10.04.1978
Efri deild: 76. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3244 í B-deild Alþingistíðinda. (2417)

49. mál, hlutafélög

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason) :

Herra forseti. Þetta frv. gerir ráð fyrir tveimur breytingum á lögum um Verðlagsráð sjávarútvegsins. Önnur þessi breyting er að Verðlagsráðið skuli framvegis ákveða verð á síldarúrgangi, en ákvörðun verðs á honum hefur ekki heyrt undir Verðlagsráð til þessa. Um verð á síldarúrgangi hefur verið samið milli síldarsaltenda og þeirra aðila sem kaupa þennan úrgang. Meðan síld var veidd til bræðslu var það samkomulag á milli aðila, að verð á síldarúrgangi skyldi vera ákveðið hlutfall af verði síldar til bræðslu, en eftir að veiðar á síld voru leyfðar að nýju til manneldis fyrir þremur árum hafa veiðar til bræðslu hins vegar verið bannaðar og verða það vafalaust enn í mörg ár. Af þeim sökum hefur verð á síld til bræðslu ekki verið ákveðið undanfarin ár og framangreind hlutfallsregla um verð á síldarúrgangi því verið ónothæf.

Komið hefur í ljós að töluvert misræmi hefur verið á því verði sem greitt er fyrir þennan síldarúrgang á ýmsum stöðum. Síldarsaltendur hafa sérstaklega óskað eftir því, að Verðlagsráð ákveði verð á síldarúrgangi framvegis, og hefur Verðlagsráðið fallist á það fyrir sitt leyti, en með þessu frv. er leitað heimildar fyrir Verðlagsráð til þess að verða við þessari beiðni. Ekki þykir ástæða til að hreyta skipulagi ráðsins að öðru leyti en því, að í stað fulltrúa fisksöluaðila í fiskúrgangsdeild komi fulltrúi síldarsaltenda við verðlagningu á síldarúrgangi.

Hin breytingin, sem frv. fjallar um, er að lifur frá veiðiskipum verði framvegis verðlögð í fiskúrgangsdeild. Fulltrúar í fiskdeild Verðlagsráðsins eru fyrst og fremst fulltrúar söluaðila að því er varðar lifur, en lifrarkaupendur hafa þar enga fulltrúa. Þeir hafa lýst því yfir, að þeir eigi erfitt með að sætta sig við þetta fyrirkomulag, en ekki þykir ástæða til að setja á stofn sérstaka deild við Verðlagsráðið vegna þessarar verðlagningar einnar, enda munu kaupendur að lifur sætta sig við að fulltrúar kaupenda í fiskúrgangsdeild gæti hagsmuna þeirra.

Það er m. ö. o. um þessi tvö atriði sem þetta frv. fjallar. Því fylgja meðmæli allra aðila Verðlagsráðsins, að þessar breytingar verði gerðar á lögunum.

Ég legg svo til, herra forseti, að að þessari umr. lokinni verði málinu vísað til hv. sjútvn.