06.04.1978
Neðri deild: 73. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3227 í B-deild Alþingistíðinda. (2398)

255. mál, söluskattur

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen) :

Virðulegi forseti. Eins og fram kemur í aths. við þetta frv. er um að ræða breytingu á ákvæðum söluskattslaga sem varða viðurlög. Viðurlög við að skila ekki söluskatti eru ákveðnar prósentur af þeirri upphæð sem vangreidd er. Með tilliti til þeirra miklu vaxtabreytinga, sem átt hafa sér stað að undanförnu, eru þau ákvæði, sem nú gilda, orðin óraunhæf og þeir aðilar, sem skila ekki söluskatti, fá með því lán með betri kjörum en þeim býðst í viðskiptabönkum í dag. Því er eðlilegt að þessi ákvæði laga um söluskatt. breytist. Er gert ráð fyrir að í staðinn fyrir 2%, sem stendur í 21. gr., komi 4% og hámarksprósentan 10 verði 20.

Með tilvísun til þessa leyfi ég mér að leggja til að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.