06.04.1978
Neðri deild: 73. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3236 í B-deild Alþingistíðinda. (2412)

124. mál, umferðarlög

Frsm. (Ellert B. Schram) :

Herra forseti. Hér er um að ræða frv. til l. um breyt. á umferðarlögum, 124. mál. Það gerir ráð fyrir því, að í lögin komi ný grein er verði 94. gr. og kveði á um það, að rn. geti heimilað aksturskeppni á vélknúnum ökutækjum við aðstæður og undir eftirliti sem nánar verði kveðið á um.

N. hefur tekið þetta frv. til meðferðar og gert á því breytingar, þannig að í stað þess að taka inn nýja grein, sem verði 94. gr., verði bætt við 50. gr., sem heitir þá 50. gr. a, svo hljóðandi ákvæði :

„Óheimilt er að efna til akstursíþrótta án leyfis lögreglustjóra. Ef slík íþrótt er háð á vegum utan kaupstaða og kauptúna skal koma til samþykki vegamálastjóra. Akstursíþrótt, sem felur í sér keppni í ökuhraða, er óheimil án leyfis dómsmrh. Dómsmrh. getur sett nánari reglur um akstursíþróttir.“

Þessi breyting er gerð að höfðu samráði við dómsmrn. Breytingin er meira formleg, vegna þess að segja má að efnislega sé það frv., sem upphaflega var flutt, samþykkt, enda þótt þessi breyting sé gerð þar á þ. e. a. s. það inntak frv. að setja skuli reglur um slíka íþrótt eða slíka keppni og það sé háð eftirliti og samþykki viðkomandi yfirvalda.

Allshn. er sammála því að mæla með þessari breytingu, en tveir nm., hv. þm. Svava Jakobsdóttir og Páll Pétursson, skrifa undir með fyrirvara.,