06.04.1978
Neðri deild: 73. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3229 í B-deild Alþingistíðinda. (2404)

213. mál, þroskaþjálfar

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason) :

Hæstv. forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir um þroskaþjálfa, er komið frá Ed. Þar var gerð á því smávægileg breyting, nánar tiltekið orð lagsbreyting, sem er til hins betra. Frv. er samið af heilbr: og trmrn. að beiðni Félags þroskaþjálfa og er að miklu leyti byggt á till. félagsins. Þetta frv. er að flestu leyti samhljóða öðrum lögum sem sett hafa verið á undanförnum árum til þess að tryggja hinum ýmsu heilbrigðisstéttum lögvernduð starfsréttindi.

Þroskaþjálfar eru eina starfsstéttin hér á landi sem sérstaklega er menntuð til þess að þjálfa, ala upp og veita þroskaheftum umönnun. Gert er ráð fyrir að þroskaþjálfar starfi með þroskaheftum einstaklingum hvar sem, þeir dveljast. Þannig er starf þroskaþjálfa ekki eingöngu við það miðað, að þeir starfi inni á stofnunum þar sem slíkir einstaklingar eru vísaðir. Þroskaþjálfar eru enn fremur eina starfsstéttin sem sérstaklega er menntuð til þess að veita stofnunum fyrir þroskahefta forstöðu, þar sem Þroskaþjálfaskóli Íslands er eini skólinn hér á landi sem veitir markvissa kennslu í uppbyggingu og starfsemi slíkra stofnana.

Þroskaþjálfaskóli Íslands hefur á undanförnum missirum tekið miklum breytingum. Í upphafi var námið að mestu leyti bundið við vangefna og störfuðu þroskaþjálfar í fyrstu nær eingöngu með vangefnum einstaklingum. Fljótlega urðu þroskaþjálfar eftirsóttir til starfa með því fólki sem víkur frá því eðlilega á einhvern hátt, andlega eða líkamlega. Þroskaþjálfaskólinn hefur fylgt þessari þróun og miðast námið nú við fleiri tegundir fötlunar en vangefna. Það skal þó skýrt undirstrikað, að starf með vangefnum er og verður aðalstarfsvettvangur þroskaþjálfa.

Með hliðsjón af framansögðu er ljóst, að störf þroskaþjálfa eru víðtæk og ekki á færi nema sérþjálfaðs fólks. Það er fyrst og fremst með hliðsjón af þessu sem þetta frv. er fram borið, til þess að tryggja á sem bestan hátt að störf á þessum vettvangi skili sem bestum árangri fyrir einstaklinginn og þjóðfélagið.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri en legg til, hæstv. forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til heilbr.- og trn.