11.04.1978
Sameinað þing: 64. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3271 í B-deild Alþingistíðinda. (2448)

223. mál, útflutningur tilbúinna fiskrétta

Fyrirspyrjandi (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir svör hans, sem voru eins ítarleg og við var að búast, svo og fyrir þær vangaveltur sem hann endaði ræðu sína á. Ég heyri á honum, að það muni vera skoðun þeirra manna, sem gerst þekkja, að aðstæður hafi ekki breyst svo að mögulegt sé að flytja fullvinnslu á fiski fyrir Ameríkumarkað hingað heim. Mér þykir þó ánægjulegt að heyra hann segja, að víð verðum að stefna að því eftir föngum að gera fiskinn verðmætari áður en hann er fluttur úr landi, ef finnanleg eru millistig á því sviði.

Augljóst er, þegar lesnar eru tölur um að 500–600 manns hafi atvinnu í tveimur íslenskum verksmiðjum vestan hafs, að hér er um að ræða mikið atvinnumál, sem Íslendingar verða að reyna, ef þess gefst kostur í framtíðinni, að flytja sem mest hingað heim. Þetta er fiskiðnaður á allra fullkomnasta stigi — iðnaður sem þarf töluvert mikið vinnuafl og því meira sem við getum í framtíðinni flutt af slíkri starfsemi hingað til lands í stað þess að hún fari fram erlendis, því betra.

Það var mjög athyglisvert sem hæstv. ráðh. sagði í lokin, að útfærslan í 200 mílur hefði á ýmsan hátt gert okkur vandasamari sölu á afurðum okkar og skapað ný viðhorf í samkeppni. Það hefur veríð þekkt um nokkra áratugi, að bandarísk stjórnvöld hafa rekið stefnu í innflutningsmálum á fiski sem hefur haft í för með sér að þeirra eigin fiskiðnaður, sérstaklega í Nýja-Englandi, hefur nálega lagst niður, eða a. m. k. orðið langt á eftir tímanum hvað tæknilega þróun snertir. Á þessu getur orðið mikil breyting nú eftir að Bandaríkin fá 200 mílna landhelgi. Á það hefur verið minnst áður, að við þurfum að fylgjast vel með þeirri þróun, sérstaklega ef aðrar þjóðir taka upp á því að setja upp útgerðarfyrirtæki í Bandaríkjunum, sem mun vera tiltölulega auðvelt samkv. bandarískum lögum, og leppa þar verulegar fiskveiðar sem gætu orðið samkeppnisaðilar við okkur.

Það er einnig athyglisvert, hvernig Sovétríkin hafa leyst sitt vandamál. Það kom snemma fram á hafréttarráðstefnunni, að áhugi vanþróaðra ríkja á því að fá 200 mílur, sem vitað var að viðkomandi þjóðir höfðu engar aðstæður til þess að nýta, byggðust á því að selja fiskveiðiréttindi. Sú þróun er þegar í gangi og getur haft áhrif á markaðstöðu okkar.

Ég er sammála hæstv. ráðh. um það, að Vestur-Evrópa er það svæði sem við þurfum nú að beina athygli okkar mjög að varðandi framtíðarmarkaði. Á s. l. sumri fóru þm: nefndir bæði til Bretlands og Vestur-Þýskalands og áttu viðtöl við fólk bæði í Bremerhaven í Þýskalandi og í Grimsby í Englandi. Á báðum stöðum var auðheyrt að áhugi manna var að fá hráefni frá okkur. Þeir hafa aðstöðu til dreifingar og vinnslu og vilja fá hráefni.

Spurningin er, hvort sjónarmið okkar hlýtur ekki til frambúðar að vera að reyna að hafa sem mest af vinnslunni hér á landi, eins og hæstv. ráðh. sagði í svari sínu, reyna að hafa fiskinn sem allra verðmætastan þegar hann er fluttur út. Með þessu er ég þó engan veginn að andmæla því, að á vissum árstímum og við vissar aðstæður geti verið hagkvæmt fyrir fiskiskip okkar að selja ísaðan fisk erlendis:

Ég ítreka þakklæti mitt til hæstv. ráðh. fyrir svörin og þær upplýsingar sem hann veitti.