06.04.1978
Neðri deild: 73. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3236 í B-deild Alþingistíðinda. (2409)

169. mál, Kvikmyndasafn Íslands og Kvikmyndasjóður

Frsm. (Ingvar Gíslason) :

Herra forseti. Þetta frv. um Kvikmyndasafn Íslands og Kvikmyndasjóð hefur verið til umr. í menntmn. hv. Nd. og rætt þar. N. hefur orðið sammála um að leggja til að frv. verði samþykkt óbreytt.

Um þetta frv. urðu nokkrar umræður við 4. umr. málsins á sinni tíð. Ég sé ekki ástæðu til að bæta þar neinu við öðru en því, að menntmn. er mjög sammála um, að þetta mál nái fram að ganga og telur að miðað við aðstæður verði þetta frv., ef að lögum verður, mjög til styrktar kvikmyndagerð í landinu. En sannleikurinn er sá, að við Íslendingar höfum dregist verulega aftur úr öðrum þjóðum í sambandi við þessi mál og styrkjum okkar kvikmyndagerð miklu minna en gerist í nálægum löndum og gerist yfirleitt í öðrum löndum á svipuðu menningarstigi og þjóðfélag okkar er. Af þessum ástæðum teljum við í menntmn., að þetta frv. sé til verulegra bóta og framför frá því sem verið hefur. Leggjum við eindregið til að þetta frv. verði samþykkt óbreytt.