06.04.1978
Neðri deild: 73. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3226 í B-deild Alþingistíðinda. (2396)

254. mál, meðferð mála vegna rangrar notkunar stöðureita fyrir ökutæki o.fl.

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., um sérstaka meðferð mála vegna rangrar notkunar stöðureita fyrir ökutæki o. fl., er samið af réttarfarsnefnd samkv. ósk dómsmrn. Það er mikilvægt atriði í sambandi við hraðari meðferð dómsmála að hin smæstu mál íþyngi ekki óhæfilega dómstólakerfinu, en fjöldi þessara mála er geysimikill svo sem kunnugt er. Hefur verið horfið að því ráði í nágrannalöndum að hætta að fara með slík málefni sem refsimál og fjalla í þess stað um þau sem gjaldtöku. Er þar fyrst og fremst um að ræða tæknilegt umhugsunarefni um fyrirkomulag gjaldtökunnar. — Þótt áliðið sé þingtímans nú þykir rétt að kynna þetta mál á þessu þingi.

Frv. var sent Umferðarráði til umsagnar og hafa komið frá því ýmsar ábendingar um atriði sem það telur rétt að fyrir yrði komið með öðrum hætti en í frv. er gert ráð fyrir. Er það fyrst og fremst um tæknileg atriði. Ljóst var, að ekki mundi vinnast tími til að samræma þessi sjónarmið á svo skömmum tíma að unnt yrði að kynna málið á þessu þingi. Hef ég því talið rétt að leggja málíð fram eins og réttarfarsnefndin gekk frá því, með það í huga að senda þn., sem málið fær til umfjöllunar, þær aths. sem gerðar hafa verið um fyrirkomulag á meðferð þessara málefna af hálfu Umferðarráðs.

Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð, en vísa til aths. með frv., til frvgr. og aths. með þeim.

Ég leyfi mér að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.