31.10.1977
Neðri deild: 10. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í B-deild Alþingistíðinda. (239)

40. mál, skólakostnaður

Flm. (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Á þskj. 41 hef ég leyft mér að flytja ásamt hv. þm. Jónasi Árnasyni og Sighvati Björgvinssyni frv. til l. um breyt. á I. nr. 49 frá 1967, um skólakostnað. Þar er lagt til í 1. gr., að á eftir 1. mgr. 7. gr. laganna komi ný mgr. sem hljóði svo:

„Þó skal ríkissjóður ávallt greiða 75% áætlaðs stofnkostnaðar sundlauga í útgerðarstöðum sem hafa innan við 4000 íbúa.“

Einnig er í frv. gert ráð fyrir ákvæði til bráðabirgða, svo hljóðandi:

„Einnig skal ríkissjóður greiða 75% áætlaðs stofnkostnaðar þeirra sundlauga, sem eru í byggingu og ekki hefur verið gengið formlega frá samningum um kostnaðarskiptingu.“

Samhljóða frv. þessu hefur verið flutt á tveimur undanförnum þingum og ekki hlotið afgreiðslu. Þess er því enn freistað að flytja þetta mál, því að að áliti okkar flm. er hér um mikilsvert réttlætismál að ræða sem við teljum að nauðsyn sé á að fái framgang. Í bæði skiptin, sem sams konur frv. hefur verið flutt, hefur verið flutt nokkuð ítarleg framsaga fyrir þeim. Ég skal ekki fara að rekja hér frá orði til orðs þau rök sem þá voru fram sett málinu til stuðnings, en ég vil þá aðeins minna á örfá þeirra.

Það er alkunna að sundkennsla er mikilvægur liður í menntun barna og unglinga, enda er lágmarkskunnátta í sundíþróttinni gerð að skilyrði til fullnaðarprófs. Nú hefur það verið svo mörg undanfarin ár og áratugi, að ekki hefur verið hægt að fullnægja þessari sundskyldu samkvæmt fræðslulögum vegna þess að aðstaða hefur ekki verið fyrir hendi á hinum ýmsu stöðum á landinu til þess að framfylgja þessari lagaskyldu. En þó að sundkennsla og sundkunnátta sé nauðsynleg börnum og unglingum á grunnskólastiginu, þá er slík kunnátta ekki síður nauðsynleg á þeim stöðum þar sem grundvallaratvinnuvegur er fiskvinnsla og sjósókn. Svo nauðsynleg sem sundkennsla er unglingum, þá er hún þó enn þá brýnni þeim einstaklingum í þjóðfélaginu og á þessum stöðum sem byggjast gera sjómennsku að ævistarfi, og það er ekki síst með tilliti til þessa sem þetta frv. er flutt.

Eins og nú háttar til varðandi kostnaðarskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga, þá er hér um helmings kostnaðarskiptingu að ræða. Eins og stjórnvöld hafa hagað málum varðandi mannvirkjagerð, hönnun og byggingar allar, þá er ljóst að tiltölulega fámenn sveitarfélög, eins og hér er í flestum tilfellum um að ræða, hafa ekki fjárhagslegt bolmagn til þess að standa undir framkvæmdum af þessu tagi. Það hefur oft verið á það bent, að það mætti ábyggilega snara nokkuð mikla fjármuni með breyttri stefnu við hönnun og byggingu íþróttamannvirkja. Ég hef verið og er einn af þeim sem hafa tekið undir það sjónarmið. Ég er handviss um að það er hægt að spara mikla fjármuni með breyttri stefnu að því er varðar íþróttamannvirki, hönnun þeirra og byggingu. En við þetta hafa sem sagt þessi sveitarfélög orðið að búa. Hér hefur ríkisvaldið sett skorður, ákvarðað með hvaða hætti þessi mannvirki skyldu byggð, og því aðeins eru þau styrkhæf að þau njóti samþykkis ríkisvaldsins.

Í þessu frv., sem hér er nú til umr., og í frv:, sem flutt hafa verið á tveimur undanförnum þingum, er gert ráð fyrir að miða þessa breytingu við útgerðarstaði sem hafa innan við 4 þús. íbúa. Þessi takmörkun varðandi 75% regluna, sem frv. gerir ráð fyrir, hefur sætt nokkurri gagnrýni hjá sumum hv. þm. og þeir á það bent, að það sé óæskilegt að gera upp á milli sveitarfélaga með þeim hætti sem hér er lagt til að gert verði. Við flm. þessa frv. erum hins vegar allt annarrar skoðunar. Við teljum að þjóðfélaginu sé skylt að sjá svo um að á þessum stöðum, þar sem eru langsamlega flestir af þeim sem stunda atvinnu við aðalatvinnuveg þjóðarinnar, sem er sjósókn, séu ekki hvað síst sköpuð þau skilyrði sem þeir, sem hyggjast stunda sjómennsku, geti hagnýtt sér til sundnáms og sundiðkunar, því að staðreyndin er sú, að í mörgum tilfellum hefur slík kunnátta sjómanna bjargað mannslífum. Það er einmitt þetta sem er kannske stærsta málið að því er þetta varðar, að hér er um að ræða öryggistæki sjómönnum til handa sem getur verið þeirra lífgjafi á erfiðustu stundum. Við teljum því, flm. þessa frv., að það sé ekki aðeins æskilegt. heldur eðlilegt að taka þessa staði út úr og veita þeim forgang til uppbyggingar slíkra mannvirkja.

Þegar frv. sama efnis og þetta var flutt á síðasta Alþingi fylgdu sem fskj. nokkrar upplýsingar um stöðu í hinum ýmsu kjördæmum að því er varðaði aðstöðu til sundiðkunar. Nú er rétt að taka það fram, að þessar upplýsingar voru fengnar á s.l. vetri og þá hjá íþróttafulltrúa menntmrn. og rétt að taka það fram, að vel má vera að einhver breyting hafi orðið á þessari stöðu síðan. Hún er þó að minni hyggju ekki veruleg, þannig að meginefni frv. er fullkomlega eðlilegt að sé fram sett þrátt fyrir að einhver breyting hafi orðið á þessum aðstæðum. En í frv., sem flutt var á síðasta Alþingi, kom fram að ef miðað væri við 4 þús. íbúa regluna var hér alls um að ræða 62 staði sem mundu að öllum líkindum falla undir þessa reglu. Af þessum stöðum voru 30 staðir sem enga aðstöðu höfðu til sundkennslu eða sundiðkunar. Nær helmingur af öllum þessum útgerðarstöðum, sem höfðu undir 4 þús. íbúa, höfðu enga aðstöðu til sundkennslu eða sundiðkunar, 11 staðir höfðu ófullnægjandi aðstöðu eða aðstöðu sem var í smíðum, og aðeins 21 staður hafði sundaðstöðu sem talin var viðunandi.

Hér er vissulega að okkar áliti um að ræða alvarlegt mál, þegar það kemur í ljós að meira en helmingur þeirra útgerðarstaða, sem eru með 4 þús. íbúa eða færri, hefur alls enga aðstöðu til sundkennslu eða sundiðkunar, — útgerðarstaða þar sem, eins og áður hefur verið að vikið, atvinna er grundvölluð á sjósókn. Er því að okkar áliti ekkert áhorfsmál að hér þurfi breytinga við, og það er þess vegna sem þess er enn freistað þriðja þingið í röð að flytja þetta mál og fá þá breytingu sem frv. gerir ráð fyrir að lögfesta. Ég a.m.k. fyrir mitt leyti vil ekki trúa því fyrr en ég tek á því, að þm. almennt séu ekki þeirrar skoðunar að það sé réttlætanlegt að gera undantekningu í þessum efnum. Því er alltaf borið við, að það sé ekki fjármagn til þess að setja í þennan og þennan hlutinn. Eftir því sem færri staði er um að ræða eða verkefnið er afmarkaðra, eftir því þarf minni fjármuni. En með því að halda fram því, sem alltaf hefur verið haldið fram í sambandi við þetta frv. og mörg önnur, að það sé bókstaflega út í hött að taka út úr í þessu tilfelli útgerðarstaði sem eru með 4 þús. íbúa eða færri, þarna ætti hið sama að gilda alls staðar, með því er beinlínis verið að segja að það verði ekkert gert í málinu, því við vitum ósköp vel að við fáum ekki þessa reglu fyrir allt landið, enda vafasamt að mínu áliti að neitt réttlæti sé í því. En það er fullkomlega réttlætanlegt að mínu viti að gera undantekningu að því er þessa staði varðar.

Í bæði skiptin sem þetta frv. hefur verið flutt hefur það farið til hv. menntmn., og hún hefur í bæði skiptin, muni ég rétt, skilað áliti og þar kemur einmitt fram þetta vafasama sjónarmið að mínu áliti, þ.e.a.s. að hv. nm. telja vafasamt að gera lagalega mismunun, eins og þeir orða það, á hlutdeild ríkissjóðs við byggingu sundlauga á þeim grundvelli sem frv. ætlast til. Sem sagt, að áliti hv. menntmn. þessarar d. er vafasamt að gera þá undantekningu í þessum efnum að sjómenn á útgerðarstöðum geti lært að synda og geti haldið við þeirri kunnáttu. Það er varasamt að áliti hv. menntmn. Nd. Alþ. Það er það vafasama sem hér er verið að benda á af hálfu n. Ég trúi því ekki að hv. nm. í menntmn., þegar þeir skoða þetta mál og hugleiða það, séu ekki sammála okkur flm. þessa frv. um að það sé ekkert vafamál að slíka undantekningu eigi að gera, það sé beinlínis skylda þjóðfélagsins að gera það, því að hverjir ættu að njóta umframréttar í þessum efnum ef ekki þeir sjómenn sem hér um ræðir og stunda sjómennsku frá þessum stöðum. Það er það sem er fyrst og fremst um að ræða.

Í nál. kemur fram að hv. menntmn. segist vera að taka undir álit íþróttafulltrúa ríkisins í sambandi við þetta mál. Í nál. segir að íþróttafulltrúi ríkisins telji einnig vafasamt að gera þessa undantekningu. Hvað sem því líður, þá vona ég a.m.k, að nú, þegar málið er flutt í þriðja skipti á Alþ., þá auðnist Alþ. að taka þannig á þessu máli, sem er stórmál a.m.k. í hugum okkar flm. og er stórmál í hugum þeirra sem hugsanlega kæmu til að njóta þessa, — að þá taki Alþ. myndarlega á þessu máli. Hér er ekki um þær fjárhæðir að ræða sem skipta sköpum að því er varðar fjárútlát úr ríkissjóði. því var lýst í umr. um þetta mál á síðasta Alþingi, að sú breyting, sem þá var lagt til og enn er lagt til að gerð verði, mundi, miðað við verðlag á s.l. vetri, nema um 200 millj. kr., þessi 25% aukning í þátttökukostnaði ríkissjóðs frá því sem er mundi kosta ríkissjóð um 200 millj. kr. Og a.m.k. að mínu áliti er fullkomlega réttlætanlegt að breyta í þá átt frá því sem nú er þó að það kosti 200 millj. kr. meira úr ríkissjóði en það mundi ella kosta.

Í bæði skiptin, sem hv. menntmn. d. hefur skilað nál. varðandi frv., hefur hún lagt til að málinu væri vísað til ríkisstj. Við vitum hvað það hefur í raun og veru þýtt og þýðir þegar verið er að samþ. að vísa máli til ríkisstj. án þess þó að sterklega sé mælt með úrlausnum efnisatriða viðkomandi frv. Hér er því ekki til að dreifa. En n. telur hins vegar að málið sé í sjálfu sér mikilvægt. Og það er einmitt það sem við flm. leggjum höfuðáherslu á. Málið er svo mikilvægt að við teljum að það sé ekki vansalaust af Alþ. að halda öllu lengur að sér höndum og breyta hér um, þrátt fyrir að það kynni að kosta þessa eða eilítið hærri upphæð úr ríkissjóði að málið næði fram að ganga.

Ég skal ekki eyða öllu lengri tíma í það, herra forseti, að mæla fyrir frv. Það hefur verið gerð ítarleg grein fyrir efni frv. tvívegis og ekki ástæða til að orðlengja það öllu frekar. Ég taldi þó rétt að víkja örfáum orðum að meginþáttum frv., en ég vænti þess að hv. Alþ. sjái sóma sinn í því í raun og veru að taka þetta mál nú fastari tökum en það hefur gert á tveimur undanförnum þingum og að málið nái fram að ganga áður en Alþ. lýkur störfum í vor.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.