06.04.1978
Neðri deild: 73. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3237 í B-deild Alþingistíðinda. (2413)

124. mál, umferðarlög

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Svo sem kom fram í máli hv. flm. þessa frv. og frsm. n. hef ég skrifað undir nál. með fyrirvara.

Þegar þetta frv. kom fram var ég andvíg því, að það yrði samþykkt. En ég tel að sú breyting, sem n. hefur gert á því, sé til mikilla bóta, þannig að ég hef treyst mér til að fylgja því með fyrirvara. Ég er eindregið á móti aksturskeppni og þeirri vitleysu sem farið er að tíðka hér á Íslandi, að fólk setjist upp í bíla og þeytist um holt og móa og þjóðvegi við hvers konar kringumstæður. Síðan erum við mötuð á þessu í sjónvarpi endalaust, hvenær sem það á sér stað, og sú auglýsing er miklu fyrirferðarmeiri heldur en þegar um er að ræða íþróttir, eins og t. d. sundíþróttina, svo ég nefni eina grein. Mér finnst keppni af þessu tagi lýsa bernskuhugarfari. Við vitum að þetta getur valdið slysum og örorku, og mér er ekki nokkur leið að finna slíkri keppni nokkuð til málsbóta.

Hitt er annað mál, að ég hef fallist á þau rök, að úr því að til er fólk í landinu sem skipuleggur þetta og ekki er beinlínis bann við því, þá sé þó skömminni skárra að það sé háð eftirliti og leyfi, eins og allshn. leggur nú til. Samkv. frv. þarf leyfi lögreglustjóra og eftir aðstæðum vegamálastjóra, og akstursíþrótt, sem felur í sér keppni í ökuhraða, er óheimil án leyfis dómsmrh. Að lokum mælir n. svo fyrir um, að dómsmrh. setji nánari reglur um þessar íþróttir. Ég vona fyrir mitt leyti, að hann hafi þær sem strangastar.