri á því að fuglar flygju burt særðir. Ég ætla ekki að hefja fyrir fram rökræður við þá menn sem slíku halda fram. En ég hef kynnt mér þessi mál nokkru nánar síðan í fyrra og hef sannfærst æ betur um að öll rök mæla með því að bann sé sett við umræddri tegund skotvopna.

Menn spyrja e.t.v.: Hvað liggur á ? Það er verið að endurskoða lög um fuglaveiðar og fuglafriðun. Má ekki bíða þangað til frv. að þeim kemur fram? Ég hef haft þær spurnir af undirbúningi þeirrar lagasetningar, að hún eigi enn þá langt í land. Þess vegna hef ég leyft mér að flytja þetta frv. aftur í þeim tilgangi að þessi ákvæði komist sem fyrst í lög. En Hinu er ekki að neita eftir þeim upplýsingum sem ég hef fengið, að það eru allar líkur á því, að þegar þar að kemur verði þetta tekið í fuglafriðunarlögin, ákvæði um bann við umræddum byssum.

Eins og menn vita er að störfum nefnd til endurskoðunar fuglafriðunarlögunum. Í henni eiga sæti Ásgeir Bjarnason, formaður Búnaðarfélags Íslands, Arnþór Garðarsson, formaður fuglafriðunarnefndar, og frá menntmrn. Runólfur Þórarinsson fulltrúi í því rn. Mér er kunnugt um að það liggur fyrir þessari n. mjög eindregin till. um að þetta atriði verði tekið inn í frv. þegar það kemur fram endurskoðað, frv. um fuglaveiðar og fuglafriðun. N. fór þess á leit við ýmsa aðila að þeir kæmu með till. um breytingar á lögunum. Fuglafriðunarnefnd var einn þessara aðila. Fulltrúi Sambands dýraverndunarfélaga í n., Sigurður Richter, kom fram með brtt. við 20. gr. sem er efnislega samhljóða þessu frv. mínu. Og fuglafriðunarefnd hefur gert þessa till. að sinni og sent hana til endurskoðunarnefndar. Það eru m.ö.o. miklar líkur á því, að þessi breyting á 20. gr. verði með í till. sem endurskoðunarnefndin sendir frá sér um breytingar á fuglafriðunarlögum þegar þær till. koma fram. En á því gæti, eins og ég hef áður sagt, orðið alllöng bið.

Þær röksemdir hafa heyrst gegn þessu frv., að ef þetta yrði leitt í lög mundu þar með verða ónýtar til fuglaveiða þær byssur sem nú eru í landinu og taka fleiri skot en tvö. En mér hefur verið bent á að þetta er ekki rétt. Það er mjög einfalt að breyta þessum byssum eftir að ákvæðin um bann við þeim væru komin í lög, breyta þeim þannig að þau uppfylli skilyrði laga. Mér hefur verið sent ljósrit frá dönskum aðila sem fjallað hefur um þessi mál, og þar er útskýrt hvernig að þessu er farið. Ég ætla ekki að fara að útskýra það hér, en það virðist vera mjög einfalt að finna tæknilega lausn á þessu, þannig að þeir, sem eiga þessar byssur nú þegar, þyrftu ekki að verða fyrir neinu tjóni ef þessi ákvæði, sem ég hef talað um, yrðu leidd í lög. Þeir geta haldið áfram að nota sínar byssur.