12.10.1977
Neðri deild: 2. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í B-deild Alþingistíðinda. (24)

Umræður utan dagskrár

Magnús Kjartansson:

Hæstv. forseti. Ég lagði áherslu á það í þeim orðum sem ég mælti hér áðan, að menn yrðu að minnast þess að kosningarréttur er mannréttindi og á ekki að skerða, hvorki út frá eign manna, kynferði manna, búsetu eða neinum öðrum ástæðum.

Hv. þm. Karvel Pálmason kom upp í ræðustólinn á eftir og minnti á að það væri um að ræða mismunandi mannréttindi íslenskra þegna á fleiri sviðum. Þetta er alveg rétt. En þetta er ekki röksemd fyrir því, að það eigi að skerða mannréttindi að því er varðar kosningarrétt.

Hv. þm. Karvel Pálmason sagði að ýmsir landshlutar væru verr settir en Reykjavík og þyrftu þess vegna að hafa aukin mannréttindi á þessu sviði. Ég held að vandi þessara byggðarlaga verði ekki leystur með því, að menn hafi þar gildari kosningarrétt en aðrir. Í tíð fyrrv. ríkisstj. störfuðum við hv. þm. Karvel Pálmasin saman að stefnumótun og framkvæmdum sem höfðu þann tilgang að auka jafnrétti milli allra byggða í þjóðfélaginu, og það náðist mjög mikill árangur á þessu sviði, m.a. á Vestfjörðum þar sem þessi hv. þm, er kjörinn. Þetta var ekki vegna þess að Vestfirðingar ættu svo feiknalega marga fulltrúa hér á þingi, heldur vegna þess að það var samstaða um það, pólitísk samstaða nm að standa þannig að málum að auka jafnrétti fólks um allt land á þessum sviðum. Ég tók þátt í þessu samstarfi sem Reykvíkingur, og ég var þrautseigari í þessu samstarfi en hv. þm., sem hljópst á brott áður en ríkisstj. var búin að vinna að því markmiði sem hún hafði sett sér.

Það er nú svo hér á þingi, að ég hef aldrei orðið var við það — aldrei, að fulltrúar Reykjavíkur litu á sig sem fulltrúa Reykjavíkurkjördæmis eins. Fulltrúar Reykjavíkur hafa alltaf litið á sig sem fulltrúa landsins alls, og það er skynsamleg regla. Þannig eiga raunar allir þm. að líta á sig sem eru kjörnir hér á þing.

Hv. þm. Karvel Pálmason talaði í sambandi við misrétti, að lífsafkoma manna hér í Reykjavík og á Reykjavíkursvæðinu væri betri en úti um landið. Þar hefur verið mismunandi ástatt eftir tímabilum. Það hafa verið tímabil þar sem lífskjör manna í Reykjavík hafa verið mun þrengri en lífskjör manna úti á landi. Og mér finnst satt að segja hálfleiðinlegur sá tónn, sem ég heyri stundum úr ræðustól Alþingis hjá sumum fulltrúum utan af landi, að tala með árásarhreim um Reykjavík, tala t.a.m. um að hér sé allt of margt fólk. Við skulum gera okkur það fullkomlega ljóst, að ef við viljum hafa nútíma þjóðfélag á Íslandi, eins og við verðum að gera, þá verðum við að hafa myndarlega höfuðborg sem getur staðið undir ýmiss konar athöfnum á sviði menntamála, á sviði menningarmála og vísinda o.s.frv., sem koma þjóðinni allri að gagni, en þurfa á býsna stórum þéttbýliskjarna að halda til að hægt sé að halda slíkri starfsemi uppi. Og það er algjörlega rangt að vera að egna til einhverrar óvildar á milli Reykjavíkur og annarra landshluta. Fyrir því eru engin rök. Ég staðhæfi: fyrir því eru engin rök. Því er nú þannig háttað eða hefur verið háttað til skamms tíma um Reykvíkinga, að þeir hafa verið að verulegum hluta til aðfluttir frá öllum héruðum landsins. Hér í Reykjavík hafa verið starfandi átthagafélög, ég veit ekki hvað mörg, en þau halda hér bæði fundi og skemmtisamkomur reglulega. Þetta fólk ber ákaflega hlýjan hug til átthaga sinna og vill mikið fyrir þá gera, eftir því sem unnt er, og ég kannast ekki við að nein önnur sjónarmið séu uppi hjá þm. Reykv. en að líta á landið allt sem verkefni sitt. Það er ekki rígur á milli Reykjavíkur og annarra landshluta sem sker úr, heldur skoðanir manna um stjórnmálaleg og félagsleg atriði.

Hv. þm. Karvel Pálmason taldi að menn ættu að hafa aukin réttindi að því er varðar kosningarrétt ef þeir byggju utan Reykjavíkur. Þessi hv. þm. hefur greint frá því opinberlega, að hann ætli næst að bjóða sig fram utan flokka. Kannske fáum við að heyra þá röksemd hjá honum, að menn, sem bjóða sig fram utan flokka, eigi að hafa forréttindi fram yfir þá sem starfa innan flokka og það þurfi t.a.m. færri atkv. til að koma utanflokkamanni á þing en þeim sem er flokksbundinn. Þetta er alveg nákvæmlega sama röksemdin og sú almenna, að menn eigi að hafa aukinn kosningarrétt af því þeir búi í einhverju byggðarlagi fjarri Reykjavík. Það er fjarstæða að gera kosningarrétt að einhverju samningsatriði. Hann er mannréttindi og það á að líta á hann sem mannréttindi. Það á ekki að versla með kosningarrétt gagnvart neinu öðru, og það er engin þörf á því heldur til að leysa vandamál í landinu að gera það með skerðingu á kosningarrétti.