31.10.1977
Neðri deild: 10. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 319 í B-deild Alþingistíðinda. (242)

40. mál, skólakostnaður

Jónas Árnason:

Herra forseti. Hv. þm. Ellert Schram nefndi hér háar tölur áðan, 60 þús. manns, sagði hann, að væru innan íþróttahreyfingarinnar. Menn geta verið aðilar að ýmsum félagsskap, menn geta verið á skrá, t.d. í stjórnmálaflokkum, án þess að starfa þar nokkuð. Ég vil biðja hann um nánari skýringu á því, hvernig þessi tala fæst, 60 þús. manns á Íslandi. Iðkar þetta fólk íþróttir að staðaldri? Ég bið hv. þm. um að skýra þetta út nánar.

Ég er feginn því, að hann tekur undir það sem ég sagði áðan um nauðsyn þess að auka þátttöku almennings í íþróttum eða líkamsrækt. Við skulum ekki endilega kalla þetta íþróttir, við skulum kalla þetta líkamsrækt. Ég býst við að gönguferðir manna yrðu seint kallaðar íþróttir, en þær eru að sjálfsögðu líkamsrækt. Þetta ber að auka og er að verða mikil nauðsyn fyrir þetta þjóðfélag, sem eins og önnur skyld þjóðfélög er að verða hrjáð af ýmsum sjúkdómum sem af því stafa, af því orsakast að menn sitja allt of mikið kyrrir, hreyfa sig ekki. Ég er ansi hræddur um að í áróðri blaða eða fjölmiðla yfirleitt felist viss þversögn, þeim mun meira af keppnisíþróttinni, sem tiltölulega fáir taka þátt í, þeim mun meira sitja menn kyrrir. Íþróttaafrekin, sem við sjáum í sjónvarpi, gætu leitt til þess, að menn yrðu heilsuslappir, menn sitji meira kyrrir við það að lesa um eða horfa á þessar íþróttir, hreyfi sig ekki eins mikið og þeir gerðu áður.

Ég held að við ættum að gefa alvarlega gaum að þessu, og þá um leið mætti e.t.v. beina því til fjölmiðla, hvort ekki mætti taka eitthvað af þeim tíma og rúmi, sem varið er undir keppnisíþróttirnar, til þess að vekja áhuga almennings á líkamsrækt almennt, vekja áhuga á að almenningur fari að taka þátt í íþróttum, leggja stund á líkamsrækt almennt. Mætti ekki læða því inn í hinar vinsælu íþróttafréttir öðru hvoru, að þeir, sem á horfa og sitja heima í hægindastólum, hefðu gott af að hreyfa sig líka.